Jóhanna fæddist í Lækjarhúsum í Borgarhöfn í Suðursveit 16. júní 1933. Hún lést á Hrafnistu 1. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigurður Magnússon frá Gamla Garði í Suðursveit, f. 19. júní 1898. d. 20. desember 1959, og Guðný Guðrún Jónsdóttir frá Lækjarhúsum í Suðursveit, f. 31. desember 1905, d. 17. október 1993.

Systir hennar var Sigurborg Þóra, f. 17. október 1926, d. 12. janúar 2000. Hún var gift Jóhanni S. Kristmundssyni, f. 11. júlí 1921, d. 3. mars 2010.

Þeirra börn eru Jónína, Sigurður Guðni, Vilborg Nanna, Óskar og Sigrún. Bróðir hennar var Rögnvaldur, f. 24. febrúar 1931, d. 14. júlí 1991, var giftur Kristínu Þórhallsdóttur, f. 17.1. 1931, d. 26.6. 1989. Þeirra börn eru Bjarni Þór og Sigríður Guðný.

Jóhanna vann í Burstagerðinni við Laugaveg, síðan hjá Sambandinu og síðar í Holtagörðum á símanum, endaði á dagdeildinni á Kleppsspítala við ræstingar.

Jóhanna var ógift og barnlaus.

Útförin fer fram frá Áskirkju í dag, 21. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku frænka.

Nú hefur þú fengið hvíldina og efum við ekki að hún hafi verið þér kærkomin.

Þú skipaðir mikinn sess í lífi okkar systkinanna, þið amma bjugguð saman í Skipasundi og þegar við komum í heimsókn varst þú líka til staðar fyrir okkur. Þú hafðir unun af því að stjana við okkur og kunnum við að meta það.

Þú varst einstakur karakter á svo margan hátt. Þú varst ætíð ljúf og blíð, kvartaðir aldrei og tókst á við lífið og tilveruna af einstakri ró. Þú áttir farsælan starfsferil. Labbaðir ætíð til og frá vinnu, tókst aldrei bílpróf og varst þar af leiðindi ákaflega dugleg að stunda útiveru og hreyfingu. Enda varstu í toppformi framan af þinni löngu ævi. Þú varst ætíð heilsugóð og sjálfri þér nóg.

Þú hafðir seinni árin gaman af að fara í bíltúra og kaffihús og skoðaðir mikið í kringum þig, spjallaðir um umhverfið, við tölum nú ekki um öll jólaljósin ár eftir ár.

Þú varst sannkölluð spiladrottning á ýmsum félagsmiðstöðum í nágrenni við heimili þitt. Þér fannst nú ekki leiðinlegt að vera hæst í félagsvistinni og komst iðulega með verðlaun heim. Þegar hugur og hönd hættu að vinna saman var það þungbært fyrir þig að geta ekki spilað lengur.

Sveitin þín, Suðursveit, var þér ætíð hugleikin og hélstu sambandi við sveitunga þína meðan heilsan leyfði.

Við skemmtum okkur oft þegar við fórum að versla með þér undir það síðasta, það var stundum ævintýri sem gaman er að geyma í minningabankanum.

Um mitt árið 2019 var nokkuð ljóst að þú gætir ekki búið ein lengur. Við fórum með þér að skoða herbergi á Hrafnistu, þú varst strax sátt við nýja heimilið þitt og varst með okkur að velja muni sem þú vildir hafa í kringum þig.

Á Hrafnistu, Mánateig, undir þú hag þínum vel og notalegt var að koma til þín í heimsókn. Þú áttir uppháhaldsstað við stofuborðið, settist gjarnan við enda borðsins svo þú gætir fylgst með spilavinum þínum.

Þú labbaðir gjarnan með okkur út í enda gangsins og dásamaðir Esjuna í bak og fyrir. Hún var fastur punktur hjá þér að skoða helst daglega enda er Esjan falleg.

Þú eignaðist engin börn, við börn Boggu systur þinnar og Valda bróður þíns fengum að njóta þess að þú áttir okkur öll.

Þú kvaddir þessa jarðvist hinn 1. febrúar og gerðir það hægt og hljótt, algjörlega í þínum anda.

Elsku Jóhanna frænka, takk fyrir samfylgdina. Við munum ávallt geyma minningu þína í hjarta okkar.

Hvíl í friði og guð varðveiti þig.

Systurbörnin þín,

Jónína, Sigurður Guðni, Vilborg Nanna, Óskar og Sigrún.