Sighvatur Björgvinsson
Réttur mælikvarði um hvaða árangur hefur náðst í vistun hælisleitenda er ekki hversu mörgum hleypt er inn heldur hvernig þjóðinni tekst til um móttöku hælisleitenda þannig að þeir styrkist í samfélaginu og samfélagið styrkist með þeim. Þessi mælikvarði gildir ekkert síður um þá sem til landsins koma til þess að starfa þar um lengri eða skemmri tíma en ekki til þess eins að leita hjálpar og skjóls. Atburðir í samfélaginu um margra ára skeið lýsa aðbúnaði þeim sem samfélagið býður samborgurum í EES-löndum sem koma hingað til tímabundinna starfa. Til margra ára hefur ítrekað komið fram að sumt af þessu fólki starfar ekki í samræmi við íslenska kjarasamninga heldur er látið leggja fram vinnu sína á þeim kjörum sem atvinnurekandinn ákveður einn. Sjaldnast fær þetta fólk neina þá þjónustu eða neinn þann stuðning frá atvinnurekandanum sem opnar því greiða leið inn í íslenskt samfélag og til þeirrar þjónustu sem þar er veitt og ber að veita. Þá er þetta fólk hópvistað í húsnæði sem engar búsetukröfur uppfyllir, er margfaldlega yfirmannað, búseturéttindi ekki tryggð, brunavörnum og heilsugæslukröfum gersamlega ábótavant enda hefur sumt þetta þrælabúðavistaða fólk látið þar lífið. Þær staðreyndir sem ég hefi hér nefnt hafa legið fyrir um margra ára skeið. Lítið, nánast ekkert, hefur verið gert af hálfu samfélagsins til þess að láta þessum móttökum linna. Oft um það talað – en lítið gert sem árangri skilar.
„Eitt af okkur“
Sama má segja um flóttafólkið sem hingað leitar. Öfugt við erlenda starfsfólkið er það ekki hingað komið í þeim eina tilgangi að afla sér atvinnu. Þetta hrakta og sárþjáða fólk er hingað komið til þess að leita sér skjóls frá tilveru sem auðkennist af hernaði og hermdarverkun, þjáningu, ofsóknum og kvöl. Það biður ekki bara um vistun á Íslandi til þess að fá þar skjól heldur til þess að geta gerst virkir þátttakendur í því lífi sem við lifum, friðsæl, vel efnuð þjóð sem býr við frelsi og frjálsa þátttöku í samfélagi. Í mannlífi sem sumt af flóttafólkinu þekkir ekki nema af afspurn en á þá ósk heitasta að fá að vera vera með í. Hvort það tekst eins og bæði við og þau vilja ræðst ekki af því hversu mörg þau eru sem veitt er viðtaka heldur hvernig samfélagið veitir þeim viðtöku, styður og hjálpar fólkinu sem hjálpar er þurfi til þess að geta orðið „eitt af okkur“.
Reynsla nágrannaþjóða
Við eigum þess ekki kost enn að geta lært af okkar eigin reynslu af þessu þýðingarmesta verkefni í flóttamannahjálp. Til þess er reynsla okkar enn of skammvinn. Við getum hins vegar lært af nágrannaþjóðum sem eru að upplifa nærfellt daglega eftirköstin af því að þeim mislánaðist sinn þáttur í framkvæmdinni. Hann mislánaðist m.a. þannig að ekki tókst að gera hina nýju innflytjendur að sömu samfélagsþegnum og þátttakendum og þeir voru sem þar bjuggu og hafa búið um aldir. Þess vegna var sá kostur tekinn af sumum þessara hópa að innleiða eigin menningarheim í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Var það þá ekki ákjósanlegt að svo yrði gert – fjölmenning í stað þjóðmenningar? Þar sem réttindi kvenna geta verið og eru allt önnur og minni en réttindi karla. Þar sem mannréttindi eins og við þekkjum þau eru útlæg. Þar sem tungumálið er allt annað en þjóðtungan – sem hvorki skilst né varðveitist hér. Þar sem valdbeiting er úrræði en ekki glapræði. Þar sem börn annarrar kynslóðar flóttafólks eru að eigin áliti útlagar úr sænsku, dönsku eða norsku samfélagi vegna þess að á æskuárunum upplifðu þau sig sem svikin af samfélaginu, fengu ekki að njóta sömu tækifæri til mennta og lífsfyllingar vegna þess að aðlögun þeirra að samfélaginu og samfélagsins að þeim brást.
Kjarni málsins – tungan
Að koma í veg fyrir að svona þurfi reynslan að verða á Íslandi er og á að vera meginviðfangsefni flóttamannahjálpar. Ekki bara hversu mörgum er leyft að koma. Til þess að verkefnið takist verða margir að koma til. Skólarnir, samfélagið sjálft, aðrar stofnanir þess svo sem í íþróttastarfi og heilbrigðisþjónustu, verkalýðshreyfingin, sveitarfélögin og samborgararnir ekki síst. Í stað þess að snúa samtölunum alltaf upp á ensku þegar innflytjendur reyna að tjá sig á íslensku eiga samborgararnir að hjálpa þeim til þess að ná tökum á tungumálinu – tungumálinu sem er sjálfur kjarninn í íslenskri menningu og íslenskum minnum. Flestir sjá og viðurkenna að íslenska tungumálið á í vök að verjast – líka meðal innfæddra Íslendinga. Alger forsenda þess að íslenskan varðveitist og þar með aðgangurinn og þátttakan í íslenskri menningu er að það takist að verja íslenska tungumálið með því að hjálpa þeim Íslendingum sem hjálpar eru þurfi – þar á meðal innflytjendum – til þess að skilja og geta notið þessa kjarna íslenskrar menningar.
Fjármunum vel varið
Það sem hér hefur verið upp talið og nauðsynlegt er til þess að flóttafólki sé veitt verðug móttaka kostar vissulega fjármuni. Þeim fjármunum er vel varið því með þeim er reynt að tryggja að Ísland verði íslenskt áfram þar sem íslenska málið er undirstaða íslenskrar menningar og íslensk menning er grundvöllur íslenskrar tilveru. Mælikvarðinn sem styðjast á við er ekki hversu mörgum er hleypt inn frá útlöndum til þess að búsetja sig á landinu okkar heldur hvernig við tökum við þeim sem við viljum vista þannig að afkomendur okkar, landið okkar og menning okkar fái notið þess liðstyrks sem þar gæti boðist ef rétt væri á haldið.
Höfundur er fv. formaður Alþýðuflokksins.