Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Reykjavíkurborg áformar að lækka hámarkshraða á fjórum götum í Vesturbænum úr 40 km/klst í 30 km/klst.
Göturnar sem um ræðir eru Einarsnes, Hofsvallagata, Ægisíða og Nesvegur. Ennfremur stendur til að hafa leyfilegan hámarkshraða á Litluhlíð 30 km/klst.
Það er samgöngustjóri Reykjavíkur sem leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki þessar breytingar. Íbúaráð í hverfunum fá tillögurnar til umsagnar. Það er eftir að koma í ljós hvort þeim hugnist að fara svona neðarlega með hámarkshraða á lykilgötum í Vesturbænum.
Samgöngustjórinn gerir einnig tillögu um að Gvendargeisli, frá Jónsgeisla að núverandi 30 km/klst svæði, hafi leyfilegan 40 km/klst hámarkshraða. Að Jónsgeisli, á 30 metra kafla næst Krosstorgi, hafi leyfilegan 40 km/klst hámarkshraða. Að Bugða milli Mánatorgs og Goðatorgs hafi leyfilegan 40 km/klst hámarkshraða. Loks að Grænistekkur, frá Stekkjarbakka að núverandi 30 km/klst svæði, hafi leyfilegan 40 km/klst hámarkshraða.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti að vísa tillögunum til umsagnar viðeigandi íbúaráða. Fulltrúar meirihlutaflokkanna, þ.e. Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, bókuðu að æskilegt væri að fá umsögn íbúaráða. Þau geti hugsanlega bent á atriði sem betur megi fara. „Eftir að hámarkshraðaáætlun er innleidd að fullu verður haft samband við öll íbúaráð sem geta þá metið hvort frekari breytinga sé þörf.“
Fram kemur í greinargerð samgöngustjórans að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2022 hafi verið samþykktar umtalsverðar hámarkshraðabreytingar í borginni í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar. Við endanlega hönnun og útfærslu á uppsetningu skilta komu í ljós nokkrir vegbútar þar sem breyta þyrfti hámarkshraða til að laga að heppilegri hönnun. Í flestum tilfellum hefur hámarkshraði hefur verið lækkaður í 40 km/klst á aðlægri götu en 30 km/klst hámarkshraði hefst ekki við gatnamót heldur aðeins innar í götunni. Lagt er til að Einarsnes verði allt með 30 km/klst hámarkshraða, þ.e. hámarkshraði lækki í 30 km/klst við Gnitanes en gert var ráð fyrir í upprunalegri tillögu að 40 km/klst hámarkshraði væri að húsum sem standa norðan götunnar, flugbrautarmegin.
Á Hofsvallagötu, Ægisíðu og Nesvegi er verið að leggja til 30 km/klst hámarkshraða. Við samþykkt hámarkshraðaáætlunar var tiltölulega nýbúið að lækka hámarkshraða þar úr 50 km/klst í 40 km/klst og þótti á þeim tíma ekki rétt að eiga við það þó svo að göturnar séu að mörgu leyti áþekkar og margar götur þar sem hámarkshraði er 30 km/klst skv. áætluninni, segir í greinargerðinni.