Heiður Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhendir Ásgrími Jónassyni heiðursskjalið. Halldór Þ. Halldórsson formaður IMFR er til hægri.
Heiður Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhendir Ásgrími Jónassyni heiðursskjalið. Halldór Þ. Halldórsson formaður IMFR er til hægri. — Ljósmynd/Motiv – Jón Svavarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rafvirkjameistarinn Ásgrímur Jónasson var útnefndur heiðursiðnaðarmaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík á nýsveinahátíð félagsins fyrir skömmu „fyrir framlag sitt til rafiðnaðarins ásamt lýsingarhönnun, kennslu í meistaranámi og útgáfu…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Rafvirkjameistarinn Ásgrímur Jónasson var útnefndur heiðursiðnaðarmaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík á nýsveinahátíð félagsins fyrir skömmu „fyrir framlag sitt til rafiðnaðarins ásamt lýsingarhönnun, kennslu í meistaranámi og útgáfu kennslu-, raffræði- og staðlabóka í iðngreininni“ eins og stendur á heiðursskjalinu. „Þetta kom mér á óvart,“ segir meistarinn, sem er heiðursfélagi IMFR síðan 2017.

Ásgrímur vann hjá föður sínum, Jónasi Ingvari Ásgrímssyni rafvirkjameistara, með skóla og útskrifaðist með rafmagnsstig frá Vélskólanum í Reykjavík 1960. „Ég ætlaði ekki að verða rafvirki en sennilega fór ég í námið vegna þess að ég vann svo mikið með pabba á sumrin,“ segir hann.

Öll störf skemmtileg

Námið opnaði ýmsar dyr og Ásgrímur kom víða við á starfsferlinum. Hann vann meðal annars við nýlagnir í hús á Norðausturlandi og Austfjörðum, var rafvirki hjá Kaupfélagi Húnvetninga og vann í vélsmiðjunni á Blönduósi. „Þar kynntist ég fallegri stúlku, Þóreyju Sveinbergsdóttur, og hún dró mig að sér,“ segir hann. Þau giftust 1963 og eignuðust þrjú börn en hún lést í fyrra. Ásgrímur starfaði við eftirlit hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur en lengst af var hann kennari í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann ritaði og gaf út kennslu- og staðlabækur í raffræði, vann við raflagnateikningar og lýsingahönnun, kenndi í meistaranámi í Rafiðnaðarskólanum og var ráðgjafi hjá Epal. Hann hefur lengi unnið að samantekt um sögu rafvirkjunar og er handritið nánast tilbúið til prentunar.

„Það var sérstaklega gaman að kenna við Iðnskólann og vinna við verkefni, sem síðan tóku við, ráðgjöf og annað slíkt,“ segir Ásgrímur. „Ég tók ýmislegt að mér sem ekki margir aðrir fóru í og reif það upp.“ Í því sambandi nefnir hann ýmsa þætti í rafvirkjun, kennslu og eftirliti. „Það var sérstaklega gaman að vinna með ungum mönnum, sem voru reyndar ekkert svo mikið yngri en ég. Það er gott að vinna með yngra fólki og öll mín störf voru skemmtileg.“

Fyrsta utanlandsferð hjónanna var til Manitoba í Kanada 1975 þar sem þau féllu fyrir landi og þjóð og gerðust m.a. áskrifendur að vesturíslenska blaðinu Lögbergi-Heimskringlu. Þau voru kjörin í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga, þar sem hann var formaður 1979 til 1984, og störfuðu sem fararstjórar vestra á vegum Samvinnuferða-Landsýnar í mörg sumur. „Við tókum líka á móti mörgum Vestur-Íslendingum og eignuðumst marga góða vini, meðal annars Ted Árnason, bæjarstjóra á Gimli, og héldum lengi sambandi, einkum jólakortasambandi.“

Eitt sumarið var hann beðinn um að taka þátt í bílalestinni á Íslendingadeginum á Gimli og aka með sérstakan gest frá Íslandi. Þeir hittust fyrst í boði hjá Ted bæjarstjóra kvöldið áður. „Mikið talarðu góða íslensku,“ sagði heiðursgesturinn áður en Ásgrímur sagði honum frá sér. „Þetta var geysilega skemmtilegur tími,“ segir hann um tímann með Vestur-Íslendingum.

Ásgrímur var formaður IMFR 2004 til 2010 og kom á útnefningu heiðursiðnaðarmanns ársins. „Ég hef hitt á góðan punkt,“ segir hann.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson