Stjórnendur Play hafa í fjárfestakynningum lagt áherslu á tekjuvöxt. Heildartekjur Play voru 5,2 sent á hvern sætiskílómetra í árslok 2023 og gert er ráð fyrir auknum hliðartekjum.
Stjórnendur Play hafa í fjárfestakynningum lagt áherslu á tekjuvöxt. Heildartekjur Play voru 5,2 sent á hvern sætiskílómetra í árslok 2023 og gert er ráð fyrir auknum hliðartekjum. — Morgunblaðið/Eggert
Fréttaflutningur og umræða um stöðu flugfélagsins Play á unanförnum vikum hefur ekki haft áhrif á bókunarstöðu félagsins. Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við ViðskiptaMoggann. „Bókunarstaðan fyrir næstu mánuði og inn í…

Fréttaflutningur og umræða um stöðu flugfélagsins Play á unanförnum vikum hefur ekki haft áhrif á bókunarstöðu félagsins. Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Bókunarstaðan fyrir næstu mánuði og inn í sumarið er góð,“ segir Birgir spurður um stöðuna um þessar mundir. Eins og fram hefur komið hyggur Play nú á allt að fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu til að undirbúa frekari vöxt félagsins. Tap Play nam á síðasta ári um 4,8 milljörðum króna og í áritun endurskoðanda kom fram ábending um óvissu sem gæti haft áhrif á rekstrarhæfi félagsins.

Birgir segir að þessi staða hafi hvorki haft áhrif á bókunarstöðu félagsins né samskipti við opinbera aðila, t.d. Samgöngustofu. Samhliða því sem Play birti uppgjör sitt var tilkynnt að félagið hygðist ráðast í 3-4 milljarða króna hlutafjáraukningu og stefna á skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar, en félagið er nú skráð á First North-markaðinn.

Í gær var greint frá því að stærri hluthafar í Play hefðu skráð sig fyrir um 2,6 milljörðum króna í fyrirhuguðu útboði, gegn því skilyrði að það takist að sækja allt að fjóra milljarða í útboðinu. Ekki liggur fyrir hvaða hluthafar það eru en fram kom að viðræður myndu halda áfram við aðra hluthafa. Stærsti hluthafi Play, með tæplega 11% hlut, er fjárfestingarfélagið Leikar sem er að miklu leyti í eigu Einars Arnar Ólafssonar stjórnarformanns Play. Þá á Birta lífeyrissjóður um 9,4% hlut og fjárfestingarfélagið Stoðir um 6,2%.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMogga hefur verið horft til þess að fá erlenda aðila að borðinu, en dæmi eru um að erlendir aðilar hafi sýnt því áhuga að fjárfesta í félaginu. Ráðgjafar Play við hlutafjáraukninguna eru Arctica Finance og Fossar fjárfestingabanki ásamt aðilum frá bandaríska fjárfestingabankanum Greenhill. Þátttaka erlendra fjárfesta er að mörgu leyti þó háð því að félagið flytji sig yfir á aðalmarkað þar sem aukin velta og verðmyndun myndi skapast.