Höllin Tryggvi Snær Hlinason brosmildur á æfingu landsliðsins í Laugardalshöllinni í gær. Annað kvöld mætir liðið Ungverjum.
Höllin Tryggvi Snær Hlinason brosmildur á æfingu landsliðsins í Laugardalshöllinni í gær. Annað kvöld mætir liðið Ungverjum. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi leikur gegn Ungverjalandi leggst mjög vel í mig,“ sagði hinn 26 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær

EM í körfubolta

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þessi leikur gegn Ungverjalandi leggst mjög vel í mig,“ sagði hinn 26 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær.

Íslenska liðið hefur leik í B-riðli undankeppni Evrópumótsins annað kvöld, fimmtudagskvöld, þegar liðið tekur á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni en leikurinn hefst klukkan 19:30.

Ítalía og Tyrkland leika einnig í sama riðli og mætast þau í Pesaro á Ítalíu á sama tíma en Ísland mætir svo Tyrklandi í Istanbúl hinn 25. febrúar í síðari leik sínum í þessum landsleikjaglugga.

„Ungverjarnir eru með sterkt lið og við þurfum að hafa góðar gætur á bæði skotbakvörðunum þeirra, sem og á framherjanum þeirra. Hann er Bandaríkjamaður að upplagi, Mikael Hopkins, og hann er í raun arkitektinn að öllum þeirra sóknarleik.

Við þurfum því að leggja kapp á að reyna að halda honum niðri í leiknum og sjá til þess að hann komist ekki í þær stöður og í þau svæði sem hann vill helst sækja í,“ sagði Tryggvi Snær sem á að baki 63 A-landsleiki.

Þetta er stórmótið okkar

Íslenska liðið hefur tvívegis leikið í lokakeppni Evrópumótsins, árið 2015 í Þýskalandi og árið 2017 í Finnlandi, en liðið var aðeins stigi frá því að tryggja sér sæti í lokakeppni HM 2023 sem fram fór á Filippseyjum, í Indónesíu og í Japan síðasta sumar.

„Því miður var enginn landsleikjagluggi í nóvember og það er því frekar langt síðan landsliðið kom saman síðast. Lokakeppni Evrópumótsins er sú keppni sem við horfum alltaf til og það er stærsta markmiðið okkar, að tryggja okkur sæti í lokakeppninni.

Þetta er í raun stórmótið okkar ef svo má segja enda hefur íslenska landsliðið tvívegis áður tryggt sér sæti í lokakeppninni. Við erum því mjög spenntir að hefja leik í undankeppninni, ég hef mikla trú á þessu liði og við ætlum okkur alla leið.“

Uppselt er á landsleik Íslands og Ungverjalands en það seldist upp á leikinn á fjórum dögum og komust mun færri að en vildu.

„Ég hef sagt það áður að stuðningurinn sem við höfum fengið undanfarin ár hefur verið magnaður og ég á von á frábærri stemningu í Laugardalshöllinni gegn Ungverjunum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að byrja undankeppnina vel og þetta er í raun einn mikilvægasti landsleikur sem við höfum spilað í langan tíma.

Á sama tíma og það eru frábærar fréttir að það sé uppselt á leikinn þá er það líka leiðinlegt því áhuginn er svo mikill og það komast klárlega færri að en vilja. Ég er búinn að fá helling af skilaboðum um það hvort ég gæti ekki reddað einum til tveimur miðum í viðbót en því miður er það ekki möguleiki.“

Frábært að fá Martin aftur

Martin Hermannsson er mættur aftur í leikmannahóp íslenska liðsins eftir að hafa slitið krossband í maí árið 2022 en hann hefur verið einn besti leikmaður Íslands undanfarin ár.

„Það er frábært að fá Martin aftur inn enda lykilmaður í okkar liði. Á sama tíma hafa margir leikmenn fengið tækifæri með landsliðinu að undanförnu og þeir eru allir reynslunni ríkari í dag. Þessi landsliðsbolti er stærri og meiri en félagsliðaboltinn og það tekur tíma að venjast því að spila í þessum gæðaflokki.

Við erum búnir að bæta okkur mikið á síðustu árum og við höfum líka öðlast dýrmæta reynslu þegar kemur að því að spila á móti þessum sterkustu landsliðum heims. Endurkoma Martins gerir okkur bara sterkari og að hafa hann inni á vellinum opnar líka fyrir aðra leikmenn þannig að hann er okkur gríðarlega mikilvægur.“

Tryggvi Snær gekk til liðs við spænska félagið Bilbao fyrir yfirstandandi tímabil eftir fjögur ár í herbúðum Zaragoza en Bilbao situr sem stendur í tólfta sæti spænsku deildarinnar með 18 stig, 6 stigum frá sæti í úrslitakeppninni.

Líður vel á Spáni

„Mér líður mjög vel í Bilbao og borgin er frábær. Það er mikið af náttúruperlum þarna í kringum borgina og veðurfarinu svipar mikið til þess íslenska þannig að ég hef það mjög gott þarna. Liðið hefur líka spilað nokkuð vel, svona oftast í það minnsta. Það er eins í körfuboltanum og öðrum íþróttum, stundum gengur vel og stundum gengur illa.

Persónulega hefur mér líka gengið vel og ég er í góðu formi. Ég fór vel af stað en lenti svo í smávægilegum meiðslum og ég kom ekki alveg nógu hratt til baka en það hefur verið góð stígandi í þessu hjá mér. Mér hefur gengið mjög vel í síðustu leikjum og vonandi næ ég að byggja ofan á það í komandi landsleikjum,“ sagði Tryggvi Snær í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason