Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfum manns um miskabætur vegna sóttkvíar sem honum var gert að sæta vegna covid-19-veirunnar.
Málsatvik eru þau að maðurinn kom til Íslands í nóvember 2021 eftir stutta dvöl í Bretlandi en hann hefur lögheimili hérlendis. Þá var í gildi reglugerð sem sagði að honum bæri að sæta 14 daga sóttkví við komu landsins.
Maðurinn taldi sóttvarnaraðgerðir og athafnir yfirvalda vegna heimsfaraldursins hafa verið ólögmætar. Brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðu frelsi hans og þetta hafi verið réttlætt með óvísindalegum rökum. Meðalhófs hafi ekki verið gætt og jafnræðisregla brotin. Ákvörðun sóttvarnalæknis hafi loks brostið lagastoð.
Stjórnvaldsákvörðun sóttvarnalæknis, að láta manninn sæta sóttkví, hafði skýra stoð í ákvæðum sóttvarnarlaga segir dómurinn. Sóttvarnartíminn, 14 dagar, hafi jafnframt verið innan marka laganna. Hann hafi ekki sýnt fram á nein áreiðanleg gögn sem gátu stutt efasemdir hans um forsendur sóttvarnaraðgerða yfirvalda. Dómurinn hafnaði því að gengið hefði verið of nærri mannréttindum mannsins með því að láta hann sæta sóttkví í 14 daga og engin rök styddu að það hefði verið honum erfiðara en öðrum. Nauðsynlegt hefði verið að grípa til aðgerða til verndar lífs og heilsu manna.