Fanney Jóna Þorsteinsdóttir fæddist á Siglufirði 15. maí 1953. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. febrúar 2024.

Fanney var dóttir hjónanna Sigríðar Pétursdóttur, f. 30. apríl 1915, d. 18. nóvember 1991, og Þorsteins Sveinssonar, f. 6. febrúar 1906, d. 20. apríl 1965. Fanney átti tvö systkini, Jóhönnu Steinunni, f. 10. desember 1941, d. 23. maí 2010, og Svein Snævar, f. 22. júní 1945.

Fanney giftist Hilmari Grétari Sverrissyni, f. 10. október 1948, hinn 10. nóvember 1973. Þau eignuðust tvö börn; Sverrir Rúnar, f. 21. maí 1974, giftur Halldóru S.A. Kristjánsdóttur, og Sigríði Rut, f. 2. júní 1978, gift Agnari Arnþórssyni og eiga þau tvo syni, þá Hilmar Inga, f. 10. mars 2010, og Arnþór Rúnar, f. 2. janúar 2012.

Fanney ólst upp í Siglufirði en flutti til Reykjavíkur þegar hún hóf nám í Kennaraskólanum. Lengst af vann Fanney í Landsbanka Íslands eða allt þar til hún þurfti að láta af störfum vegna veikinda.

Útför Fanneyjar Jónu verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. febrúar 2024, kl. 15.

Elsku amma, það er svo erfitt að kveðja þig og hugsa til þess að við sjáumst ekki aftur og að ég muni ekki oftar geta farið til þín í heimsókn. Þú kenndir mér svo mikið og það var svo gaman að gera alla hluti með þér. Við áttum margar góðar stundir sem ég mun alltaf muna. Þú kenndir mér að reima, þú kenndir mér Faðirvorið og svo margt fleira. Það var alltaf gaman hjá okkur þegar við fórum saman í leikhús, bíó, út að borða og öll skiptin sem við spiluðum. Það var líka frábært þegar við fórum saman í zipline í Hveragerði síðasta sumar og það var geggjað gaman þegar við fórum öll saman til Siglufjarðar nú í haust. Takk fyrir alla samveruna, kirkjuferðirnar, símtölin og allt. Ég á eftir að sakna þín svo mikið.

Þinn

Hilmar Ingi.

Í byrjun þessara minningarorða um hjartkæra vinkonu, Fanneyju Jónu, vil ég senda ástvinum hennar mínar dýpstu samúðarkveðjur. Hugur minn er hjá þeim og í bænum mínum bið ég fyrir styrk þeim til handa og að minningarnar verið þeim leiðarljós í gegnum erfiða daga sorgarinnar.

Minningarljósið mitt um elsku vinkonu mína nær langt aftur. Við Fanney kynntumst í Reykjavík þótt við værum báðar Norðlendingar í húð og hár, hún frá Sigló, ég frá Króknum. Við hittumst í Stakkahlíðinni haustið 1971 þegar við settumst á skólabekk í Kennaraháskóla Íslands. Hún með síða fallega ljósa hárið sitt og bláu augun, ég í dökku litunum. Við vorum stoltar stelpur með stór framtíðarplön og þegar við kynntumst var það eins og við hefðum alltaf þekkst. Við áttum svo margt sameiginlegt, fleira en ljóst var í byrjun. Svo vildi til að ég kom til Siglufjarðar í fyrsta sinn á ævinni þegar ég heimsótti fjölskyldu Fanneyjar þar, á Laugarveginum (fræga), og kynntist móður hennar og systur. Þá kom í ljós gömul tenging á milli fjölskyldna okkar úr Skagafirðinum.

Fanney var mér eins og systir í borginni, við vorum duglegar að ganga úti í öllum veðrum, hún bjó á Karlagötunni, ég í Stórholtinu og við urðum samferða daglega þennan tíma sem við áttum saman í KHÍ. Við gátum spjallað út í eitt, hlegið og létt okkur lífið, því við vorum báðar með heimþrá. Fanney var mikill námshestur, svo samviskusöm að af bar. Hún var fyrirmynd og sýndi í verki hvað er að vera vinur, sýndi ómælt traust og trygglyndi alla tíð. Hún var forkur dugleg með viljastyrk sem bókstaflega dreif mann áfram. Húmorinn var líka dásamlegur. Það var okkur alltaf hlátursefni að rifja upp einu skíðaferðina sem við fórum í með bekknum okkar, við þessar tvær að norðan höfðum engin skíði en létum okkur gossa á snjóþotu. Við eigum myndir sem sýna okkur í hláturskasti.

En í borginni bjó maður sem heillaðist af ljósa hárinu og eiganda þess. Þá hófst nýr og stór kafli í lífinu hennar Fanneyjar, þegar hún kynntist honum Hilmari. Þau giftu sig og áttu í nóvember sl. 50 ára brúðkaupsafmæli. Á þeirra stóra degi fyrir hálfri öld kom það í minn hlut að vera heima og taka á móti blómum og sendingum, þannig gat ég stuðlað að því að allt þeirra fólk gat verið saman þann dag. Það er mér kær minning.

Elsku Fanney, mín hjartkæra vinkona, settist að í Reykjavík, ég flutti norður og stofnaði fjölskyldu þar. Ég flutti svo 20 árum síðar til Akraness, samband okkar slitnaði aldrei. Jólin urðu okkar tenging, og þau hjónin sendu okkur myndir af börnunum tveimur og svo barnabörnum, sem eru kjarninn í lífinu. Vil ég einlæglega þakka þeim fyrir þeirra sönnu vináttu og trygglyndi sem verður huggun í söknuði og sorg, það eru fallegar og ljúfar minningar að varðveita í hjartanu. Þetta fallega vers legg ég með kveðjum mínum til Fanneyjar, það birtist mér óvænt um daginn:

Með kærri þökk og kveðju,

sem krans á leiðið þitt,

frá kennara og vini

ég sendi ljóðið mitt.

Ég blessa þína minning

og bljúg ég hana geymi.

Þér, björk af feðra stofni,

ég aldrei, aldrei gleymi.

(VV)

Þórunn Erla
Sighvats (Tóta).

hinsta kveðja

Amma, ég elska þig meira en allt, þú varst alltaf svo góð, hress og skemmtileg. Þegar ég var hjá þér hurfu öll leiðindi og sorg og eina sem kom var bros og gleði. En núna ertu ekki lengur veik og þér er ekki lengur illt. Þú lifir áfram í hjartanu mínu og með þér á ég fullt af minningum sem ég mun geyma en ekki gleyma. Hvíl í friði amma mín, ég á eftir að sakna þín mikið, ég elska þig.

Þinn

Arnþór Rúnar
(Addi).