Brussel Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís, tekur hér í hönd Borrells, utanríkismálastjóra ESB, á fundi þeirra í gær.
Brussel Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís, tekur hér í hönd Borrells, utanríkismálastjóra ESB, á fundi þeirra í gær. — AFP/Yves Herman
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Júlía Navalnaja, ekkja rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní, hét því í gær að hún myndi halda merki eiginmanns síns á lofti og berjast fyrir frelsi Rússa undan ógnarstjórn Pútíns Rússlandsforseta. Navalnaja birti myndband á YouTube-rás eiginmanns síns heitins, þar sem hún sakaði Pútín um að hafa myrt hann eftir „þrjú ár af kvölum og pyndingum“.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Júlía Navalnaja, ekkja rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní, hét því í gær að hún myndi halda merki eiginmanns síns á lofti og berjast fyrir frelsi Rússa undan ógnarstjórn Pútíns Rússlandsforseta. Navalnaja birti myndband á YouTube-rás eiginmanns síns heitins, þar sem hún sakaði Pútín um að hafa myrt hann eftir „þrjú ár af kvölum og pyndingum“.

Skoraði hún á Rússa að standa með sér gegn Pútín og Kremlverjum. „Pútín tók frá mér það verðmætasta sem ég átti, mína nánustu og elskuðustu manneskju. En Pútín tók Navalní líka frá ykkur,“ sagði hún í ávarpi sínu.

Sagði Navalnaja jafnframt að aðstoðarmenn eiginmanns hennar vissu nákvæmlega hvers vegna hann hefði verið myrtur nú, og að verið væri að leita að nöfnum þeirra sem hefðu framið morðið.

Myndbandið birtist sama dag og Navalnaja fundaði með utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna. Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, sagði eftir fundinn að þeir hefðu vottað Navalnöju samúð sína og að Pútín og stjórn hans yrðu dregin til ábyrgðar fyrir andlát Navalnís.

Ráðherrarnir ræddu meðal annars á fundi sínum mögulegar refsiaðgerðir á vegum sambandsins sem hægt væri að beita Rússa vegna andlátsins. Sagðist Borrell eiga von á því að þeir sem bæru beina ábyrgð á meðferðinni á Navalní í fangelsi yrðu settir á svartan lista sambandsins, sem verður nú nefndur í höfuðið á Navalní honum til heiðurs. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði svo við blaðamenn í Hvíta húsinu að Bandaríkjastjórn íhugaði einnig frekari viðskiptaþvinganir á rússnesk stjórnvöld vegna andláts Navalnís.

Hafa enn ekki afhent líkið

Navalnaja sagði í myndbandinu að rússnesk yfirvöld neituðu enn að afhenda Ljúdmílu, móður Alexeis, lík sonar síns, jafnvel þó að þrír dagar væru liðnir frá andláti hans. Reyndi hún ásamt lögfræðingi Navalnís að sækja líkið í gær, en þeim var vísað á brott frá líkhúsinu.

„Þeir fela nú lík hans, neita að sýna það móður hans, neita að afhenda það. Þeir eru að ljúga og bíða eftir að leifarnar af enn einni Novichok-árás Pútíns hverfi,“ sagði Navalnaja og vísaði þar í atvikið haustið 2020 þegar eitrað var fyrir Navalní um borð í flugvél með Novichok-efnavopni.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að rússneska rannsóknarlögreglan hefði málið enn til rannsóknar og að „engar niðurstöður“ hefðu borist. Fordæmdi Peskov yfirlýsingar ráðamanna á Vesturlöndum, þar sem Pútín var sagður hafa myrt Navalní, og sagði þær algjörlega óásættanlegar.

Peskov vildi hins vegar ekki segja frá því hvernig Pútín hefði brugðist við tíðindunum af andláti Navalnís, eða hvenær aðstandendur hans mættu eiga von á því að fá lík hans afhent. Talsmaður Navalnís sagði hins vegar um kvöldið að þeim hefði verið tjáð að rússneska rannsóknarlögreglan myndi geyma lík hans í minnst tvær vikur til viðbótar.

Handtekin fyrir að leggja blóm

Rússnesku mannréttindasamtökin OVD-Info sögðu í gær að minnst 366 manns í 39 borgum Rússlands hefðu verið handteknir um helgina fyrir að minnast Navalnís, en fjöldi fólks lagði leið sína um helgina að hinum ýmsu minnismerkjum um fórnarlömb Stalíns og lagði þar kerti og blóm í nafni Navalnís.

Var 31 af hinum handteknu skipað að sitja inni í 15 daga fyrir að raska almannafriði. Flestum öðrum var sleppt eftir að hafa dvalið í fangaklefa í nokkra klukkutíma. Um helmingur hinna handteknu var í St. Pétursborg að sögn samtakanna. Tveir voru handteknir í Moskvu fyrir að leggja blóm við þann stað Bolshoi Moskvoretskí-brúarinnar þar sem stjórnarandstæðingurinn Boris Nemtsov var skotinn til bana árið 2015.

Grígorí Mikhnov-Vaitenko biskup, sem sagði skilið við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna eftir fyrri innrás Rússa í Úkraínu árið 2014, var handtekinn í St. Pétursborg þegar hann yfirgaf heimili sitt. Biskupinn hafði tilkynnt á netinu að hann ætlaði að halda bænastund vegna Navalnís, en biskupar mega halda trúarathafnir án þess að sækja um leyfi fyrirfram.

Mikhnov-Vaitenko var síðan fluttur af lögreglustöðinni á sjúkrahús en hann fékk heilablóðfall á meðan hann var í haldi lögreglunnar. Kollegi hans hélt bænastundina og voru tíu af þeim sem sóttu hana handtekin að henni lokinni.