[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrjár einkasýningar voru opnaðar í Listasafninu á Akureyri í lok janúar og standa til 26. maí. Þetta eru Steinvölur Eyjafjarðar – sýning Alexander Steig, Kveikja – sýning Guðnýjar Kristmannsdóttur og Sena – sýning Sigurðar Atla Sigurðssonar

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Þrjár einkasýningar voru opnaðar í Listasafninu á Akureyri í lok janúar og standa til 26. maí. Þetta eru Steinvölur Eyjafjarðar – sýning Alexander Steig, Kveikja – sýning Guðnýjar Kristmannsdóttur og Sena – sýning Sigurðar Atla Sigurðssonar.

„Við ákváðum að það væri skemmtilegt að byrja árið með þremur mjög ólíkum einkasýningum listamanna,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri.

Sigurður Atli vinnur í verkum sínum með ýmiss konar prentefni, útgáfu og bókverk, auk þess að notast við grafíktækni til að vinna stórar myndaraðir. Hann sýnir í sal eitt. „Hann rær nú á ný mið og ég reikna með að þessi sýning marki viss tímamót á listferli hans því þar er hann að færa sig yfir í þrívíð verk,“ segir Hlynur. „Þetta eru einföld verk, í takt við það sem hann hefur verið að gera, þar sem hann veltir fyrir sér kerfum. Þarna er hann með nýtt verk sem heitir „Frelsi“ og er gert sérstaklega fyrir sýningarsalinn. Þetta eru stöplar eins og maður þekkir frá flugvöllum og tollhliðum. Titilverkið er „Sena“, sem er eins og þrívíð skissa af þessu rými en þar mynda sívalningar stöpla.“

Litrík verk

Guðný Kristmannsdóttir er Akureyringurinn í hópnum og sýnir stór málverk í sal fjögur og fimm. „Hún er algjör andstaða Sigurðar Atla í listsköpun, sýnir risastór, mjög litrík og tjáningarrík verk þar sem hún er að velta meðal annars fyrir sér kynhlutverkum. Einnig eru þarna vangaveltur um „Hamskipti“ Kafka þar sem padda liggur á bakinu, er að uppgötva sjálfa sig og spriklar,“ segir Hlynur.

Þýski listamaðurinn Alexander Steig sýnir vídeóverk í sal tvö og þrjú. „Hann hefur lengi verið að skoða eftirlitsmyndavélar og beinar útsendingar,“ segir Hlynur. „Í sal tvö sést mynd á vegg sem maður heldur við fyrstu sýn að sé prentuð mynd en reynist vera vídeó varpað á vegginn. Þar er steinn og síðan er önnur vörpun sem gæti litið út eins og haf eða landslag á tunglinu en er sami steinninn þar sem er súmmerað alveg inn á hann.

Í sal þrjú eru tveir skjáir með steini þar sem sjást tvær hliðar á honum. Í aukarými þar fyrir innan eru fjórar gamaldags myndavélar sem beinast að þessum eina steini sem Alexander valdi á Hjalteyri. Þessi steinn snýst síðan mjög hægt, fer heilan hring um sjálfan sig á tuttugu og fjórum klukkutímum.“

Alexander, sem býr í München, hefur sýnt þrisvar sinnum áður á Íslandi, í GUK+ á Selfossi árið 2003, 2008 í Gallerí Box á Akureyri og síðan á Hjalteyri 2012.

Bæði Sigurður Atli og Alexander gerðu prentverk sem sýningargestir geta tekið með sér heim. „Prentverk Sigurðar Atla er gert í 300 númeruðum eintökum. „Það er prentað á japanskan pappír sem bregst við hita þannig að hann verður gegnsær þar sem hitinn hefur lent á honum,“ segir Hlynur.

Safn sem iðar af list

Fleiri sýningar eru í safninu. Sýning Hildigunnar Birgisdóttur með verkum úr safneign stendur fram í nóvember og sýning Brynhildar Kristinsdóttur stendur fram í ágúst. Verk Drafnar Friðfinnsdóttur og sýning Melanie Ubaldo eru einnig í safninu og þeim sýningum lýkur í mars.

Tvær nýjar sýningar bætast svo við núna í febrúar, Sköpun bernskunnar og sýningin Samspil.