Það hlýtur að vera spælandi að þurfa að bíða eftir afhendingu á nýjum Bentley út af agnarlitlu rafstykki frá óvönduðum birgi.
Það hlýtur að vera spælandi að þurfa að bíða eftir afhendingu á nýjum Bentley út af agnarlitlu rafstykki frá óvönduðum birgi. — Ljósmynd/Bentley
Bifreiðar af gerðinni Audi, Bentley og Porsche fá ekki tollafgreiðslu í Bandaríkjunum og hafa safnast upp á hafnarbökkum þar í landi á meðan unnið er að lausn. Að sögn Financial Times skrifast vandinn á íhlut sem framleiðendurnir fengu í gegnum…

Bifreiðar af gerðinni Audi, Bentley og Porsche fá ekki tollafgreiðslu í Bandaríkjunum og hafa safnast upp á hafnarbökkum þar í landi á meðan unnið er að lausn. Að sögn Financial Times skrifast vandinn á íhlut sem framleiðendurnir fengu í gegnum móðurfélagið Volkswagen Group, sem grunur leikur á að hafi verið fenginn hjá birgi sem notar þvingað vinnuafl í vesturhluta Kína.

Árið 2021 samþykktu bandarísk stjórnvöld lög sem banna innflutning á vörum frá Xinjiang-héraði í Kína, ef talið er að þvingað vinnuafl hafi verið nýtt við framleiðsluna. Í Xinjiang sætir fólk sem tilheyrir þjóðflokki Úígúra ofsóknum af hálfu stjórnvalda og er talið að á bilinu 500.000 til 800.000 manns sé þar haldið í fangabúðum fyrir litlar eða engar sakir og látið taka þátt í ýmiss konar verksmiðjuframleiðslu.

Að sögn fréttamiðla er um að ræða lítið rafbúnaðarstykki og varð Volkswagen Group þess áskynja í janúar að vandamál gæti verið í uppsiglingu. Er unnið að því að finna hentugan varahlut sem komið gæti í stað ólöglega íhlutarins og eru viðgerðir þegar hafnar. Mun það taka nokkrar vikur að laga bílana sem sitja fastir og koma þeim í hendur bandarískra kaupenda. ai@mbl.is