Ástæða er til að styðja Ísrael en þrýsta á Hamas og Íran að hætta ofbeldinu

Eftir því sem átökin á Gasasvæðinu dragast á langinn eykst þrýstingur á Ísrael að hætta aðgerðum og semja um vopnahlé við hryðjuverkamennina sem ábyrgð bera á hörmungunum sem nú eiga sér stað. Athygli vekur að á sama tíma er ekki þrýst á hryðjuverkasamtökin Hamas og enginn reynir að draga fulltrúa þeirra til ábyrgðar. Þó ættu að vera hæg heimatökin, að minnsta kosti fyrir yfirvöld í Katar, sem spila stórt hlutverk í viðræðum við hryðjuverkamennina. Þar búa ýmsir af helstu forsprökkum hryðjuverkasamtakanna í vellystingum og vita ekki aura sinna tal. Hvernig stendur á því að engum spjótum er beint gegn Hamas á sama tíma og hamast er gegn Ísrael?

Sömu spurningar hljóta að vakna um hinn aðalleikara átakanna í Mið-Austurlöndum nú, og raunar þann sem ber mesta ábyrgð á átökum á svæðinu á undanförnum árum, ekki síst eftir að forsetar demókrata í Bandaríkjunum hafa ítrekað ausið í hann fé. Þetta er vitaskuld Íran, klerkastjórnin þar, sem kyndir undir ófriði um öll Mið-Austurlönd auk þess að senda dróna til Rússlands sem nýttir eru í innrásinni í Úkraínu. Og sams konar dróna senda klerkarnir til Húta í Jemen sem nota þá til árása á flutningaskip og fleiri skotmörk. Hvernig stendur á því að ekkert er gert til að draga stjórnvöld í Íran til ábyrgðar og engin mótmæli eru gegn þeim, á sama tíma og Ísrael, sem 7. október mátti þola skelfilega hryðjuverkaárás Hamas, sætir sífelldum árásum og gagnrýni af ýmsu tagi frá margvíslegum hópum og jafnvel stjórnvöldum á Vesturlöndum?

Væri ekki nær að beina þrýstingnum og andúðinni að hryðjuverkamönnunum og stjórnendum þeirra og stuðningsmönnum í Íran?