Kennarar Guðni Sveinn Theódórsson, til vinstri, og Uwe Beyer sem er akstursþjálfari frá Þýskalandi. Vanir menn hér við stjórnvölinn.
Kennarar Guðni Sveinn Theódórsson, til vinstri, og Uwe Beyer sem er akstursþjálfari frá Þýskalandi. Vanir menn hér við stjórnvölinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Góðir bílstjórar geta orðið betri og slíkt er nú einmitt tilgangurinn með þessum námskeiðum okkar,“ segir Guðni Sveinn Theódórsson ökukennari. Hann með fleirum stendur að Ökulandi ehf. á Selfossi sem nú fyrr í mánuðinum stóð að akstursöryggisnámskeiði. Slík standa daglangt og eru ætluð þeim er keyra rútur, vörubíla og slík tæki. Námskeiðin eru valkvæð en hjá Samgöngustofu vega þau til eininga í reglubundinni endurmenntun sem atvinnubílstjórar þurfa að sækja.

„Góðir bílstjórar geta orðið betri og slíkt er nú einmitt tilgangurinn með þessum námskeiðum okkar,“ segir Guðni Sveinn Theódórsson ökukennari. Hann með fleirum stendur að Ökulandi ehf. á Selfossi sem nú fyrr í mánuðinum stóð að akstursöryggisnámskeiði. Slík standa daglangt og eru ætluð þeim er keyra rútur, vörubíla og slík tæki. Námskeiðin eru valkvæð en hjá Samgöngustofu vega þau til eininga í reglubundinni endurmenntun sem atvinnubílstjórar þurfa að sækja.

Endurmenntun sú sem bílstjórar þurfa að sækja er að nokkru í fjarkennslu yfir netið. Þar er tekið fyrir regluverk um akstur, bíltækni, ferðafræði, skyndihjálp og fleira slíkt.

Keyrt í Kapelluhrauni

Fyrstu akstursöryggisnámskeiðin fyrir atvinnubílstjóra sem Ökuland stóð fyrir voru haldin árið 2016 suður í Þýskalandi. Nú hafa þau verið flutt heim og voru kennd á akstursþjálfunarsvæðinu í Kapelluhrauni sunnan við Hafnarfjörð. Í þetta sinn voru í námi vörubílstjórar frá Steypustöðinni og rútubílstjórar frá GJ Travel. Alls voru þetta um 70 bílstjórar sem komu í nokkrum hópum. Ætlunin er að halda áfram með námskeiðin, sem þá bæði verða hér heima en einnig í Þýskalandi eins og vinsælda nýtur.

„Á akstursöryggisnámskeiði er farið yfir hvað á að gera í hættulegum aðstæðum og hvernig bregðast á best við með ákveðnu aksturslagi. Það er einnig farið yfir eðlisfræðileg lögmál aksturs og hvernig öryggiskerfi í stórum bílum virka. Markmið er að bílstjórar geti forðast hættulegar aðstæður. Hemlun og að sveigja fram hjá hindrun á vegum er eitt atriði sem við förum sérstaklega í og hver skuli vera rétt beiting á stýri við beygjur og ákjósanleg hemlun í beygjum,“ segir Guðni Sveinn.

Nám í sífelldri þróun

„Reynslan er góð og námið hjá okkur er í sífelldri þróun, rétt eins og vera þarf,“ segir Guðni sem sinnt hefur ökukennslu um langt árabil. Þar hefur hann mikið sinnt fræðslu til atvinnubílstjóra sem margir hverjir hafi verið tregir til að sækja endurmenntun og talið reynslu sína duga. Nú sé skilningurinn á mikilvægi þessa meiri og öryggisvitund sterkari. sbs@mbl.is