Ríkisstjórn Samstaða um aðgerðir í útlendingamálum náðist í ríkisstjórn.
Ríkisstjórn Samstaða um aðgerðir í útlendingamálum náðist í ríkisstjórn. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Niðurstaða náðist í ríkisstjórn í gær um heildstæðar aðgerðir í útlendingamálum sem fela m.a. í sér að tökin verða hert hvað varðar málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd sem og styttingar á heimiluðum dvalartíma hér á landi. Jafnframt er ætlunin að styrkja stjórnsýslu í úrvinnslu umsókna um vernd sem og að sérstöku teymi verði falið að afgreiða umsóknir fólks frá Venesúela.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Niðurstaða náðist í ríkisstjórn í gær um heildstæðar aðgerðir í útlendingamálum sem fela m.a. í sér að tökin verða hert hvað varðar málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd sem og styttingar á heimiluðum dvalartíma hér á landi. Jafnframt er ætlunin að styrkja stjórnsýslu í úrvinnslu umsókna um vernd sem og að sérstöku teymi verði falið að afgreiða umsóknir fólks frá Venesúela.

Lagafrumvarpi til breytingar á lögum um útlendinga var dreift á Alþingi í gær og segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að ætlunin sé að mæla fyrir því á Alþingi í þessari viku, væntanlega á morgun, verði samþykkt að taka það á dagskrá. Markmiðið er síðan að koma því til nefndar að lokinni fyrstu umræðu. Mikilvægt er talið að það markmið náist, enda verður svokölluð kjördæmavika í næstu viku og fyrsti þingfundur að henni lokinni verður ekki fyrr en mánudaginn 4. mars nk.

Lagagrein um „sérstök tengsl“ verði felld brott

Ýmis ákvæði frumvarpsins lúta að styttingu málsmeðferðartíma sem og að regluverkið verði gert líkara því sem gildir annars staðar á Norðurlöndum. Þær breytingar sem ætlunin er að ráðast í á sviði verndarmála eiga að vera í samræmi við löggjöf í þeim löndum, m.a. með afnámi séríslenskra málsmeðferðarreglna, lengd dvalarleyfa og skilyrða á rétti til fjölskyldusameininga.

„Þar ber fyrst að nefna að ég legg til að 2. málsgrein 36. greinar laga um útlendinga sem varðar sérstök tengsl og sérstakar aðstæður verði afnumin,“ segir Guðrún, en í téðri grein segir að taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, hafi útlendingur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli með því.

„Það þýðir að einstaklingar sem þegar hafa fengið vernd í öðru landi munu ekki fá efnismeðferð hér á Íslandi og verða þ.a.l. að fara frá landinu. Ég er sömuleiðis að leggja til skerðingu á rétti til fjölskyldusameiningar, þannig að þeir sem óska slíkrar sameiningar þurfa að hafa verið hér á landi í tvö ár að lágmarki. Ég er einnig að leggja til skerðingu á dvalartímum. Við styttum dvalartíma einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd og fá hana úr 4 árum í 3 ár. Við styttum viðbótarvernd úr 4 árum niður í 2 ár, en mannúðarleyfin verða áfram til eins árs,“ segir Guðrún.

Fækkað í kærunefnd um útlendingamál

Auk framangreinds segir Guðrún að lagt sé til að fækkað verði í kærunefnd um útlendingamál úr 7 mönnum niður í 3 og jafnframt að skilvirkni nefndarinnar verði aukin.

„Allir nefndarmennirnir verða í fullu starfi og það gerum við til þess að málin verði unnin jafnharðan,“ segir hún og ítrekar að breytingarnar séu umfangsmiklar.

„Markmiðið með þessu er fyrst og síðast það að fækka umsóknum um vernd á Íslandi og ná niður kostnaði sem ég hef margoft sagt að kominn er fram úr öllu hófi,“ segir Guðrún.

Sex manna teymi afgreiði umsóknir Venesúelabúa

Spurningu um hvernig vinna eigi niður þann kúf sem myndast hefur í umsóknum um hælisvist, en sl. 2 ár nemur fjöldi umsækjenda um 9.000 manns og vísast falli hluti þeirra utan þeirra skilyrða sem frumvarpið mælir fyrir um, verði það að lögum, svarar Guðrún á þann veg að sett verði á laggirnar teymi 6 manna sem muni eingöngu afgreiða umsóknir frá Venesúela, en um 1.400 manns þaðan bíði fastir í kerfinu eftir úrlausn sinna mála.

„Það er brýnt að afgreiða það hratt og vel. Liður í aðgerðaáætlun er að ná niður þeim hópi. Með breytingu á kærunefndinni erum við að horfa til þess að ná meiri skilvirkni. Sömuleiðis eru hugmyndir í áætlun okkar um að koma upp móttökumiðstöð og brottfararbúðum. Það er mín skoðun að við eigum að vera með móttökubúðir nálægt flugvellinum, þannig að fólk stoppi þar í nokkra sólarhringa á meðan verið er að meta umsóknir þess, áður en það fer inn í íslenskt samfélag,“ segir Guðrún og vísar þar til frumvarps um lokuð búsetuúrræði sem hún segist vonast til að komist á dagskrá þingsins næsta haust.

Í tilkynningu Stjórnarráðsins varðandi búsetuúrræði segi að stofnaður verði „spretthópur“ til að kanna kosti og galla ólíkra leiða í því efni og að litið verði til reynslu nágrannaríkja í því efni.

Spurð um hvort útlendingafrumvarpið verði afturvirkt verði það að lögum, þ.e. hvort það muni taka til á annað hundrað Palestínumanna sem bíða fjölskyldusameiningar, sagði Guðrún að svo myndi ekki verða.

Styrkari stoðum rennt undir útlendingamál

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að markmiðið með boðuðum aðgerðum í útlendingamálum sé að stuðla að betri, skýrari og skilvirkari framkvæmd í útlendingamálum og að rennt verði styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Horft sé á málaflokkinn út frá fjórum meginmarkmiðum; hagkvæmari, skilvirkari reglum og betri þjónustu, stuðla að jöfnum tækifærum og þátttöku í samfélaginu, betri nýtingu mannauðs og betri samhæfingu og samræmingu.

Þar segir og að þjónusta í þágu innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd eigi að vera bæði mannúðleg og skilvirk. Munu sjö ráðuneyti koma að framkvæmd boðaðra aðgerða í útlendingamálum.