Súgandisey Skjól hafnarinnar og fjölsóttur ferðamannastaður.
Súgandisey Skjól hafnarinnar og fjölsóttur ferðamannastaður. — Ljósmynd/Gunnlaugur
Ein þeirra eyja sem ríkið gerir kröfu um að verði þjóðlendur er Súgandisey í Stykkishólmi en þar siglir ferjan Baldur úr höfn sem dæmi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ein þeirra eyja sem ríkið gerir kröfu um að verði þjóðlendur er Súgandisey í Stykkishólmi en þar siglir ferjan Baldur úr höfn sem dæmi.

„Þar eru lögmenn ríkisins að gera kröfu um eyju sem sveitarfélagið hefur átt síðan 1907 með þinglýstum kaupsamningi. Það er engin óvissa um eignarhald sveitarfélagsins á þessum eyjum og mér finnst sérstakt að það sé í þeirri stöðu að þurfa að rökstyðja eignarrétt sinn á þeim gagnvart ríkinu,“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi. Fjármálaráðherra hefur sett fram kröfur ríkisins fyrir óbyggðanefnd um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist eyjar og sker. Er það 17. og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

„Óbyggðanefnd tók ákvörðun um að sleppa mikilvægu viðbótarskrefi í þessu ferli, sem var lögfest á árinu 2020, í raun þvert á tillögu ráðherra, sem hefði gefið ríkinu meira tilefni til að taka tillit til fyrirliggjandi eignarréttinda. Þannig hef ég ákveðinn skilning á því að lögmenn ríkisins geri ýtrustu kröfur en það er samt ekkert meðalhóf í þessari framgöngu að mínu mati. Hún tekur ekki mið af aðstæðum á svæðinu eða þinglýstum eignarheimildum hjá sýslumanni. Að einhverju leyti hefði verið hægt að afmarka sig við það,“ útskýrir Jakob og veltir fyrir sér hvort ekki megi falla frá einhverjum kröfum.

„Það myndi veita mörgum landeigendum hugarró ef hægt væri að falla frá þeim kröfum þar sem augljóst er að eignarrétturinn er vel skilgreindur, en lögmenn ríkisins hafa forræði yfir málinu og heimild til að falla frá kröfum fyrir óbyggðanefnd fyrir hönd ríkisins.“

Höf.: Kristján Jónsson