Lögregla Breytingunum er ætlað að auka getu lögreglu til að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir brot sem beinast gegn öryggi ríkisins.
Lögregla Breytingunum er ætlað að auka getu lögreglu til að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir brot sem beinast gegn öryggi ríkisins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Umræða hélt áfram á Alþingi í gær um frumvarpið sem dómsmálaráðherra mælti fyrir á mánudag um breytingar á lögreglulögum þar sem útfærðar eru og styrktar heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna og gegn skipulagðri brotastarfsemi. Eins og fram hefur komið felur það m.a. í sér afmarkaðar heimildir lögreglu til að hafa eftirlit með einstaklingum á almannafæri og vakta vefsíður sem opnar eru almenningi til að koma í veg fyrir að afbrot verði framin. Einnig eru veittar heimildir til eftirlits með einstaklingum sem tengjast skipulögðum glæpahópum og skerpt er á heimildum lögreglu til að berjast gegn útbreiðslu skipulagðrar brotastarfsemi. Áhersla er lögð á að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Jafnframt á með breytingunum að efla eftirlit með lögreglunni.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram en ekki náð fram að ganga en ráðherra hefur nú lagt það fram að nýju með ýmsum breytingum sem varða einkum aukið og eflt eftirlit með störfum lögreglunnar. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði er hún mælti fyrir frumvarpinu að í þessu skyni yrði komið á fót innra gæðaeftirliti hjá embætti ríkislögreglustjóra „og skal ráðherra skipa í embætti gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. Jafnframt er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna og verður nefndarmönnum fjölgað úr þremur í fimm og starf formanns gert að fullu starfi og skal ráðherra skipa formann til fimm ára. Þá verður starfsmönnum nefndarinnar einnig fjölgað,“ sagði hún.

Frumvarpið er umdeilt. Þingmenn Pírata hafa gagnrýnt tillögurnar um auknar eftirlitsheimildir lögreglu til að fylgjast með einstaklingum sem hafi hvorki brotið af sé né séu grunaðir um brot og segja að alvarlega skorti á sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglunnar eins og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir benti á við þingumræðurnar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var algerlega ósammála þeirri fullyrðingu dómsmálaráðherra að ekki væri verið að leggja til víðtækar eftirlitsheimildir með almennum borgurum. Vísaði hún í ákvæði um að lögreglu væri heimilt til að stemma stigu við afbrotum og nýta allar upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar s.s. við framkvæmd löggæslustarfa, eftirlit á amlannafæri og vöktun vefsíðna og sagði hún það fela í sér víðtækar eftirlitsheimildir með almenningi. „Þarna erum við að tala um aðgang að öllum eftirlitsmyndavélum landsins sem lögregla fær heimild til að vakta til að setja í einhvern gagnagrunn,“ sagði hún.

Guðrún svaraði og sagði frumvarpið ekki fjalla um forvirkar rannsóknarheimildir heldur fjalli það að meginstefnu um eftirlit lögreglu á almannafæri samkvæmt ströngum skilyrðum. „Þetta er frumvarp um eftirlit á almannafæri, eins og ég hef sagt, en forvirkar rannsóknarheimildir fela í sér þvingunarráðstafanir gagnvart einstaklingum, svo sem hleranir og haldlagningu, þegar þær ráðstafanir byggjast ekki á sakamálalögum. Við erum ekki að óska eftir heimildum til þess. Við erum að óska eftir því, ef grunur leikur á refsiverðri háttsemi sem annaðhvort er tengd skipulagðri brotastarfsemi eða getur stefnt öryggi ríkisins í voða, að lögreglan fái heimildir til að stunda vöktun í almannarýminu,“ sagði ráðherrann.

Í breytingunum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu um eftirlit með aðgerðum lögreglu er m.a. mælt fyrir um að embætti ríkislögreglustjóra skuli starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu og að ráðherra skuli skipa gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. „Hins vegar er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna með því að fjölga nefndarmönnum og kveða á um að formaður nefndarinnar skuli vera embættismaður í fullu starfi, auk þess sem nefndinni er falið að hafa sérstakt eftirlit með aðgerðum lögreglu í þágu afbrotavarna,“ segir í greinargerð. Jafnframt er lagt til að starfsemi stýrihóps um skipulagða brotastarfsemi og samræmingu aðgerða sem starfað hefur frá 2020 verði lögfest.

Hert er á skilyrðum sem uppfylla þarf þegar ákvörðun er tekin um eftirlit með einstaklingi sem er talinn hafa tengsl við skipulögð brotasamtök. Sú ákvörðun verði eingöngu tekin af lögreglustjóra og skal bera hana undir stýrihópinn svo fljótt sem auðið er og innan þriggja sólarhringa.

Jafnframt hefur verið skerpt á orðalagi greinar um eftirlit með aðgerðum í þágu afbrotavarna og hlutverki nefndarinnar sem hefur eftirlit með lögreglu. Á nefndin að taka slíkar aðgerðir til skoðunar ef hún telur tilefni til og henni er skylt að beina því til lögreglustjóra að tilkynna einstaklingi um eftirlit með honum ef í ljós kemur að aðgerðir lögreglunnar uppfylla ekki skilyrði laga.