Velkomin Úkraníumenn eru ánægðir með móttökurnar sem þeir hafa fengið á Íslandi síðustu tvö árin.
Velkomin Úkraníumenn eru ánægðir með móttökurnar sem þeir hafa fengið á Íslandi síðustu tvö árin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er enn baráttuhugur í þessu fólki og heilt yfir gengur því vel hér á landi,“ segir Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir og einn forsvarsmanna samtakanna Flottafólk sem halda utan um Úkraínumenn hér á landi

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er enn baráttuhugur í þessu fólki og heilt yfir gengur því vel hér á landi,“ segir Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir og einn forsvarsmanna samtakanna Flottafólk sem halda utan um Úkraínumenn hér á landi.

Á laugardaginn verða tvö ár liðin frá innrás Rússa í Úkraínu. Ekkert lát er á hörmungunum þar í landi og enn kemur fólk hingað sem flýja hefur orðið stríðið. Nýjar tölur frá Útlendingastofnun sýna að alls hefur 3.961 Úkraínubúi sótt um og fengið alþjóðlega vernd hér á landi árin 2022 og 2023. Þær upplýsingar fengust frá Útlendingastofnun í gær að nú séu gild dvalarleyfi á grundvelli verndar vegna fjöldaflótta frá Úkraínu 3.496 talsins. Ekki er þó hægt að fullyrða að allir séu búsettir hér í raun.

Sveinn Rúnar segir að fólk frá Úkraínu sé orðið áþreifanlega stór hluti þjóðfélagsins hér. „Þegar maður fer í Kringluna, Smáralind eða labbar í miðbænum heyrir maður úkraínsku mjög víða,“ segir hann og grínast með að þetta sé orðið eins og með Íslendinga á Tenerife eða Strikinu í Kaupmannahöfn.

Hann segir að afar vel hafi gengið fyrir flesta að aðlagast lífinu hér á landi. Vel hafi verið tekið á móti fólki og því líði vel. Þó eru blikur á lofti nú þegar þessi tímamót nálgast. Í byrjun mars rennur út gildistími 44. gr. útlendingalaga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússa. Þessi grein var fyrst virkjuð 4. mars 2022 og var svo framlengd til eins árs í fyrra. Ekkert hefur verið gefið upp um framhaldið. „Við í samtökunum höfum fengið mikið af fyrirspurnum um hvað taki við. Ég vona að þetta verði framlengt. Mjög stór hluti hópsins er í vinnu og hefur aðlagast feikilega vel. Börnin eru flest hver í skóla. Maður finnur að það eru vaxandi áhyggjur.“

Minni vinna og hærri leiga

Sveinn Rúnar nefnir ennfremur að efnahagsástandið hér hafi áhrif á hag Úkraínumanna sem annarra. „Það gengur treglegar að finna fólki vinnu. Það gekk ofboðslega vel fyrsta eina og hálfa árið en það er meiri seinagangur í því núna, eðli málsins samkvæmt. Leigumarkaðurinn leggst einnig mjög þungt á marga. Margir hafa þurft frá að hverfa úr leiguhúsnæði sem þeim var úthlutað í upphafi en sjá ekki fram á vegna kostnaðarhækkana á grunni verðbólgu að halda húsnæðinu. Það er ákveðinn vandi þar og vaxandi.“

Hann nefnir sem dæmi íbúðir í Urriðaholti í Garðabæ sem leigufélagið Alma tók yfir. „Leiguverðið þar er orðið algjörlega óboðlegt og fólk er hægt og bítandi að seytlast í burtu þaðan. Stéttarfélögin ábyrgjast ekki lengur leigutryggingar og það hefur reynst mörgum barnafjölskyldum íþyngjandi. Við höfum reynt að benda fólki á aðrar leiðir í þeim efnum þó þær kosti vissulega örlítið mánaðarlega.“

Líkt og kom fram á mbl.is á dögunum varð Iryna Zinenko, tannlæknir sem kom til Íslands sem flóttamaður árið 2022, fyrst Úkraínumanna til að öðlast leyfi landlæknis til að starfa sem tannlæknir á Íslandi í byrjun þessa árs. Sveinn Rúnar býst við að fleiri bætist í hópinn. „Ég vona að nokkur fjöldi lækna og tannlækna muni fylgja í kjölfarið. Það er skilgreiningin á sóun ef vel menntað fólk er ekki nýtt hér á landi þar sem er mikill skortur ríkjandi akkúrat á þessu sviði. Á sama tíma eru 20 prósent þjóðarinnar að verða mælandi á erlend tungumál.“

Af þessum fjögur þúsund flóttamönnum sem hingað hafa komið frá Úkraínu á tveimur árum kveðst Sveinn Rúnar telja að flestir hafi fest ágætlega rætur. „Ég veit þó um nokkra sem hafa snúið til baka. Það eru kannski einhver hundruð í allt. Ástæðurnar hafa einkum verið kostnaðarlegs eðlis. Það er ekki veðrið, kuldi eða myrkur heldur fyrst og fremst að hér sé of dýrt að vera. Og ef fólk fær ekki vinnu og á að lifa hér af bótum þá skilur maður það alveg. Langflestir í þessum hópi eru menntaðir einstaklingar úr millistéttum eða efri stéttum þjóðfélagsins ytra sem áttu gott og sómasamlegt líf í sínu landi. Þetta fólk vill því gjarnan komast inn á vinnumarkaðinn og hafa efni á helstu nauðsynjum.“

Áhyggjur af fólkinu í Úkraínu

Hann kveðst aðspurður skynja áhyggjur meðal Úkraínumanna hér á landi vegna stöðunnar heima fyrir. „Það eru vaxandi áhyggjur af fólki á svæðum sem búið er að frelsa eða eru nálægt víglínunni. Meðan Úkraína þarf að bíða eftir frekari stuðningi af hálfu Bandaríkjanna og/eða aukinni getu Evrópusambandsins til þess að framleiða þau hergögn sem til þarf þá er algjörlega viðbúið að það verði frekari landvinningar af hálfu Rússa. Maður finnur fyrir áhyggjum hjá fólki sem á ættingja á þessum svæðum, það vill fá fólkið sitt vestar eða jafnvel út úr landinu.“

Atburðir síðustu vikna hér á landi geta að mati Sveins Rúnars sett hlutina betur í samhengi fyrir okkur. „Ég held að við ættum núna að geta gert okkur betur grein fyrir þeirri þjáningu sem þetta fólk býr við. Nú fengum við öll í magann yfir heitavatnsskorti á Reykjanesi þessa daga en þetta hefur verið veruleiki þessa fólks í tvö ár, að það sé verið að ráðast á innviði á borð við rafmagn og heitt vatn og svipta fólk aðgengi að þessu öllu saman á bylmingsköldum sovétvetri.“

Sjálfur kveðst hann hafa þungar áhyggjur af stöðunni. Úkraínumenn þurfi á hjálp að halda. „Það er þyngra en tárum taki að bandarísk pólitík skuli vera á þeim stað að líf úkraínskra drengja á víglínunni sé skiptimynt í pólitískri baráttu repúblikana á þinginu. Kerfisbundið er reynt að koma í veg fyrir stuðning svo hægt sé að nota þetta í kosningunum síðar á árinu. Fyrir vikið er Úkraína í vörn en þessar tafir hafa líka kostað óþarfa mannfall. Manni finnst einsýnt með nýjustu fréttunum af Navalní að fólk hljóti að gera sér grein fyrir hvað býr að baki hjá þessum vitfirringi sem öllu ræður. Fólk verður að sameinast um það að sigra Rússa því Úkraína verður ekki síðasti leikur Pútíns á skákborðinu hafi hann betur.“

Hann segir að atburðirnir á Gasa hafi skyggt á Úkraínustríðið undanfarið en ekki megi horfa fram hjá því að útkoma stríðsins í Úkraínu sé stærsta einstaka breytan er varðar framtíð okkar og íbúa Evrópu. „Þetta hefur orðið hálfgert skuggastríð. Það er þó rétt að minna á að þetta er hluti af sama teningnum. Helstu bakhjarlar Rússa eru þessi fyrirmyndarmannréttindaríki, Norður-Kórea og Íran, og Íran er nú helsti bakhjarl Hamas þannig að þetta er hluti af sama vandamálinu. Við hér á vesturhveli jarðar þurfum að hætta að gefa okkur að frelsið sé varanlegt og fara að svara þessum hryllingi af miklu meiri festu heldur en gert hefur verið áður.“

Hittast á sunnudag

Standa saman

„Það er mikill samgangur og fólk hjálpar hvert öðru. Þetta er farið að ganga heilt yfir mjög vel. Hver Úkraínumaður sem kemur hingað núna fær mjúka lendingu í því félagslega neti sem hér er þegar til staðar,“ segir Sveinn Rúnar Sigurðsson.

Ákveðið var að engin dagskrá yrði á laugardag þegar tvö ár verða liðin frá innrás Rússa. Á sunnudag ætla Úkraínumenn hins vegar að koma saman. Boðið var til kvikmyndasýningar í Laugarásbíói þar sem sýnd verður úkraínsk teiknimynd. Loka þurfti fyrir skráningu nokkrum mínútum eftir að hún hófst því miðarnir kláruðust. „Það verður gott fyrir fólk að hittast og dreifa huganum,“ segir Sveinn Rúnar.