Ríkisskattstjóri gerði bankakort skattskyld stuttu fyrir jól og fyrirtæki gáfu starfsmönnum frekar inneignarkort í staðinn. Það raskaði samkeppni að mati FA þar sem öll fyrirtæki taka við bankakortum sem greiðslu.
Ríkisskattstjóri gerði bankakort skattskyld stuttu fyrir jól og fyrirtæki gáfu starfsmönnum frekar inneignarkort í staðinn. Það raskaði samkeppni að mati FA þar sem öll fyrirtæki taka við bankakortum sem greiðslu. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við teljum að hvorki Skatturinn né fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem staðfesti breytingarnar, hafi lagaheimildir til að skattleggja gjafakort með ólíkum hætti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), í samtali við ViðskiptaMoggann

„Við teljum að hvorki Skatturinn né fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem staðfesti breytingarnar, hafi lagaheimildir til að skattleggja gjafakort með ólíkum hætti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), í samtali við ViðskiptaMoggann. Ríkisskattstjóri breytti sem kunnugt er skattmati í lok nóvember sl. með þeim hætti að ef atvinnurekendur gáfu starfsmönnum bankakort með peningainneign í jólagjöf varð að greiða skatt af inneigninni, en gjafakort einstakra verslana og verslunarmiðstöðva voru áfram undanþegin skattheimtu. Skattmatið lýtur að launþegum og segir til um hvað sé skattskylt og hvað ekki.

Óskýr lagagrundvöllur

Morgunblaðið greindi í lok desember frá efasemdum sem Sindri M. Stephensen, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Hafsteinn Dan Kristjánsson, lektor við lagadeild HR, höfðu um umræddar breytingar á skattmati. Þeir vísuðu til þess að samkvæmt tekjuskattslögum eru tækifærisgjafir til starfsmanna almennt ekki skattskyldar. Þeir töldu lagagrundvöllinn fyrir skattskyldu bankakorta vera óskýran og settu spurningarmerki við hvort breytingin samrýmist m.a. jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Til að mynda hvort hægt sé að gera greinarmun í lagalegu tilliti á starfsmanni sem fær 20 þúsund króna gjafabréf í verslun eða verslunarkjarna og starfsmanni sem fær bankakort með 20 þúsund króna inneign, og áttu örðugt með að sjá hvaða heimildir ríkiskattstjóri hefði til að gera þennan greinarmun.

Guðbjörg Þorsteinsdóttir, lögmaður og meðeigandi hjá Deloitte Legal, segir í samtali við ViðskiptaMoggann, að þegar hún vakti athygli á breytingunni þá hafi fjöldi fólks haft samband við hana og spurt um hvaða þýðingu hún komi til með að hafa.

„Það var mikið spurt um hvort í lagi væri að kaupa gjafakort, t.d. í Kringlunni þar sem töluvert af starfsfólki notar gjafakortin í matarinnkaup í Bónus fyrir jólin. Bankakort eru hins vegar bara peningur í rauninni sem fólk getur notað til að kaupa vörur og þjónustu hjá öllum fyrirtækjum,“ segir Guðbjörg, spurð nánar um munurinn sé á bankakortum og inneignarkortum.

Hún veltir einnig fyrir sér lagaheimildinni og bendir á að ríkisskattstjóra sé vissulega heimilt að gefa út skattmatið til þess að kveða á um hvernig ber að fara með ýmiskonar hlunnindi launþega. Aftur á móti sé spurning hversu langt embættið geti gengið í þeim efnum.

Samkeppnisleg áhrif

ViðskiptaMogginn hefur upplýsingar um að fyrirtæki hafa fundið fyrir áhrifum skattmatsbreytinganna í jólaversluninni, sem kemur helst fram í því að ólíkt fyrri árum hafi lítil viðskipti verið með bankakort hjá þeim. Verslunareigendur benda á að þegar inneignarkort bankanna voru gerð skattskyld var fyrirtækjum sem vildu gera vel við starfsfólkið sitt í jólagjöfum, skyndilega gert að hætta við að kaupa bankakort og kaupa þess í stað inneignarkort í verslunarkjarna eða einstaka verslunum.

Með því að gera breytinguna skömmu fyrir hátíðarnar telja þeir að ríkisskattstjóri hafi beint viðskiptum á ákveðna staði og hyglað verslunarmiðstöðvum og þeim sem selja inneignarkort, á kostnað fyrirtækja sem gera það ekki. Ólafur segir það deginum ljósara að breytingin á skattmatinu hafði veruleg samkeppnisleg áhrif og það séu vísbendingar og gögn sem sýni það að það hafi dregið almennt úr verslun með inneignarkortum frá bönkunum og verslun með inneignarkort frá verslunarkjörnum hafi stóraukist.

„Nákvæmlega það sem við sögðum að myndi gerast að það væri í raun verið að beina viðskiptum atvinnurekenda á ákveðna staði,“ útskýrir Ólafur bætir því við til stuðnings máli sínu að á vefsíðu Kringlunnar er tekið fram að gjafakort hennar séu tilvalinn kostur fyrir atvinnurekendur, þar sem starfsmenn greiði ekki skatt af gjafakortum Kringlunnar líkt og gildir fyrir bankakort.

Aðspurður segir Ólafur að FA hafi í hyggju að láta á það reyna hvort lögum hafi verið fylgt þegar skattmatinu var breytt og FA hafi miklar athugsemdir við að það fari eftir forminu hvernig inneignarkort eru skattlögð, þar sem gjafakort í verslunarmiðstöðvar eru gerð skattfrjáls en gjafakort bankanna ekki.

Salan fjórfaldaðist

Til að sannreyna áðurnefnda gagngrýni óskaði ViðskiptaMogginn eftir upplýsingum frá bönkunum um sölu annars vegar á bankakortum og hins vegar á inneignarkortum í desember 2022 og 2023. Svör bárust frá Arion banka, Íslandsbanka og Kringlunni.

„Veltan fjórfaldaðist í desember 2023 samanborið við sama tíma í fyrra,“ segir Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, í samtali við ViðskiptaMoggann og bætir við í því sambandi að velta Kringlunnar hafi þrefaldast á milli ára. Í svari Íslandsbanka kemur fram að salan á gjafakortum til fyrirtækja minnkaði um 37% árið 2023, samanborið við árið á undan. „Gera má ráð fyrir að umræða um skatta hafi þar áhrif en einnig eru sífellt fleiri fyrirtæki farin að bjóða upp á sín eigin gjafakort og gjafakortsfyrirtækjum hefur fjölgað,“ segir í svari bankans.

Í svari Arion banka kemur fram að sala á bankakortum hafi dregist saman um 47% á milli ára á fjórða fjórðungi síðasta ár þegar horft er til fjölda korta, en um 45% þegar horft sé til upphæða á fyrrnefndum kortum.