Gylfi Guðmarsson fæddist á Akureyri 24. nóvember 1944. Hann lést 5. febrúar 2024.

Hann var sonur hjónanna Ingibjargar Óladóttur, f. 1912, d. 2004, og Guðmars Gunnlaugssonar, f. 1913, d. 2002. Systkini hans eru Haukur, f. 1939, d. 2022; Anna Steinunn, f. 1947, d. 1947; Guðmundur, f. 1948; Óli, f. 1951, og Sóley, f. 1954, d. 1984.

Gylfi ólst upp í Oddeyrargötunni á Akureyri, gekk í Barnaskóla Akureyrar og síðar Iðnskólann á Akureyri þar sem hann lauk námi í bakaraiðn, en starfaði reyndar aldrei við þá iðngrein.

Árið 1969 kvæntist Gylfi Fjólu Friðriksdóttur, f. 28. janúar 1951, og eignuðust þau þrjú börn. Þau skildu.

Eiginkona Gylfa er Arnheiður Eyþórsdóttir, f. 18. október 1958, þau gengu í hjónaband árið 1995 og eignuðust einn son.

Börn Gylfa eru: 1) Þórarinn Friðrik, f. 1969, eiginkona hans er Ágústa Ragnarsdóttir, f. 1967, og dætur þeirra eru Erla, f. og d. 2000, Sigríður Fjóla, f. og d. 2003, og Sigríður Fjóla, f. 2004. 2) Unnur Björk, f. 1973, eiginmaður hennar er Ágúst Leifsson, f. 1961, og þeirra börn eru Karitas Rut, f. 2006, og Leifur Daníel, f. 2008. Börn Ágústs frá fyrra hjónabandi eru Sara Rut, f. 1986, og Símon Pétur, f. 1990. 3) Gunnlaugur Starri, f. 1976, eiginkona hans er Erna Jónasdóttir, f. 1978 og börn þeirra eru Katla, f. 2006, Logi, f. 2010, og Eyrún, f. 2012. 4) Eyþór, f. 1990, sambýliskona hans er Þórunn Edda Magnúsdóttir, f. 1985, og sonur þeirra Kolbeinn Flóki, f. 2021. Sonur Þórunnar Eddu og stjúpsonur Eyþórs er Axel Úlfur, f. 2015.

Gylfi starfaði nánast alla sína starfsævi á bíla- og búvélaverkstæðum. Hann vann um árabil í Véladeild KEA sem þjónustaði ekki síst landbúnað á Norðurlandi, var þar deildarstjóri allt þar til deildin var lögð niður. Á yngri árum tók hann þátt í að leggja mjaltakerfi á bæjum víða um Eyjafjörð og var því vel kunnugur flestum bændum á svæðinu. Hann vann síðar á varahlutalager Þórshamars, á Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar og hjá Kraftbílum. Eftir að hann lauk launaðri vinnu gekk hann til liðs við Hollvinafélag Húna II sem sjálfboðaliði þar sem hann var virkur nánast til dauðadags og veitti það starf honum mikla ánægju, en bátar og sjósókn voru eitt af hans áhugamálum. Hann gerði út trillu með félaga sínum og þeir veiddu gjarnan í soðið í Eyjafirði sér til skemmtunar. Ferðalög voru honum einnig hugleikin og ferðuðust þau hjón víða bæði innanlands og utan, voru m.a. í hópi sem fer í árlega gönguferð. Gylfi var einnig virkur í frímúrarastúkunni Rún á Akureyri og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var hagleiksmaður og átti ófá smíðahandtök á heimilinu sem og hjá fjölskyldumeðlimum og vinum, dundaði sér einnig við að renna smáhluti í bílskúrnum.

Útför Gylfa fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. febrúar 2024, klukkan 13.

Pabbi er látinn á áttugasta aldursári, frískur og í góðu formi þar til hann veiktist skyndilega sl. jól.

Pabbi var skemmtilegur, þolinmóður, trúr og traustur sínum með góðan kaldhæðinn húmor sem hann notaði helst á sitt fólk. Með húmornum náði hann að æsa upp liðið, oftast það yngra sem ekki var búið að fatta hans skopskyn. Svo glotti hann bara, hló og skemmti sér yfir æsingnum.

Alltaf var gaman að fara norður í heimsókn og alltaf var tekið vel á móti okkur. Heimabakaðar pabba-bollur eða –brauð með morgunkaffinu, Rás 1 í tækinu lágstillt. Að kvöldi var svo setið lengi við borðstofuborðið, oft með bauk, spjallað og haft gaman langt fram eftir að lokinni góðri grillveislu.

Ég sem elsta systkini fékk að velja hjá hvoru ég foreldra minna ég yrði eftir skilnað þeirra og valdi að fylgja pabba. Úr varð mikil gæfa fyrir mig. Á þessum tíma, sem við bjuggum tveir saman, kynntumst við hvor öðrum á ný og í hönd fór mikill þroskatími fyrir okkur báða. Nú þurftum við að gera allt sjálfir. Eins gott að gera það eins einfalt og hægt var. Dæmi um einföldun má nefna matmálstímana, þá voru Kjarna-grautarnir nýkomnir á markaðinn. Við byrjuðum á sveskjugraut í hvert mál þar til ógeð var komið á honum. Skiptum yfir í eplagraut og þegar eins var komið fyrir honum kom næsta tegund. Þannig var flóran af Kjarnagrautum kláruð. Á sunnudögum var elduð sunnudagssteik. Heilgrillaður kjúklingur eða lambalæri með kartöflum og sósu – svo vel þegið að við rifum matinn í okkur með slíku offorsi að borðhald stóð ekki yfir nema í nokkrar mínútur. Allt breyttist svo til batnaðar þegar Arnheiður kom inn í myndina og regla komst á óreiðuna. Heppnari gat pabbi ekki verið með eiginkonu eða ég með stjúpu.

Á sumrin vann ég með pabba í Véladeild KEA og Þórshamri. Oft kíktu til okkar margir kynlegir kvistir sem hægt var að skemmta sér með eða fylgjast með í laumi og hafa gaman af.

Pabbi var laghentur mjög og hafði gaman af því að dunda við smíðar eða aðra handverksvinnu. Hann byggði hús þeirra mömmu í Lerkilundi og smíðaði í það innréttingarnar. Síðar smíðaði hann baðinnréttingu í íbúð okkar Ágústu, sannkallaða listasmíð. Hann hafði mikinn áhuga á að fylgjast með ef eitthvert okkar systkinanna var í framkvæmdum og hjálpaði til eins og hann gat. Hann nýtti þessa handlagni þegar hann gekk til liðs við Hollvinafélag Húna II. Þar var nóg að dunda. Það var frábært fyrir hann að vera í þeim félagsskap því hafið kallaði alltaf sterkt á hann þó hann hafi aldrei unnið sem sjómaður. Trillu átti hann með vini sínum og á henni veiddu þeir í soðið og tóku skemmtisiglingu um Pollinn. Ég man eftir því, sem polli, að fá að fara í nokkur skipti með pabba og afa á litlum árabát sem afi hafði fengið lánaðan. Þá var róið út á fjörðinn og í eitt skiptið fiskuðum við svo mikið að það var erfitt að hætta. Þá skríkti í þeim báðum köllunum.

Nú kveð ég hann í dag í hinsta sinn, þakklátur fyrir að veikindin drógust ekki á langinn.

Takk, pabbi, fyrir þig, fyrir mig, systkini mín, Arnheiði og allt.

Þórarinn F. Gylfason.

Það varð ansi brátt um hann tengdapabba minn, Gylfa Guðmarsson. Hraustur og sprækur karl alla tíð og svo bara bang! Vissulega eins og hann að mörgu leyti, ekkert að hangsa við hlutina.

Hann var alltaf að bæði heima við og annars staðar og fyrir aðra; smíða, dytta að, róa, synda, ganga, skíða, sinna húsverkum, já listinn er endalaus. Alltaf vaknaður fyrir allar aldir … svo af því að hann var eldri borgari fékk hann aldrei helgar-, sumar- eða jólafrí, bara þrælarí!

Gylfi var hæglátur hrekkjalómur sem hafði gaman af að skjóta hæfilegum pílum með sinni rámu rödd og glettnisblik í augum … og beið spenntur eftir viðbrögðum og fannst ekki verra að fá skotið hressilega til baka! Í senn nagli af gamla skólanum og mjúkur nútímakarl, frábær blanda. Hann gat tvinnað saman blótsyrði á ljóðrænan máta, notaði þau líka gjarnan sem eins konar lýsingar- og áhersluorð. Hann hafði þó yfirleitt ekki mörg orð um hlutina en treysti því meira á hugsanaflutning – samskiptaleið sem hefur erfst í karllegg og ber yfirleitt ekki árangur!

Hann og Arnheiður voru öðlingar heim að sækja … og alltaf nægt pláss alveg sama hvað – og líka í hjartanu. Margar eru þær góðu stundirnar sem varið hefur verið við borðstofuborðið í Akurgerðinu. Rás 1 í bakgrunni fyrri hluta dags, heimabakaðar afabollur í morgunmat, spjall, fletta blöðunum, ráða krossgátur og næsheit oft langt fram á kvöld og þá var klassík og djass settur á fóninn, átakalaus og gefandi samvera. Þær eiga pottþétt eftir að verða fleiri gæðastundirnar í Akurgerðinu þótt þær verði ljúfsárar í fyrstu enda skarð fyrir skildi.

Ég á eftir sakna Gylfa mikið enda góður karl, skemmtilegur karl, greiðvikinn karl, atorkusamur karl og góður tengdapabbi, pabbi og afi.

Kæra Arnheiður, mikill er þinn missir, þið voruð frábært par. Elsku Þórarinn minn, Unnur, Starri og Eyþór. Ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Hvíl í friði kæri Gylfi.

Ágústa Ragnarsdóttir.

Elsku afi. Ég trúi því ekki að þú sért farinn frá okkur, það verður svo tómlegt án þín. Ég trúi því ekki að þegar ég kem í heimsókn á Akureyri munir þú ekki vera þar. Vera þar með tilbúið svakalegt morgunverðarhlaðborð alla morgna með bollum sem þú bakaðir sjálfur, bestu bollum í heimi. Þú varst alltaf í stuði og alltaf eitthvað að grínast og stundum lékstu grínið svo vel að maður vissi ekki alveg hvort þú værir að djóka eða ekki.

Það er skrítið að hugsa til þess að ég muni sakna að vakna við lætin í þér eldsnemma á morgnana, þegar ég gisti hjá þér og ömmu, því þú varst alltaf eitthvað að brasa. Hvernig þú ofdekraðir Jónsa, köttinn okkar, þegar hann kom með okkur norður – ég get svo svarið það að hann þyngdist alltaf um nokkur kíló í þeim ferðum því þú gafst honum alltaf eitthvað annað en kattamat að borða, enda sat hann um þig ef þú varst í eldhúsinu.

Æ, ég mun bara sakna þín svo mikið og ég vildi óska að þú hefðir getað verið aðeins lengur hjá okkur. Þrátt fyrir það er ég svo ótrúlega þakklát fyrir allar góðu stundirnar. Takk fyrir allt, elsku afi.

Sigríður Fjóla
Þórarinsdóttir.

Gylfi bróðir er dáinn. Hann lést eftir stutt veikindi aðfaranótt 5. febrúar síðastliðins. Hann var stóri bróðir sem fór allt of snemma aðeins 79 ára gamall. Allar götur frá því hann kom sólbrúnn og síðhærður heim úr sveitinni (þá hét það að vera með lubba, sítt hár komst ekki í tísku fyrr en tuttugu árum síðar) var hann mér fyrirmynd, bæði við ýmsa leiki sem við fórum í og sýsl sem við tókum okkur fyrir hendur. Við renndum okkur á skíðum í skátagilinu, hann á flottu nýju rauðu skíðunum sínum og ég á mínum gulu. Hann sýndi mér líka hvernig var hægt að smíða leikfangabíla með fjöðrum og sitthvað fleira í kjallaranum heima. Við vorum saman úti við að berkja birkiboli fyrir pabba sem renndi úr þeim ýmsa muni.

Gylfi var alltaf laginn við að ná sér í tekjur. Á unglingsárunum keypti hann sér skellinöðru, Göricke, sem var náttúrulega mikið betri en NSU og að maður tali nú ekki um Möve. Eftir að hann fór að læra bakaraiðn í brauðgerð KEA keypti hann sér útvarpsfón með plötuspilara sem ég mátti nota og hann lét mig hafa pening til að kaupa plötur, Bítlana, Peter, Paul og Mary og ýmsar fleiri. Svo fékk hann Opel Kadett í happdrætti sem hann var ósínkur á að lána mér eftir að ég fékk bílpróf til að rúnta með kunningja mína um bæinn.

Honum leiddist í bakaríinu og hætti um leið og hann lauk náminu. Hann fór þá á sjó um tíma en fór svo að vinna í Véladeild KEA þar sem við unnum saman á sumrin en ég var sumarstarfsmaður þar í nokkur ár. Seinna meir varð hann deildarstjóri í Véladeildinni.

Tíminn leið og við eignuðumst fjölskyldur og hann fór að byggja, þar rétti ég honum hjálparhönd sem hann endurgalt svo þegar við byggðum okkar hús. Þá var orðið talsvert langt á milli okkar og samvistirnar urðu færri en alltaf gott samband. Við fórum saman í nokkrar veiðiferðir sem voru eftirminnilegar en látum aflabrögðin liggja á milli hluta.

Hin síðari ár höfum við spjallað saman í síma því sem næst vikulega. Þar ræddum við veðrið að sjálfsögðu og pólitíkin fékk líka sinn skammt oft og ríkisstjórnir sem ekki voru á setjandi. Einnig bar stundum á góma gráðuga athafnamenn sem ráðskast með álagningu á vöru og þjónustu eða ganga um auðlindir þjóðarinnar eins og enginn sé morgundagurinn sem elur á þeirri reiði sem kraumar undir í samfélaginu.

Nú er þessum samtölum lokið, dauðinn er óvæginn og endanlegur. Við erum þakklát öllum þeim sem sóttu Gylfa heim í veikindum hans, sérstaklega Jóni Inga og konunni hans, Stefáni Vilhjálmssyni og konunni hans, Gunnari Gíslasyni, Baldvini Valdimarssyni og strákunum á Húna II. Þeir og fleiri komu og rifjuðu upp gamlar ánægjustundir eða leyfðu honum að fylgjast með nýjustu vendingum í dæguramstrinu. Það er ómetanlegt að eiga svona góða vini og kunningja.

Við færum Arnheiði, börnunum Þórarni Friðriki, Unni Björk, Gunnlaugi Starra og Eyþóri, mökum þeirra og börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir þeirra er mikill og við vonum að sá sem heldur yfir okkur verndarhendi veiti þeim styrk í sorg sinni.

Guðmundur Guðmarsson og Helga Aðalsteinsdóttir.

Hvað getur maður sagt á svona stundu? Bróðir minn Gylfi Guðmarsson hefur nú kvatt þennan heim eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Ég var einmitt staddur hjá þeim hjónum um jólin þegar hann veiktist. Ég hef verið eins og grár köttur hjá þeim undanfarin ár. Síðan ég hætti að vinna hef ég oft lagt leið mína norður til Akureyrar og dvalið hjá þeim í lengri og skemmri tíma, um jól, um sumar, vetur og haust og þá höfum við gert ýmislegt saman, farið í ferðalög og gönguferðir, siglt með Húna II, farið í berjamó og fleira og fleira. Um æskuárin man ég ekki mikið en ég man þó þegar hann fékk botnlangakast, þá kom leigubíll og ók honum á spítalann, það var flott að fara í leigubíl í þá daga. Svo voru skellinöðrurnar sem voru í pörtum um alla lóð og kjallarann. Þeim var svo klastrað saman og síðan farið upp í Bjarmastíg og allt þanið í botn.

Við vorum lengi herbergisfélagar í Oddeyrargötunni sem var lítið og kósí hús að mörgu leyti og þar var gott að vera. Á uppeldisárunum vorum við ekki mikið saman þar sem hann var sjö árum eldri en ég. En við bjuggum báðir á Akureyri og áttum þannig samleið sem bræður með foreldra á lífi. Ég minnist þess að ýmislegt var rætt og spjallað þegar við hittumst. Ég fékk líka góð ráð þegar ég innréttaði íbúðina í þorpinu og líka við bílakaup. Við fórum saman með foreldra okkar til London í mjög skemmtilega ferð um páska eitt árið sem þau minntust með ánægju.

Gylfi lærði bakaraiðn en vann stutt við það og fór svo að vinna í Véladeild KEA og hjá fleiri bílaumboðum á Aureyri. Við vorum báðir félagar í Frímúrarastúkunni Rún á Akureyri.

Ég kveð þennan bróður með söknuði, þetta var allt svo snöggt og alltof fljótt. Arnheiði, Þórarni og Ágústu, Unni og Ágústi, Gunnlaugi og Ernu, Eyþóri og Eddu, börnum þeirra, öllum ættingjum og vinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur öll.

Óli Guðmarsson.

Í dag 20. febrúar kveðjum við okkar góða vin og félaga Gylfa Guðmarsson. Hann lést fimmta febrúar síðastliðinn eftir stutt veikindi.

Kynni okkar Gylfa hófust fyrir um það bil 40 árum þegar ég hóf störf hjá honum í véladeild KEA. Mjög gott var að vinna með honum og urðum við fljótt góðir vinir. Eftir að hafa unnið í nokkur ár með honum skildi leiðir okkar eins og gengur.

Ég skipti um vinnu og samskipti okkar urðu lítil um tíma, en fyrir um það bil tuttugu árum hittumst við á förnum vegi og tókum spjall saman. Hann spyr hvort við ættum ekki að kaupa okkur bát saman, við höfðum báðir átt báta en vorum þegar þetta var bátalausir. Það varð úr að við fórum að leita að hentugum bát. Sunna kona mín fann svo bát auglýstan í Kópavogi sem við fórum og skoðuðum og festum kaup á. Bátinn flytjum við norður og fengum inni fyrir hann í gömlum bragga yfir veturinn til að gera hann upp, þar sá ég hvað Gylfi var laginn að smíða, það lá mjög vel fyrir honum og hvað hann var vandvirkur smiður.

Þegar báturinn var sjósettur kom fram smá bilun í stjórnbarka í gír og við að missa hann upp í grjót. Gylfi var laginn að koma með mörg kjarnyrt blótsyrði þegar á bjátaði, þetta var eitt af þeim skiptum, við sluppum með skrekkinn. Það má segja að fall sé fararheill því þetta var upphaf að nítján ára samstarfi okkar og vináttu í kringum bátinn okkar. Öll þessi ár féll aldrei skuggi á okkar samstarf, okkur gekk mjög vel að vinna saman, brasa við bátinn eða fara á veiðar.

Við vorum ekki búnir að eiga bátinn lengi þegar ég rekst á auglýsingu um að verbúð sé til sölu ég læt Gylfa vita. Ekki líður langur tími þar til hann afhendir mér lykil að verbúð. Hann var búinn að festa kaup á henni og þar komum við okkur upp aðstöðu við að vinna úr aflanum.

Fáum mönnum hef ég kynnst sem eru eins bóngóðir og til í að hjálpa og aðstoða. Fyrir nokkrum árum kaupi ég verbúð og hann varð sjálfkrafa yfirsmiður og stjórnaði breytingum á henni.

Árið 2009 gekk hann til liðs við Hollvini Húna II og kom kunnátta hans sér vel við að varðveita og halda við þeim gamla og fallega eikarbát. Hann sat í stjórn Hollvinafélags Húna II í mörg ár ásamt því að vinna ómælt við viðhald og vera einn af fastri áhöfn. Það var ekki síst fyrir hans orð að ég gekk til liðs við Hollvini Húna II. Í félagsskapnum um borð í Húna sá ég hvað hann var virtur og ávallt leitað til hans varðandi viðhaldi á tréverki.

Gylfi Guðmarsson var vinur vina sinna og greiðvikinn með afbrigðum. Það er með miklum söknuði sem við hjónin kveðjum þennan góða vin og samstarfsaðila í útgerðinni okkar.

Kæru Arnheiður, Dúddi, Unnur, Gulli, Eyþór og fjölskyldur, við Sunna sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar Sturla
Gíslason og
Sunna Árnadóttir.

Liðinn er dagur og hver til sinna heima, hverfur burt eftir lokið starf. Gylfi Guðmarsson lauk sínu ævistarfi að morgni mánudagsins 5. febrúar sl. Gylfi sem alla tíð hafði verið hraustur lést eftir erfiða en skamma legu. Við vinir og skipsfélagar Gylfa finnum fyrir hinu stóra skarði sem höggvið hefur verið í áhöfnina og munum sakna vinar í stað.

Það var í kringum 2009 sem Gylfi gekk til liðs við Hollvini Húna II og sat hann í stjórn Hollvinafélagsins í mörg ár, og var iðulega í áhöfn bátsins. Gylfi var mjög laghentur og nýttist það vel við þau mörgu handtök sem hann beitti við lagfæringar og viðhald á þeim gamla og fallaga eikarbát Húna II. Hann hafði t.d. náð góðum tökum á því að kalfakta sem er vandasamt verk og kunnátta sem fáir eru færir til í dag. Þá hafði Gylfi einnig fengist við útgerð og átti bát með vini sínum. Hann kunni því vel til verka sem kom sér vel er verið var að gera að afla í ferðum Húna II með nemendum sjötta bekkjar á Eyjafirði.

Við munum sakna kærs vinar og vitum að missir fjölskyldu hans er mikill. Við í áhöfn Húna II kveðjum þennan góða vin og samstarfsaðila og vottum eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

F.h. Hollvina Húna II,

Stefán B. Sigurðsson og Þorsteinn Pétursson.

Nú höfum við Gylfi gengið okkar síðustu morgungöngu. Við vorum vanir að ganga saman flesta virka morgna en því lauk daginn fyrir Þorláksmessu. Ekki grunaði mig að þetta væri okkar síðasta ganga, báðir vel morgunhressir er við gengum okkar 10 hringi í Boganum. Á þessum morgni var hugur okkar á miklu flugi við skipulag árlegrar hálendisferðar næsta sumar en sú ferð verður aldrei farin.

Leiðir okkar Gylfa lágu fyrst saman fyrir um 40 árum er við vorum báðir kaupfélagsstarfsmenn hvor í sínu héraðinu en ýmis vinnutengd mál sköpuðu fyrstu kynnin sem seinna þróuðust í vináttu. Árið 2000 fluttum við til Akureyrar og síðan þá hefur hann og fjölskylda hans verið einn af föstu punktunum í lífsmunstri okkar fjölskyldu.

Þær eru býsna margar ferðirnar sem við höfum farið saman bæði hér á landi og erlendis. Efst í huga eru hálendisferðirnar með Moonwalker þar sem þú, mikli göngugarpur og náttúrubarn, naust þín vel hvort sem var lemjandi rigning eða glaða sólskin.

Um árabil voru líka veiðiferðir okkar fastur liður. Ég minnist sérstaklega skemmtilegra ferða í Svartá, Arnarvatn og Laxá í Aðaldal. Ekki var alltaf mikil veiði enda ekki aðalatriðið því félagsskapurinn og gleðin var í fyrsta sæti.

Þá má ekki gleyma okkar fjölmörgu leikhúsferðum bæði hér á Akureyri og í menningarferðum til Reykjavíkur en slíkar ferðir með ykkur Arnheiði voru oftast árviss viðburður þar sem við tókum eina helgi í það að kynna okkur það sem borgin hafði upp að bjóða.

Hér er ekki ætlunin að minnast allra þeirra gæðastunda sem við áttum saman sem ekki verða fleiri en nú er leiknum lokið og komið að kveðjustund.

Ég og fjölskylda mín kveðjum þig kæri vinur með miklum söknuði og þakklæti fyrir áralanga vináttu.

Ég ætla að halda áfram að fá mér te og kleinu klukkan 11 á miðvikudögum eins og við vorum vanir og þegar þú kemur þá þarftu ekki að hringja dyrabjöllunni.

Kæra Arnheiður og fjölskylda. Við í Skessugilinu sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Ingi Einarsson.

Gylfi móðurbróðir minn var í mínum huga ekki gamall þótt hann hafi verið að nálgast áttrætt og margt af því sem einkenndi hann hafi verið lýsandi fyrir fólk af hans kynslóð og eldri. Hann var nýtinn og nægjusamur, handlaginn og vandvirkur, bar virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu, vinnusamur. Hafði áhuga á ættfræði og var ættrækinn, kom úr samheldnum systkinahópi. Félagslyndur án þess að láta á sér bera, talaði ekki af sér. Greiðvikinn og gott að eiga að. Minnti mig oft á afa og ekki síst þess vegna var ég þakklát fyrir að hann tók dætur mínar að sér sem sérstakur bónusafi. Hann var ljúfur og hlýr án þess að bera tilfinningar sínar utan á sér, hafði mýkst með árunum. Minningabankinn er fullur af alls konar samverustundum, sumarbústaðaferðir, útilegur, ættarmót, jól, púkk, laufabrauðsgerð, allt sem aldrei verður samt og skarð sem aldrei verður fyllt.

Hafdís Inga
Haraldsdóttir.