Arna McClure, fv. yfirlögfræðingur Samherja, mun aftur láta reyna á það fyrir dómi að fá samþykkta kröfu sína um að rannsókn héraðssaksóknara á hendur henni verði úrskurðuð ólögmæt og felld niður. Arna hefur nú haft réttarstöðu sakbornings í tæp fjögur ár í rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu.
Morgunblaðið greindi frá því í janúar í fyrra þegar Arna höfðaði mál þar sem farið var fram á að rannsókn á henni yrði hætt. Héraðsdómur hafnaði kröfunni og Landsréttur staðfesti þá höfnun í mars sl.
Í greinargerð sem lögmaður Örnu hefur sent Héraðsdómi Reykjavíkur kemur fram að Arna hafi aldrei í málinu, hvorki við skýrslutöku né í öðrum gögnum málsins, verið upplýst um meint sakarefni. Þegar málið var höfðað í fyrra hafði Arna ekkert heyrt frá héraðssaksóknara í 17 mánuði, eða frá því að hún var kölluð í skýrslutöku í ágúst 2021. Nú eru liðnir 30 mánuðir frá því að Arna var boðuð í skýrslutöku.
Veittu rangar upplýsingar
Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður og meðeigandi hjá Logos lögmannsþjónustu, gætir hagsmuna Örnu í málinu. Spurður hvað hafi breyst á einu ári segir Halldór Brynjar í samtali við Morgunblaðið að allnokkur tilvik hafi komið upp sem bendi til þess að héraðssaksóknari virðist ekki hafa beitt hlutlægum vinnubrögðum við rannsóknina. Þannig virðist embættið hafa veitt dómstólum rangar upplýsingar við fyrri málsóknina sem kann að hafa haft áhrif á niðurstöðuna. Með því að höfða annað mál nú sé í það minnsta tryggt að dómstólar hafi réttar upplýsingar.
„Hins vegar hefur svo auðvitað liðið eitt ár í viðbót án þess að héraðssaksóknari hafi getað bent á eitt einasta gagn, tölvupóst eða framburð sem eigi að renna einhverjum stoðum undir meintan grun á hendur skjólstæðingi mínum,“ segir Halldór Brynjar. Áður hefur komið fram að sakborningurinn Jóhannes Stefánsson, sem greindi frá meintum brotum Samherja í þætti hjá Rúv í nóvember 2019, breytti framburði sínum hvað Örnu varðar á þann veg að hann dró mjög úr ætlaðri aðkomu hennar.
Þá hefur einnig komið fram að í yfirgripsmikilli réttarbeiðni héraðssaksóknara til namibískra yfirvalda, sem send var um miðjan október 2022 og óskað eftir gögnum í málinu hafi hvergi verið minnst á Örnu í réttarbeiðninni. ViðskiptaMogginn greindi frá því í síðustu viku að fimm starfsmenn frá héraðssaksóknara hefðu nýlega dvalið í tíu daga í Namibíu þar sem skýrslur voru teknar af vitnum.
„Þegar fyrra málið var flutt hafði komið fram opinberlega að það hillti undir lok rannsóknarinnar. Það kann að hafa haft áhrif á niðurstöðu dómstóla. Nú, rúmu ári síðar, er ekkert sem bendir til þess að það sé raunin,“ bætir Halldór Brynjar við.
Slepptu svörum Örnu
Í fyrrnefndri greinargerð eru rakin nokkur dæmi þess að héraðssaskóknari hafi ekki horft til hlutleysisskyldu sinnar við rannsókn málsins. Þar eru meðal annars tekin dæmi af tölvupóstum þar sem svörum Örnu – sem benda til þess að hún hafi ekki haft vitneskju um tiltekin mál – er sleppt í þeim gögnum sem lögð eru fram sem gögn málsins. Um nokkur dæmi er að ræða. Þannig heldur lögmaður Örnu því fram að ekki hafi verið horft til gagna sem benda til sýknu auk þess sem önnur samskipti hafi verið slitin úr samhengi.
Þá kemur fram að Arna hafi farið þess á leit við embætti ríkissaksóknara að rannsókn á henni yrði hætt. Í svörum ríkissaksóknara hafi aftur á móti komið fram að lögmanni Örnu hafi verið boðið að skoða gögn málsins og kanna hvort þar sé að finna upplýsingar sem benda til sakleysis hennar í málinu. Halldór Brynjar segir í greinargerðinni að með þessum ummælum sé gefið í skyn að Örnu beri með aðstoð lögmanna að sanna eigið sakleysi, sem stangast á við grunnreglur réttarríkisins. gislifreyr@mbl.is