Guli og svarti liturinn passar vel við útlínur McLaren 720 bílsins.
Guli og svarti liturinn passar vel við útlínur McLaren 720 bílsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sportbílaframleiðandinn McLaren svipti um helgina hulunni af bíl fyrir næsta þolkappaksturs-keppnistímabil FIA. Bílnum er ætlað að keppa í nýjum flokki, LM GT3, þar sem notaðir eru lítið breyttir verksmiðjuframleiddir bílar

Sportbílaframleiðandinn McLaren svipti um helgina hulunni af bíl fyrir næsta þolkappaksturs-keppnistímabil FIA. Bílnum er ætlað að keppa í nýjum flokki, LM GT3, þar sem notaðir eru lítið breyttir verksmiðjuframleiddir bílar.

Mun McLaren tefla fram tveimur bifreiðum af gerðinni 720 GT3 EVO og verða þær merktar með tölustöfunum 59 og 95 með vísan til þess að það var McLaren-bifreið með keppnisnúmerið 59 sem varð hlutskörpust í Le Mans-kappakstrinum árið 1995.

Hönnuðum McLaren hefur tekist einkar vel til við að skreyta ökutækið með svörtu og gulu mynstri. Þá sést á myndum að GT3-útgáfan af 720-sportbílnum er með stækkað loftinntak og bíllinn víðari um sig í kringum dekkin. Aflið fær bifreiðin frá 4 lítra V8-vél af gerðinni M840T en nákvæmar afltölur liggja ekki fyrir.

Bíl númer 59 verður ekið af Svisslendingnum Gregoire Saucy, Bretanum James Cottingham og Brasilíumanninum Nicolas Costa. Áhöfn bíls númer 95 samanstendur af Japananum Marino Sato, Sílebúanum Nico Pino og Bretanum Josh Caygill.

Fá bílarnir að spreyta sig í Katar 2. mars næstkomandi, þegar fyrsta mót keppnisársins 2024 fer fram. ai@mbl.is