Bestur Damian Lillard tók við verðlaunagripnum sem kenndur er við Kobe heitinn Bryant eftir að hafa verið útnefndur maður Stjörnuleiksins.
Bestur Damian Lillard tók við verðlaunagripnum sem kenndur er við Kobe heitinn Bryant eftir að hafa verið útnefndur maður Stjörnuleiksins. — AFP/Stace Revere
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ja hérna. NBA-stjörnuleikinn fór fram í Indianapolis í fyrrakvöld hér vestra og áður en tíminn rann út hafði austurliðið skorað yfir 200 stig. Í leiknum í ár vann Austurdeildin hinn svokallaða „leik“ með 211 gegn 186

NBA

Gunnar Valgeirsson

gval@mbl.is

Ja hérna. NBA-stjörnuleikinn fór fram í Indianapolis í fyrrakvöld hér vestra og áður en tíminn rann út hafði austurliðið skorað yfir 200 stig.

Í leiknum í ár vann Austurdeildin hinn svokallaða „leik“ með 211 gegn 186.

Damian Lillard hjá Milwaukee Bucks var kosinn maður leiksins með 39 stig. Hann og heimamaðurinn Tyrese Haliburton voru atorkusamir við þriggja stiga skotin fyrir austurliðið og án varnarleiks andstæðinganna skoraði heimaliðið 104 stig í fyrri hálfleiknum. Sama sagan endurtók sig svo aftur í seinni hálfleiknum og því fór sem fór.

Alls 42 körfur í 97 tilraunum í þriggja stiga skotum skópu þetta stigaskor.

Vilja ekki meiðast

„Ég held að aðdáendur NBA-boltans njóti þessa leiks, en ég held að leikurinn ætti að vera aðeins meiri keppni. Boltinn hjá okkur í dag einkennist hins vegar af miklum hraða og við spilum marga leiki á keppnistímabilinu. Við sjáum það á öllum þessum meiðslum leikmanna. Af þeim sökum leggjum við mestu áhersluna á að meiðast ekki í leiknum,“ sagði Lillard á blaðamannafundi í leikslok.

Hann vann einnig þriggja stiga skotkeppnina á laugardag, þannig að hann gerði það gott um helgina.

Fyrir Vesturdeildarliðið setti Karl-Anthony Towns 50 stig, en það hefði getað verið hvaða leikmaður sem var.

Ekki lengur keppni

Undirritaður hafði vonað fyrir þennan leik að með því að skipta aftur yfir í keppni úrvalsliða úr Austur- og Vesturdeildum, myndu leikmenn kannski á ný leggja aðeins á sig í varnarleiknum, þó ekki væri nema til að láta líta út fyrir að þeim væri ekki sama.

Ég hefði átt að vita betur.

Rétt eins og undanfarinn áratug reyndi ekki einn einasti leikmaður svo mikið sem að láta líta út fyrir að hann hefði nokkurn áhuga á að stöðva andstæðinginn. Af þeirri ástæðu nýttu bestu leikmennirnir tækifærið og röðuðu niður þriggja stiga skotum – óáreittir – á milli þess sem þeir gátu troðið að vild án þess að nokkur svokallaður varnarmaður reyndi hið minnsta (og ég á við „minnsta“) til að stöðva hann.

Þetta voru því 48 leikmínútur þar sem ekkert markvert gerðist.

Sýning en ekki leikur

Af þessari ástæðu er í raun ekki um „leik“ að ræða, heldur sýningu. Þetta er alveg eins og þegar skautafólkið á Ólympíuleikunum heldur sýningu eftir að keppninni sjálfri er lokið.

Sem sýning var þetta hin besta sýning, en sem leikur var lítið varið í að horfa. Þetta er ekki körfuboltaleikur eins og við eigum að venjast, og þetta virðist nú vera hin nýja mynd af þessum sýningarleik, þangað til leikmönnum hættir að standa á sama. Leikmenn og þjálfarar hafa vitað þetta lengi og hafa lofað í hvívetna undanfarin ár að í „þetta sinn“ myndu þeir loksins leggja aðeins á sig við að spila alvöruleik fyrir áhorfendur.

Þeim er í raun alveg sama hvað öðrum finnst, svo lengi sem þeir geti sjálfir haft gaman þessa daga sem þeir eru saman vegna leiksins.

Ástæðan er einföld. Enginn þeirra þorir að leggja mikið á sig ef það gæti kostað meiðsli.

Það hefur ekki verið keppnishæfur Stjörnuleikur í deildinni síðan árið 2012 í Orlando – fyrir utan kannski leikinn eftir að Kobe Bryant lést árið 2020. Í leiknum árið 2012 braut Dwyane Wade nefið á Bryant.

Áhangendur eiga betra skilið

Það getur kostað stjörnuleikmenn í dag mikið ef þeir meiðast í þessum leik og það er skiljanlegt að þeir séu hræddir um það. Hins vegar hefur þetta viðhorf leikmanna og deildarinnar gagnvart Stjörnuleiknum gert það að verkum að fáir nenna að horfa á hann í sjónvarpi.

Þetta eru vissulega frábærir leikmenn með mikla hæfileika. Þeir virðast einnig flestir í dag hinir fínustu þjóðfélagsþegnar, sem skapa sér ákveðna ímynd út á við á samfélagsmiðlum. Þetta leiðir til þess að það er erfiðara og erfiðara fyrir aðdáendur NBA-boltans að hata stjörnuleikmenn á uppleið. Það er því minni heift í allri keppninni en á árum áður.

Þetta er allt í fína fyrir leikmennina, en hvað með aðdáendur NBA-boltans? Eiga þeir ekki smá keppnisskap skilið í þessum leik?

Squid Game, einhver?

Höf.: Gunnar Valgeirsson