Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson skrifaði í gær undir lengsta samning sem íslenskur handknattleiksmaður hefur gert við erlent félag. Hann framlengdi þá samning sinn við norsku meistarana í Kolstad til hvorki meira né minna en sex ára, eða til ársins 2030.
Slíkir samningar eru fáheyrðir í handboltanum, þriggja til fjögurra ára samningar hafa þótt langir og það vakti mikla athygli þegar Ómar Ingi Magnússon framlengdi hjá Magdeburg til fimm ára árið 2021.
Sigvaldi leikur í vetur sitt annað tímabil með Kolstad og er nú fyrirliði liðsins. Hann varð norskur meistari með liðinu í fyrra, eftir að það hafði sankað að sér mörgum sterkum leikmönnum og sett upp metnaðarfulla stefnu á að komast í fremstu röð í Evrópu.
Bakslag kom í fjármál félagsins síðasta sumar en því hefur tekist að rétta sinn hlut, er efst í norsku úrvalsdeildinni með 18 sigra í 20 leikjum og er í Meistaradeildinni þar sem liðið er í harðri baráttu um að komast í útsláttarkeppnina og mætir þar RK Zagreb í hálfgerðum úrslitaleik á heimavelli annað kvöld.
Sigvaldi er 29 ára og verður því tæplega 36 ára þegar samningur hans rennur út. Hann sagði við heimasíðu Kolstad að sér og fjölskyldunni liði afar vel í Þrándheimi og hann hefði mikla trú á því að félagið myndi ná enn lengra á næstu árum.