Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra segir ríkið ekki ætla að sölsa undir sig eyjar landsins heldur sé markmiðið að eyða óvissu um eignarréttindi lands. Ráðherrann áréttar þetta í aðsendri grein hjá Vísi og hefur farið þess á…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra segir ríkið ekki ætla að sölsa undir sig eyjar landsins heldur sé markmiðið að eyða óvissu um eignarréttindi lands.

Ráðherrann áréttar þetta í aðsendri grein hjá Vísi og hefur farið þess á leit við óbyggðanefnd að hún endurskoði afstöðu sína í þjóðlendumálinu sem verið hefur til umfjöllunar að undanförnu. Hefur Þórdís „farið þess á leit að óbyggðanefnd hefji að nýju málsmeðferð um eyjar og sker með þeim hætti sem ráðuneytið óskaði eftir í mars 2023“.

Lokahnykkur á gömlu verkefni

Nefnir hún að ráðuneytið hafi lagt til við óbyggðanefnd í fyrra að fara aðra leið á svæði 12. Lögunum um þjóðlendur hafi verið breytt árið 2020 og þar hafi verið lagt til að óbyggðanefnd yrði heimilt að hefja málsmeðferð vegna landsvæða utan strandlengju meginlandsins með áskorun um að lýsa réttindum eins og nýlega gerðist.

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið lagði til við óbyggðanefnd, í mars 2023, að farin yrði þessi leið á umræddu svæði 12. Óbyggðanefnd féllst ekki á sjónarmið ráðuneytisins í bréfi í apríl 2023 og tók ákvörðun um að hin hefðbundna málsmeðferð skyldi eiga við. Það er mjög miður,“ skrifar Þórdís og af skrifunum má ráða að hún sé ekki sérlega hrifin af málinu en geðþótti sitjandi ráðherra eigi ekki að ráða för. Hún tekur fram að verið sé að framfylgja 17. skrefinu af 17 samkvæmt lögum frá 1998.

„Öllum má vera ljóst, en sjálfsagt er að leiðrétta þann misskilning sem gætir, að ekki er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að taka þau landsvæði sem eru háð beinum eignarréttindum. Sú kona sem þetta ritar hefur reyndar engan áhuga á því að ríkið sölsi undir sig frekara land. En ég fylgi lögum, hreyfi mig innan þess svigrúms sem ég hef í krafti þess embættis sem ég gegni. Ég myndi vilja segja: Gerum betur næst, en blessunarlega er þetta lokahnykkur í verkefni, sem hófst árið 1998,“ skrifar Þórdís. » 10