Bítill Paul McCartney er hæstánægður með að bassagítarinn sé fundinn.
Bítill Paul McCartney er hæstánægður með að bassagítarinn sé fundinn. — Ljósmynd/Raphael Pour-Hashemi, Wikipedia
Bítillinn Paul McCartney hefur lokins fengið í hendurnar bassagítar sinn sem stolið var fyrir 51 ári. Bassanum hafði verið stolið úr skotti sendiferðabíls í London árið 1972 en hljóðfærið hafði McCartney átt frá 1961 og meðal annars notað til þess…

Bítillinn Paul McCartney hefur lokins fengið í hendurnar bassagítar sinn sem stolið var fyrir 51 ári. Bassanum hafði verið stolið úr skotti sendiferðabíls í London árið 1972 en hljóðfærið hafði McCartney átt frá 1961 og meðal annars notað til þess að taka upp lög á borð við „Love Me Do“ og „She Loves you“. AFP greinir frá.

Bassagítarinn, sem er af tegundinni Höfner, fannst á háalofti á fjölskylduheimili í Sussex fyrir tilstilli leitarverkefnis sem kallað hefur verið Lost Bass, eða Týndi bassinn. McCartney hafði hvatt framleiðandann Höfner til að finna bassann og var leit þá hrundið af stað. Hann fékk hljóðfærið svo í hendurnar í desember síðastliðnum eftir að fjölskyldan í Sussex hafði samband við leitarteymið og sagðist vera með Höfner-bassa í sínum fórum.

Er McCartney sagður „ótrúlega þakklátur“ fyrir að hafa fengið hljóðfærið í hendurnar. Haft er eftir meðlimum í leitarteyminu að þau séu ánægð að hafa leyst þessa „mestu gátu í sögu rokks og róls“.