Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé er búinn að skrifa undir samning hjá Real Madríd, samkvæmt spænska íþróttafjölmiðlinum Marca. Samningur Mbappés við París SG rennur út í sumar og honum var því frjálst um áramót að semja við annað félag

Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé er búinn að skrifa undir samning hjá Real Madríd, samkvæmt spænska íþróttafjölmiðlinum Marca. Samningur Mbappés við París SG rennur út í sumar og honum var því frjálst um áramót að semja við annað félag. Samkvæmt Marca hefur Mbappé samið við Real Madrid til fimm ára og verður launahæsti leikmaður spænska stórveldisins.

Manchester United hefur óskað eftir því við Newcastle að fá til sín yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu, Dan Ashworth. Hann hefur óskað eftir því að vera leystur undan samningi og er kominn í leyfi frá störfum. Talið er að Newcastle vilji fá meira en 10 milljónir punda fyrir Ashworth sem er samningsbundinn til sumarsins 2025.

Mikael Anderson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er kominn í eins leiks bann eftir að hafa fengið gult spjald í leik AGF gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Uwe Rösler þjálfari AGF sagðist eftir leikinn vilja áfrýja spjaldinu en hann taldi að um leikaraskap hefði verið að ræða hjá leikmanni Vejle. Mikael kvaðst ekki hafa fundið fyrir því að hafa snert leikmanninn.