Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Félag múslima á Íslandi hefur sótt um endurnýjun á byggingarleyfi vegna fyrirhugaðrar mosku á Suðurlandsbraut 76 í Reykjavík.
Byggingar- og skipulagsyfirvöld í Reykjavík samþykktu í ágúst 2021 að leyfa Félagi múslima á Íslandi að byggja bænahúsið.
Fram kom í Morgunblaðinu 27. ágúst 2021 að félagið fékk leyfi til að byggja moskuna árið 2019 en að ekki hafi verið hægt að hefja framkvæmdir strax. Þá vegna þess að ekki var búið að uppfylla ákveðin skilyrði á borð við afhendingu sérteikninga, greiðslu tilskilinna gjalda og ráðningu byggingarmeistara.
Rúmar um 200 manns
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa samþykkt teikningar Gunnlaugs Stefáns Baldurssonar arkitekts að moskunni (sjá mynd). Í lýsingu segir að starfsemin muni vera bænahald múslima ásamt þeirri starfsemi sem til þess heyrir. Það verði engir fastir starfsmenn í húsinu, safnaðarmeðlimir sinni því sem fellur til í hvert sinn. Áætlaður heildarfjöldi í húsinu á sama tíma er um 200 manns. Húsið verður tvær hæðir. Neðri hæðin verður rúmir 598 fermetrar og efri hæðin rúmir 79 fermetrar. Á 2. hæð verður lesstofa og skrifstofa en á 1. hæð bænasalur, salerni, skógeymsla, setustofa, rými fyrir líkkveðjur, kaffi/te, eldhús og gangar. Bogaþak verður yfir 2. hæðinni og verður það klætt með túnþökum.
Hjá Hjálpræðishernum
Þrefalt gler verður í húsinu en byggingin verður við Miklubraut, austan við nýjar höfuðstöðvar Hjálpræðishersins. Sökklar og botnplata verða staðsteypt með járnbentri steinsteypu. Útveggir verða vottaðar forsteyptar einingar.
Fjallað var um málið í Morgunblaðinu 6. febrúar sl. Þar sagði að Hjálpræðisherinn hefði augastað á lóðinni en hann væri búinn að sprengja utan af sér húsnæði sitt á Suðurlandsbraut nú þegar. Samkvæmt heimildum blaðsins þarf félag múslima að endurnýja byggingarleyfið en deiliskipulag á umræddri lóð er í gildi. Ekki er rétt sem komið hefur fram að byggingarleyfið falli úr gildi í sumar, að sögn arkitekts sem þekkir til málsins.