Þórey Aðalsteinsdóttir fæddist 27. maí 1938 á Akureyri. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 11. febrúar 2024 á Skjóli hjúkrunarheimili í Reykjavík.

Foreldrar Þóreyjar voru hjónin Aðalsteinn Tryggvason, f. 21.9. 1908, d. 29.12. 1966, og Kristín Konráðsdóttir, f. 30.8. 2010, d. 2.5. 1978.

Systkini hennar voru Konráð, f. 12.11. 1934, d. 1.5. 2014, Fríða, f. 26.10. 1942, d. 24.7. 2008, og Tryggvi, f. 20.5. 1948.

Börn Þóreyjar með fyrri eiginmanni sínum, Árna Birni Árnasyni, f. 1935, eru: 1) Líney, f. 1957, maki Magnús Jósefsson, f. 1953. Börn þeirra: Tinna, f. 1981, Telma, f. 1983, Jón Árni, f. 1991, og Hjörtur Þór, f. 1994. 2) Kristín Sóley, f. 1959, maki Kristinn Eyjólfsson, f. 1946. Börn þeirra: Sif Erlingsdóttir, f. 1983, Almarr Erlingsson, f. 1985, og Styrmir Erlingsson, f. 1988, Hrólfur Máni Kristinsson 1973, Stefán Snær Kristinsson, f. 1977, og Grétar Orri Kristinsson, f. 1980. 3) Aðalsteinn, f. 1968, maki Guðrún Jóhannsdóttir f. 1960. Dóttir þeirra: Guðrún Íris Úlfarsdóttir, f. 1981. 4) Laufey, f. 1973, maki Juan Ramón Peris López, f. 1965. Börn þeirra: Lydia Miriam, f. 1986, og Álvaro, f. 2007. 5) Þórey, f. 1975, maki Höskuldur Þór Þórhallsson, f. 1973. Börn þeirra: Steinunn Glóey, f. 2003, Fanney Björg, f. 2006, og Þórhallur Árni, f. 2008. Langömmubörnin eru 16.

Eftirlifandi maður Þóreyjar er Baldur Gíslason f. 1947. Með honum bættust í barnahópinn: 1) Stefanía, f. 1969, maki Óðinn Gunnarsson, f. 1975. Börn þeirra: Gústaf Kári Óskarsson, f. 1999, Ingunn Íris Óskarsdóttir, f. 2002, Óðinn Þór Óðinsson, f. 1993, Gunnar Freyr Óðinsson, f. 2003, og Svanhildur Sif Óðinsdóttir, f. 2006. 2) Gísli Marteinn, f. 1972, maki Vala Ágústa Káradóttir, f. 1972. Dætur þeirra: Elísabet Unnur, f. 1997, og Vigdís Freyja, f. 2001.

Þórey var fædd og uppalin á Akureyri og bjó þar með Árna Birni og börnum til ársins 1991. Til Reykjavíkur flutti hún svo 1997 þegar hún hóf sambúð með Baldri.

Þórey lifði og hrærðist innan leikhúsheimsins nær alla sína starfsævi. Lengst af hjá Leikfélagi Akureyrar sem leikkona og fjármálastjóri allt til 1997, en starfsferlinum lauk hún sem miðasölustjóri hjá Þjóðleikhúsinu árið 2008. Hún lagði af mörkum til samfélagsins með virkri þátttöku í Soroptimistaklúbbi Akureyrar og á seinni árum sinnti hún sjálfboðaliðastörfum hjá Rauða krossinum. Hennar mikilvægasta hlutverk var þó alla tíð móður- og ömmuhlutverkið.

Þórey unni íslenskri náttúru og smitaði þeim náttúruáhuga til afkomenda sinna. Hún stundaði göngur og útivist alla ævi, elskaði að ganga á fjöll, fara á skíði með fjölskyldunni, hjóla, spila golf og ferðast jafnt innanlands sem utan.

Útför Þóreyjar fer fram frá Neskirkju í dag, 20. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku fallega tengdamóðir mín, Þórey Aðalsteinsdóttir, lést í faðmi fjölskyldunnar hinn 11. febrúar sl.

Ég líkt og margir Akureyringar kynntist Þóreyju fyrst á fjölum leikhússins á Akureyri. Hún var ein af þeim leikurum sem draga ósjálfrátt til sín athygli með sterkri nánd og geislandi bjartri framkomu. Framkomu sem fyllti sal leikfélagsins og fékk leikhúsgesti til að hverfa inn í draumkenndan heim leiklistarinnar. Heim sem hún er vafalaust stödd í núna.

Þannig birtist hún mér líka þegar ég bankaði upp á í Lönguhlíð 7b í Þorpinu á Akureyri fyrir 32 árum til að sækja hana Eyju mína á því sem átti að vera okkar fyrsta stefnumót. Geislandi leikkonan opnaði dyrnar og tilkynnti þessum frekar föla og stressaða unga manni á dramatískan hátt að, nei því miður væri Eyja ekki heima. Eftir að hafa leyft unga manninum að kyngja a.m.k. tvisvar, tvístíga nokkrum sinnum og áður en hann hvarf alfarið ofan í jörðina bætti hún við á góðlegan, en líka á pínu kankvísan hátt, en ég veit að hana langaði að hitta þig.

Þessi orð lyftu unga manninum upp á yfirborðið aftur og gott ef hann varð ekki örlítið hnarreistur í leiðinni. Svo þurfti ekki að spyrja að leikslokum.

Þórey var nefnilega ein af þeim sem eiga alltaf eitthvað af elsku til að gefa öllum þeim sem umgangast þá. Hún hafði alltaf tíma fyrir sína nánustu, gerði aldrei mannamun og átti auðvelt með að setja sig inn í aðstæður annarra á nærgætinn hátt. Hún var svo sannarlega ein af þeim sem draga ekki aðeins upp jákvæðu hliðarnar á tilverunni heldur var líka ein af björtum hliðum hennar.

Fólk sem hefur þessa hæfileika á það einnig til að eldast í raun aldrei. Þannig var það með hana Þóreyju. Hún alltaf jafn glæsileg og bjó yfir myndarbrag sem jókst í samræmi við það sem hún óx sem manneskja.

Það er erfitt að draga upp nógu stór orð til að lýsa því hversu gott það var að eiga Þóreyju að. Hún var ekki bara góð móðir heldur var hún líka einstaklega góð vinkona Eyju minnar og máttu þær aldrei hvor af annarri sjá. Traustið þeirra á milli var fullkomið enda var alltaf tími til að gera eitthvað skemmtilegt eins og að borða saman, fara í gönguferðir, í leikhús eða bara einfaldlega vera saman.

Börnin okkar minnast einnig ömmu sinnar af mikilli hlýju. Ömmu sem gat leikið við álfa og tröll og búið til spennandi ævintýraheima. Ömmu sem gat snarað upp kjötbollum í brúnni sósu á svipstundu ef kallað var eftir. Ömmu sem hafði tíma og ömmu sem gott var, ásamt afa Baldri, að koma til.

Brosið sem mér mætti mér, þetta örlagaríka kvöld fyrir 32 árum, er mér sérstaklega minnisstætt nú þegar hugurinn leitar til baka eftir að Þórey fékk að yfirgefa þennan heim á kyrrlátan hátt í faðmi sinna nánustu. Brosið sem ég fékk eftir að hún fullvissaði mig um að Eyju langaði að hitta mig en hefði lent í smá vandræðum fylgir mér alla tíð og mun aldrei hverfa úr huga mér.

Aldrei bar skugga á samskipti okkar og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að eiga svolítið í tengdamóður minni og að hún hafi allan þennan tíma verið svo nálæg mér, Eyju og börnunum okkar.

Ég minnist Þóreyjar með hlýju og söknuði. Hvíl í frið elsku Þórey og Guð blessi þig.

Höskuldur Þór
Þórhallsson.

Við göngum með fram Ægisíðunni. Hlustum á öldurnar í sjónum, fuglana syngja og finnum sandinn smjúga á milli tánna. Við kíkjum eftir flóði eða fjöru, fyllum vasana af fallegum steinum og löbbum til baka, heim, upp Fornhagann. Ilmur af ömmukökum, kjötbollum og pönnukökum liggur í loftinu þegar við komum heim til ömmu. Við stöndum á blístri nokkrum andartökum síðar, aðeins kominn úr skó hægri fótar, og horfum á tómar matarskálarnar fyrir framan okkur. Það jafnast ekkert á við matinn hennar ömmu. Við förum úr skó vinstri fótar og skorum á ömmu að spila lönguvitleysu. Við systkinin vinnum hvert á fætur öðru. Enn í dag vitum við ekki hvort sigurinn hafi einfaldlega verið vegna mikilla hæfileika í spilinu eða vegna töfrandi áhrifa frá álfum í nágrenninu.

Amma, sem trallaði og trítlaði um holt og hóla, trallar nú og trítlar að eilífu í minningum okkar. Ljósið hennar skín í gegnum hjörtu allra sem hafa orðið á hennar vegi. Hún minnir okkur á ástina, ævintýrin og gleðina. Amma kenndi okkur allra best að nota hugmyndaflugið og að búa til okkar eigin ævintýri. Með sitt fallega bros og hlýja knús sýndi hún okkur að allt er hægt. Með ömmu leituðum við að álfum í steinum og heyrðum af tröllum á fjöllum. Við hlógum þegar hún lék hin ýmsu hlutverk í sögustundum í afmælum okkar krakkanna og fundum traust í faðmi hennar þegar hún bjargaði okkur frá Grýlu og jólakettinum á jólaleikritinu okkar, Leitin að jólunum. Leikriti sem við fórum saman á árlega í 20 ár.

Elsku amma. Í dag stöndum við úti í glugga, kveðjum með fingurkossum og veifum upp til þín, nákvæmlega eins og þú kvaddir okkur alltaf.

Við þökkum hlýhug og umhyggju. Elskum þig.

Þín ömmubörn,

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni.

Elsku amma.

Ég dýfi heitum tásum í ískaldan sjóinn, horfi til hafs, tek á móti öldunum, kalla gleðihróp upp í vindinn – hæ hó – og hugsa til þín elsku amma. Þú ert með mér, ég veit það.

Amma skvísa, þú sást ávallt það jákvæða í lífinu og kenndir okkur barnabörnunum að sjá fegurðina allt um kring, Í hrjóstrugu grjótinu, mjúkum mosanum, grasinu, lækjarniðnum, rokinu sem ruglar á manni hárið, frostinu, sólinni, ísköldum og úfnum sjónum, sólsetrinu, jafnvel stigunum og tækifærinu sem gæfist til að hlaupa upp þá í stað þess að taka lyftuna.

Ég á svo ótalmargar minningar og mér hlýnar í hjartanu við að rifja þær upp. Alltaf var jafn gaman í heimsóknum okkar til þín og afa á Akureyri. Stundum fengum við systur að ferðast einar með rútunni og þá löbbuðum við frá rútustöðinni upp í leikhús þar sem amma leikkona og töfrandi ævintýraheimur leikhússins beið okkar. Oftar en ekki fórum við í Fjallið eða hoppuðum og skoppuðum um Kjarnaskóg. Ég minnist líka notalegra kvöldstunda þar sem við þrjár lágum öfugar í rúminu með fætur uppi á vegg og þú sagðir okkur leyndardómsfullar og spennandi sögur af álfum og tröllum.

Við höfðum það líka svo gott saman þegar ég, hálffullorðin háskólastelpa, fékk að búa hjá ykkur Baldri í Kópavoginum. Þá áttum við margar dýrmætar og góðar stundir. Við hlustuðum á nýjasta geisladiskinn með Hjálmum og spjölluðum um lífið, fórum í sund og borðuðum mintukjúlla á la amma. Það var gott.

Manstu þegar við vorum að sauma efnið utan um vögguna? Við vorum alveg að verða búnar, þá leistu á mig og sagðir: „Nú ertu orðin þreytt, Telma mín, við skulum segja þetta gott í bili, þú ættir að fara snemma að sofa.“ Eldsnemma morguninn eftir missti ég vatnið út um allt og þú komst um leið, skúraðir gólfið og kláraðir saumaskapinn. Þú sást þetta fyrir.

Vesturbæinn áttum við líka saman. Það var svo dásamlega stutt að labba með strákana til þín í kaffi. Það var líka alltaf tími til að drekka kaffi, hvort sem það var um miðjan dag eða á miðnætti. Síðast í haust sagðirðu við mig rétt rúmlega tíu að kvöldi: „Eigum við ekki að fá okkur kaffi?“

Mikið sem ég er þakklát fyrir að strákarnir mínir hafi fengið að kynnast þér, ömmu lönguvitleysu, og ævintýraljómanum þínum.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér, lífið er dásamlegt og ég ætla að muna það.

„Love you!“

Þín

Telma.

Ömmu Eyju er best lýst með tilfinningunni sem maður fann sem barn að ganga inn í leikhúsið á Akureyri, prúðbúinn, fullur eftirvæntingar, iðandi í sætinu og bíða þess að tjaldið sé dregið frá og að sýningin byrji, að gleðin og fjörið nái nýjum hæðum.

Okkar minning af ömmu sem leikkonu byggist mest á leikritinu Dýrunum í Hálsaskógi þar sem hún fór að okkar mati með aðalhlutverkið, Ömmu mús, sem smellpassaði henni svona líka. Við bræður vildum meina að leikritið hefði verið samið fyrir hana og sögðum það hverjum sem vildi hlusta, jafnvel fleirum. Amma átti ábyggilega auðvelt með að stilla sig inn í hlutverkið þar sem hennar fas einkenndist af einlægni, ást og útgeislun.

Það má segja að tíminn með ömmu sé að mörgu leyti eins og leiksýning, sýning sem skiptist upp í kafla með mismunandi minningum. Fyrsti kafli okkar bræðra hófst með henni á Akureyri, í íbúðinni í Skarðshlíðinni þar sem maður gat hlaupið út úr stofunni á jarðhæð út á blettinn fyrir utan, að klifra í trjánum eða rölta út á róló, þar sem hún snerist hringi í kringum okkur með ópum og æjum, blöndu af gleði og áhyggjum af þessum óvarkáru sveitadrengjum sem æddu um eins og þeir ættu heiminn.

Næsti kafli var í Reykjavík, ekki munum við nú götuheitið þar sem við vorum nokkuð stuttir í loftinu, en við beygðum til hægri hjá Pizza 67. Fáar minningar eigum við frá þessum stað nema að það var brekka í garðinum, hentaði illa fyrir fótboltaiðkun og amma hafði dálæti á því að búa til kjúkling í minturjómasósu sem okkur þótti sem betur fer góður.

Þriðji kafli var einnig í borg óttans, nánar tiltekið í Kópavoginum. Þegar við bræður fórum í kaupstaðinn með foreldrum okkar sá amma alltaf til þess að við hefðum hús yfir höfuðið, hún tók það nokkuð bókstaflega þar sem við fengum að gista í kjallaranum í þessu stóra og glæsilega húsi. Þegar við komum suður fengum við alla hennar athygli og sá hún til þess að aldrei væri dauð stund.

Fjórði kaflinn er í Vesturbænum, var þá aðeins farið að hægjast á þeirri gömlu og snerust þær stundir meira um að ræða málin og njóta þess að vera saman, eiga góða stund yfir kaffibolla og ræða það sem á daga manns hafði drifið. Síðustu árin glímdi hún við sín veikindi en það virtist vera sama hvað var að hrjá hana þá var hún alltaf jákvæð og gerði lítið úr sínum vandamálum. Kvart og kvein var ekki til í hennar orðabók.

Fimmti kaflinn er að kveðja og þakka fyrir allar minningarnar. Má þar einna helst nefna áramótin sem amma og Baldur áttu hér fyrir norðan með okkur. Þá kvöddum við gamla árið með brennu og blysum og byrjuðum það nýja með því að vaða í ísköldum sjó eða tærri lind, því hvað er meira hressandi en að starta árinu með slíkum ferskleika. Hún vildi meina að það héldi manni ungum en okkur fannst þetta aðallega kalt, spurning hvort okkar hugmyndafræði breytist með aldrinum.

Elsku amma, nú hefur þú hneigt þig fyrir okkur, tjaldið verið dregið fyrir og við klöppum fyrir þér og þínum afrekum í lífinu, minningin lifir.

Jón Árni og Hjörtur Þór.

Við systkinin kynntumst Þóreyju þegar þau pabbi fóru að vera saman fyrir 30 árum eða svo. Þau fóru hægt í sakirnar, voru í fjarsambandi og svo til skiptis á Akureyri og í Reykjavík en megnið af sinni sambúð hafa þau verið hér fyrir sunnan, okkur til mikillar gleði. Við nutum þeirra forréttinda að deila með Þóreyju mörgum af okkar mikilvægustu stundum. Hún var dásamleg amma barnanna okkar, vinkona okkar og maka okkar en auðvitað fyrst og fremst sambýliskona pabba okkar. Samband þeirra var frá fyrstu tíð fullt af gleði og hamingju og þau virtust bæði ákveðin í að gera líf sitt saman skemmtilegt. Og það smitaði út frá sér til afkomendanna báðum megin sem samtals telja mikinn fjölda barna, barnabarna og á síðustu árum barnabarnabarna. Þórey var natin og ástúðleg við allan þennan barnaskara og við systkinin og fjölskyldur okkar höfum fengið að njóta þess. Hluti af gleðinni við að kynnast Þóreyju var að kynnast börnum hennar og fjölskyldum þeirra. Þar fer dásamlegur hópur sem ber uppeldi og atlæti Þóreyjar gott vitni.

Það var alltaf líf og fjör í boðum hjá pabba og Þóreyju enda kunnu þau að meta góðan mat og vín, tónlist, bækur, leiklist og aðrar lystisemdir lífsins. Þau höfðu líka gaman af útivist og hreyfingu. Þau kynntust í skipulagðri gönguferð yfir Laugaveginn og héldu svo uppteknum hætti og hjóluðu og gengu yfir fjöll og firnindi. Sumar ferðir voru metnaðarfyllri en aðrar og þegar þau hjóluðu lengri leiðir eins og yfir Sprengisand gat þeim dottið í hug að senda fólk á bíl til að skjóta kannski einni rauðvín ofan í gjótu sem hægt væri að finna óvænt! Þau vörðu góðum stundum í bústaðnum austur í Lóni og síðar í Hraunborgum þar sem þau gerðu sér lítinn unaðsreit nálægt góðum golfvelli, því að fyrir utan að láta pabba reima á sig gönguskóna dreif Þórey hann bæði í golfskó og skíðaklossa – sem við höfðum aldrei séð hann í fram að því. Þau vörðu ótal stundum í Hlíðarfjalli á fyrstu árunum en hin síðari ár fengu golfvellir landsins, og annarra landa, að finna fyrir þeim. Þórey var um árabil lykilmanneskja í Leikfélagi Akureyrar og síðar í Þjóðleikhúsinu. Og alla tíð sáu þau pabbi langflest sem fór á fjalirnar. Því miður sáum við systkinin Þóreyju aldrei á leiksviði því að hún var hætt að leika en farin að sjá um fjármál og miðamál þegar hún tók saman við pabba en ótal sinnum sáum við leikkonuna Þóreyju taka völdin í veislum eða hinu daglega lífi og þá geislaði enn meira af henni en alla jafna og þá er mikið sagt.

Elsku Þórey okkar hefur gengið af sviðinu í leikhúsi lífsins í síðasta sinn. Við erum þakklát fyrir kynnin og allar þær góðu stundir sem við áttum með Þóreyju og börnin okkar syrgja ömmu sína. Hún færði gleði í líf okkar allra og góðar minningar munu lifa um ókomna tíð.

Stefanía, Gísli Marteinn og fjölskyldur.

Gæfusamri lífsgöngu Þóreyjar Aðalsteinsdóttur á þessari jörð er lokið. Mikil er hennar arfleifð með fimm börnum og fjölda afkomenda þeirra. Einstaklega vel gert fólk sem hefur fengið gott veganesti. Arfleifð hennar í leikhúsheiminum lifir líka í hjörtum áhorfenda og samstarfsmanna hennar í leikhúsunum. Og í hjörtum ástvina sem þótti undurvænt um hana.

Vinátta okkar Þóreyjar hófst árið 1982 er hún var framkvæmdastjóri og leikari við Leikfélag Akureyrar þegar ég hóf þar störf sem leikhússtjóri. Hún var einstaklega góður fjármálastjóri og var mín hægri hönd við reksturinn. Samhliða því skaust hún upp á svið og lék eins og enginn væri morgundagurinn. Á vorin gengum við fullar bjartsýni og eldmóði fyrir fjármálaráðherra, menntamálaráðherra, bæjarstjóra og kaupfélagsstjóra með ósk um fjárhagsstuðning leikfélaginu til handa og urðum fengsælar. Þeir voru færri milliliðirnir þá. Við unnum saman hjá LA í fjögur góð ár og svo aftur er ég réð mig þangað að nýju eftir fimm ára hlé og vinnu í Þjóðleikhúsinu. Þá styrktust vináttuböndin enn frekar, báðar orðnar fráskildar og börnin að vaxa úr grasi. Í hádeginu gengum við frá Samkomuhúsinu upp Menntastíginn og fórum í sund og eftir vinnudaginn gjarnan í leikfimi líka. Með tímanum eignuðumst við nýja maka, Árna og Baldur, sem bundust vináttuböndum. Síðan hafa samverustundirnar orðið ótal margar og nánar bæði í leikhúsi og einkalífi, í ferðalögum og við golfiðkun. Örlögin höguðu því líka þannig að dætur okkar Laufey og Guðrún Jóhanna bjuggu í Madríd með fjölskyldum sínum, svo þær urðu ófáar Spánarferðirnar með golfsettin í farteskinu.

Þórey var alltaf gullfalleg og glæsileg með glettnisglampa í leiftrandi augunum. Hún var hlý í viðmóti, hógvær, glaðleg, léttfætt og mikið náttúrubarn sem elskaði að ganga berfætt í flæðarmálinu. Við áttum svolítið yfirskilvitlegt samband þar sem ekki þurfti að segja margt til að skilja fullkomlega hvor aðra, skilningsríkur og traustur vinur. Hún var djúpvitur, kannski skyggn.

Saga Leikfélags Akureyrar hefði orðið nokkuð önnur ef Þóreyjar hefði ekki notið við. Hún steig fyrst á svið 17 ára sem Mary í gamanleiknum Þrír eiginmenn sofa heima haustið 1955 og átti síðan eftir að leika þar um 60 hlutverk stór og smá. Eftir fjárhagsörðugleika leikhússins 1980 og algjöran viðsnúning 1981 var hún ráðin framkvæmdastjóri og varð hún eins og móðir LA í áratugi meðan aðrir komu og fóru. Alltaf var hún þó með annan fótinn á sviðinu. Hún hlaut frá upphafi alltaf lofsamlega dóma um leik sinn eins og lesa má í sögu Leikfélags Akureyrar. Af burðarhlutverkum Þóreyjar má nefna Dísu í Galdra-Lofti 1963, Jósefínu í Bör Börssyni jr. 1961, Sigrúnu í Munkunum á Möðruvöllum 1964, Heiði í Skrúðsbóndanum 1965, Juliu Körner í Swedenhielmfjölskyldunni 1966, Ösp í Brönugrasinu rauða 1969, Rósu í Sjálfstæðu fólki 1978, Agnesi í Skáld-Rósu 1981, Dollý í Súkkulaði handa Silju 1983 o.fl. Túlkun hennar á Mary Lynn Eaton í Stálblómum 1991 er mér ógleymanleg.

Guð geymi þig og þína elsku vinkona.

Signý Pálsdóttir.

„Urð og grjót, upp í mót.“

Alvöruþrungin rödd ömmu kveður. Við göngum í urðinni, hlið við hlið – við hlið ömmu. Á leið upp á næsta hól. Úti í náttúrunni.

„Velta eftir urð og grjóti, aftur á bak og niðr' í móti. Leggjast flatur. Líta við. Horfa beint í hyldýpið.“

Amma hlær að dramatíkinni. Glettin.

Lífsglöð og bjartsýn. Kenndi okkur snemma að flestar fjallgöngur lífsins væru ekkert tiltökumál þótt á brattann væri að sækja. Óskaplega ómerkileg meira að segja sum þessara hyldýpa. Svona í stóra samhenginu. Mikilvægt að dvelja í birtunni og gleðinni. Muna hvað við höfum það gott. Og, ef mikið liggur við, fara þá út í náttúruna og æpa aðeins upp í vindinn. Það lagar flest. Gera svo svolítið grín að þessu öllu saman – og sjálfri sér í leiðinni. Taka lífið ekki of hátíðlega.

„Rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin náttúruna.“

Við stökkvum á milli steina og yfir móa og læki. Amma lætur sjaldnast þar við sitja. Fer úr skóm og sokkum. Dýfir tánum út í. Vöðum. Hlæjum. Leyfum vatninu að flæða yfir kroppinn. Kuldinn er heilnæmur segir hún. Hlustum á vindinn og fuglana og tínum blóm. Og grjót. Drögum heim óendanlega mikið grjót, fallega steina og gersemar. Það er nefnilega svo góð orka í þeim.

Amma náttúrubarn. Og leikari. Leikkonan amma.

Töfrar leikhússins fylgdu með í allar fjallgöngur lífsins með ömmu. Leikhúsið á Akureyri með draugunum á smíðaverkstæðinu og marrandi stiganum upp á kaffistofu. Búningageymslan, ljósin, sviðið og fallegu rauðu stólarnir. Leikhústöfrarnir voru líka í hversdeginum, yfir kaffibollanum og hversdagsspjallinu um daginn og veginn. Í því hvernig hún bar sig, fallega. Hvernig hún talaði, hugsaði og miðlaði lífsgleðinni. Til okkar. Umkringd álfum og góðum vættum í steinunum.

Því hversu mjög sem mönnum finnast fjöllin há, ber hins að minnast, að eiginlega er ekkert bratt, aðeins mismunandi flatt.

Elsku fallega amma mín og langamma.

Takk fyrir allt það góða sem þú gafst okkur.

Þú lifir í okkur.

Þínar stelpur,

Tinna, Líney og Móey.