Það hefur sjaldan verið snúnara að fylgjast með kosningabaráttunni í Bandaríkjunum en nú. Og kemur margt til. Dómsmálaráðuneytið vestra, sem stýrt er af demókrötum, gengur ótrúlega langt í því að nota afl þess ráðuneytis til að tryggja að andstæðingur flokksins, Donald Trump, þurfi að flengjast á milli dómstóla, sem dómarar skipaðir af demókrötum stjórna, í fjölda ríkja. Að því skal vikið hér síðar.
Við það bætist að í kjördæmum þar sem demókratar hafa haft góða stöðu í nokkrum seinustu kosningum, en hafa veikari stöðu nú, hefur verið gripið til stórundarlegra örþrifaráða. Þar hefur hæstiréttur í viðkomandi ríki staðfest að ríkið sem á í hlut geti ákveðið að banna að frambjóðandi repúblikana, Trump fyrrverandi forseti, geti verið í kjöri þar, án þess að nokkur lög séu slíkum furðuaðgerðum til trafala!
Eftir að fyrsta ríkið hafði tekið ákvörðun af því tagi fylgdu nokkur önnur í kjölfarið. Þótti flestum sem sátu uppi með svo undarlega stöðu að hæstiréttur viðkomandi ríkja ætti orðið hlut að máli, þá væri óhjákvæmilegt að Hæstiréttur Bandaríkjanna léti málið til sín taka.
Ekki er sjónvarpað frá málflutningi í Hæstarétti Bandaríkjanna en útvarpað er frá því þegar talsmenn, með eða á móti, gera réttinum grein fyrir sínum sjónarmiðum. Og það sem meira er, og þyngstu vísbendingar um niðurstöðu þykir gefa, er að þá er einnig útvarpað þegar hæstaréttardómararnir spyrja aðilana út úr eða óska skýringa þeirra.
Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja níu dómendur og allir þeirra nýttu í þessu tilviki rétt sinn til spurninga og athugasemda. Hæstaréttardómararnir gefa ekki upp afstöðu sína á þessu stigi máls, enda eiga þeir þá eftir að fara yfir málið sameiginlega og eftir atvikum greiða atkvæði um niðurstöðuna. En þeir kunnáttumenn, sem hlustuðu á spurningar dómaranna til talsmanna beggja aðila, töldu að augljóst virtist að dómararnir flestir eða jafnvel allir hefðu miklar efasemdir og jafnvel undrun um framgöngu dómara einstakra ríkja, sem tekið höfðu þátt í svo skrítnum leik. Meðal annars spurði forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna á þá leið, hvort talsmenn gerningsins myndu ekki ætla að dómendur í ríkjum, þar sem pólitískur vilji stæði til annars en í huga þeirra sjálfra, myndu leggja til að strika mætti út og jafnvel banna andstæðingi Trumps að vera í framboði í ríki viðkomandi. Og varð þá að vonum fátt um svör.
Eftir þennan þátt þessa skrítna máls eru flestir þeirra, sem best þekkja til, þeirrar skoðunar að líklegast sé að dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna falli 8-1 eða 9-0, Trump í vil.