Björn segir að þó að staðan sé þröng á orkumarkaði akkúrat núna þá sé fyrirtækið á langtímavegferð.
Björn segir að þó að staðan sé þröng á orkumarkaði akkúrat núna þá sé fyrirtækið á langtímavegferð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland hefur alla burði til að vera í fremstu röð sem miðstöð fyrir alþjóðlega gagnaversþjónustu.

Gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center sem rekur þrjú gagnaver hér á landi, á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík, hefur fest kaup á gagnaveri í Kajaani í Finnlandi eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku. Kaupverð er trúnaðarmál. Verið verður fyrsta starfsstöð félagsins erlendis. Samhliða kaupunum er stefnt að frekari stækkun á gagnaverinu.

Kaup Borealis eru m.a. liður í að dreifa áhættu en aðstæður hér á landi m.a. í orkumálum gætu hamlað uppbyggingu næstu misseri, eins og Björn Brynjúlfsson forstjóri og einn eigenda fyrirtækisins útskýrir í samtali við ViðskiptaMoggann.

Með fjárfestingu Borealis í Finnlandi eru öll stóru íslensku gagnaverin með starfsemi utan landsteinanna.

Hýsti áður pappírsverksmiðju

Kajaani er bær í Norður-Finnlandi og er gagnaverið á iðnaðarsvæði sem hýsti áður pappírsverksmiðju. Nú hefur því verið umbreytt í iðngarðinn Renforsin Ranta Business Park.

Finnland og Ísland eiga það sameiginlegt að þar er kalt loftslag sem er hagstætt fyrir rekstur gagnavera auk þess sem aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum er gott í báðum löndum.

Björn segir að um vendipunkt í rekstri Borealis sé að ræða.

„Það er stórt skref fyrir okkur sem félag að koma okkur fyrir utan Íslands, sér í lagi í ljósi núverandi aðstæðna í viðskipta- og raforkuumhverfi Íslands,“ segir Björn.

Hann segir að stefnt sé að því að stækka gagnaverið upp í 10 MW og umfram það til lengri tíma til að auka stærðarhagkvæmni sem skipti máli í gagnaversrekstri, sér í lagi eftir því sem kröfur aukast.

„Gagnaverið er sérhæft í þjónustu við viðskiptavini sem þurfa aðgengi að háhraðatölvum og gervigreindarvinnslu. Þetta er hágæða þjónusta með ríkum uppitímakröfum. Verið er með fjölbreytta og vandaða viðskiptavini, bæði finnska og alþjóðlega.“

Nægt aðgengi er að endurnýjanlegri orku í Kajaani að sögn Björns.

„Eins og staðan er í dag kemur orkan frá vatnsaflsvirkjunum. Gagnaverið var upphaflega rekið af upplýsingatæknifyrirtækinu Herman IT sem hafði sjálfbærni að leiðarljósi við uppbyggingu þess. Það er í takti við stefnu Borealis um að lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi sinni. Það hefur líka verið mikil uppbygging á vindorkuverum í Finnlandi þannig að orkuframboð styður við frekari uppbyggingu. Þá er viðskiptaumhverfið í Finnlandi framúrskarandi. Það er með því besta sem gerist í heiminum.“

Ekki nægilegur stuðningur

Spurður um muninn á umgjörð gagnavera á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum segir Björn, sem jafnframt er formaður Samtaka gagnavera hér á landi, að umhverfið á Íslandi sé ekki til þess fallið að styðja nægilega vel við uppbyggingu iðnaðarins. Á sama tíma hafi hin norrænu löndin sest niður og markað sér skýra stefnu um uppbyggingu gagnavera. Þau hafi markvisst laðað til sín gagnaver bæði sem fjárfestingarkosti og sem uppbyggingaraðila í löndunum. „Ekki hafa komið fram jafn markviss áform hérlendis og eru því ákveðnar áskoranir í viðskiptaumhverfinu varðandi frekari uppbyggingu. Hin norrænu löndin hafa þannig náð að styrkja stöðu sína og skapa sér forskot,“ segir Björn.

Spurður nánar um þær áskoranir sem gagnaver á Íslandi búa við segir Björn að þar sé hann fyrst og fremst að tala um samkeppnishæft skattaumhverfi til jafns við hin norrænu löndin ásamt fyrirsjáanleika í orkumálum.

„Í Finnlandi er viðskiptaumhverfið með því besta sem gerist í heiminum samkvæmt alþjóðlegum samanburðarskýrslum. Á sama stað og okkar gagnaver er ein stærsta græna ofurtölva heims, LUMI sem rekin er í samstarfi við ofurtölvuverkefni Evrópusambandsins, EuroHPC (The European High Performance Computing Joint Undertaking), og nokkurra þjóða, þ.m.t. Íslands. Hún er leiðandi vettvangur í rannsóknarstarfi og gervigreind í Evrópu. Þarna hefur finnska ríkið komið að borðinu og búið til umgjörð fyrir þessa ofurtölvu sem er fremst í flokki í heiminum hvað grænleika varðar. Hún er knúin áfram af endunýjanlegri orku. Svo er hitinn sem kemur af tölvuvinnslunni endurnýttur inn á hitaveitu Kajaani með verulegum orkusparnaði. Fyrir vikið er ofurtölvan einstaklega umhverfisvæn.“

Björn segir að meðfram starfsemi LUMI hafi verið mikil uppbygging í samfélaginu tengd gagnaverum og til dæmis bjóði háskólinn, Kajaani University of Applied Sciences (KAMK), upp á nám tengt gagnaverum.

Björn telur að hægt væri að skapa sams konar samfélag hér á landi. Ísland hafi alla burði til að vera í fremstu röð sem miðstöð fyrir alþjóðlega gagnaversþjónustu.

Björn segir að ráðamenn og aðrir þurfi að átta sig á að íslenski gagnaversgeirinn sé í alþjóðlegri samkeppni.

„Þetta er kvikur geiri sem hreyfist hratt. Um þessar mundir eru stór tækifæri að verða til í tengslum við gervigreindarbyltinguna. Við í geiranum viljum sjá Ísland sem lykilstað í uppbyggingu á gagnavinnslu í Evrópu því það er mjög gott að geta staðsett gagnaver nálægt endurnýjanlegum orkuuppsprettum eins og á Íslandi. Vöruna sjálfa er svo hægt að senda hinum megin á hnöttinn á örfáum millisekúndum,“ útskýrir Björn. „Einn af okkar viðskiptavinum er til dæmis að fá þjónustu frá Íslandi afhenta í Japan.“

Björn segir að netsamband við Ísland sé ekki lengur sá flöskuháls sem eitt sinn var eftir að tekinn var í notkun nýr sæstrengur til Írlands á síðasta ári.

„Það breytti gagnaversrekstri til hins betra og gerir geiranum kleift að sækja fjölbreyttari flóru af kúnnum. Strengurinn styrkti getu íslenskra gagnavera til að bjóða upp á fjölbreyttar tegundir gagnaversþjónustu. Hann hafði strax jákvæð áhrif. En betur má ef duga skal. Þetta eru innviðir sem þarf að viðhalda. Þeir úreldast á ákveðnum tíma og við sem þjóð þurfum reglulega að byggja sæstrengi til að viðhalda fjarskiptaöryggi til landsins.“

Brugðust við neyðarástandi

Spurður nánar um stöðu iðnaðarins á Íslandi í ljósi mikillar umræðu um yfirvofandi orkuskort í landinu segir Björn að staðan núna sé vissulega hamlandi almennt fyrir græna iðnaðaruppbyggingu.

„Við erum í þeirri vegferð að auka virði okkar starfsemi til að hafa meiri tekjur og þjónustu á hverja orkueiningu. Að því vinnum við markvisst og það gengur vel. En við viljum gjarnan sjá geirann vaxa og dafna inn í framtíðina. Gagnaver eru mjög áhugaverður orkunotandi fyrir kerfið og hefur mikið til að bera til að geta bætt orkunýtni. Við erum til dæmis með orkugeymslumöguleika í okkar starfsemi til að vera með afhendingaröryggi fyrir þá viðskiptavini sem eru viðkvæmastir fyrir afhendingu þjónustunnar. Við erum með rafhlöður og í sumum tilvikum varaafl. Þetta getur nýst kerfinu til að tryggja stöðugleika og getum við brugðist hratt við þegar á þarf að halda. Sem dæmi þá keyrðum við niður starfsemi okkar á Reykjanesi á dögunum til að bregðast við neyðarástandinu sem skapaðist þegar heitavatnsleiðsla fór í sundur í eldgosinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells.“

Björn segir að þó að staðan sé þröng á orkumarkaði akkúrat núna þá sé fyrirtækið á langtímavegferð.

„Við erum með innviðafjárfesta í okkar eigendahópi sem horfa til áratuga í sínum fjárfestingum. Okkur liggur ekkert mikið á en við þurfum stöðugleika og að geta séð fram í tímann. Við þurfum ákveðna tryggingu fyrir því að geta haldið áfram að nýta þá innviði sem við erum búin að byggja upp og ákveðið lágmarksmagn orku er forsenda fyrir framþróun geirans. Að öðrum kosti er áhættan við uppbyggingu hér á landi einfaldlega of mikil.“

Björn segir að ekki megi gleyma því að gagnaverin séu hluti af innviðum upplýsingtæknigeirans.

„Öflugur gagnaversgeiri er sterk grunnstoð undir þróttmikinn upplýsingatæknigeira. Þetta er stór virðiskeðja og allskonar þjónusta sem bætist við ofan á þá þjónustu sem gagnaverið veitir. Þá koma beinar tekjur að utan frá erlendum viðskiptavinum, sem hefur margfeldisáhrif á virðiskeðjuna. Öll upplýsingatæknifyrirtæki á Íslandi hafa sterka tengingu við geirann og við vinnum jafnframt með netfyrirtækjum eins og Farice. Þá vinnum við náið með fyrirtækjum í orkugeiranum. Við erum góður notandi fyrir kerfið eins og ég nefndi áðan og getum sýnt sveigjanleika. Uppbygging hér á landi hefur verið mikil undanfarin ár og árleg fjárfesting í geiranum nemur milljörðum króna. Sjálf erum við með áform um milljarða fjárfestingar á næstu misserum.“

Aðspurður segir Björn að velta íslenska gagnaversgeirans í heild hafi numið yfir 20 milljörðum króna á árinu 2022 og fari vaxandi.

„Við höfum fjárfest mest á Blönduósi sem hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á svæðið. Við erum orðin mikilvægur vinnuveitandi í bæjarfélaginu. Til dæmis hefur það haft þau áhrif að núna eftir margra ára tímabil þar sem engin íbúð var byggð var ráðist í íbúðabyggingar eftir að við komum á staðinn. Þannig að við höfum klárlega haft jákvæð áhrif hvað það varðar. Eftir því sem við náum að hámarka tekjur per orkueiningu, því meira af sérfræðistörfum skapast. Sem dæmi þá vorum við að setja upp nýjan viðskiptavin í gagnaverinu á Blönduósi nú í byrjun ársins. Að því eina verkefni komu um þrjátíu manns á meðan á uppsetningunni stóð.“

Gagnaverið á Blönduósi notar orku sem rann áður að hluta óbeisluð til sjávar og ekki var hægt að nýta að sögn Björns. Hann segir að fyrirtækið sé afar stolt af verkefninu í bænum og samstarfinu við heimamenn.

„Það eru tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar á Blönduósi og fjölgunar starfa ef vel tekst til að vinna úr helstu áskorunum en gagnaver bjóða fjölbreytt störf með háa framlegð í grænum tækniiðnaði.“

Google í Noregi

Sem dæmi um nýlega uppbyggingu á Norðurlöndum, sem sýnir vel þau áhrif sem starfsemi af þessari tegund getur haft á nærsamfélagið, segir Björn að bandaríski leitarvéla- og tæknirisinn Google hafi gefið það út að fyrirtækið hafi áform um að byggja og starfrækja eitt stærsta gagnaver heimsins í Skien í norska fylkinu Telemark en Skien, tæplega 60.000 íbúa sveitarfélag, liggur eitt hundrað kílómetra suðvestur af höfuðborginni Osló.

Verinu hefur verið valinn staður á Gromstul, rétt utan við meginþéttbýli sveitarfélagsins, þar sem Google keypti lóð í ágúst 2019, tvo ferkílómetra að flatarmáli, en áætlaður byggingarkostnaður versins er 6,8 milljarðar norskra króna, jafnvirði tæpra 88 milljarða íslenskra króna. Er ráðgert að verið verði starfhæft árið 2026.

Við bygginguna er gert ráð fyrir að 4.000 störf skapist auk eitt hundrað varanlegra starfa við verið eftir að starfsemi þess hefst.

Þess utan hafa öll helstu tæknifyrirtæki heims á borð við Microsoft og Meta komið sér fyrir í hinum norrænu löndunum. Þessi uppbygging hefur átt sér stað síðastliðinn áratug með stuðningi þarlendra stjórnvalda eins og Björn útskýrir.

Hann segir mikilvægt að horft sé á gagnaversgeirann sem hluta af áhættudreifingu í atvinnulífinu og uppbygginu græns iðnaðar. Með honum sé verið að fjölga eggjunum í körfunni þegar kemur að gjaldeyrissköpun. Líta verði á hvernig orkan sé nýtt og hvernig iðnaður er sóttur. „Þessi geiri er um margt ólíkur öðrum geirum atvinnulífsins. Til dæmis tókst okkur að sigla í gegnum COVID-19 faraldurinn án vandkvæða enda jókst netnotkun gríðarlega á því tímabili. Algjör sprenging varð í fjarfundum, netverslun og öðrum samskiptum og viðskiptum á netinu þegar heimurinn bjó við samkomutakmarkanir.“

Um það hvort tæknifyrirtækin stóru, Apple, Facebook og Google, hafi horft til reksturs gagnavera á Íslandi eins og í nágrannalöndunum segir hann að það hafi verið skoðað oftar en einu sinni.

„Fyrir nokkrum árum vorum við ekki tilbúin að taka á móti þeim. Geirinn var ekki orðinn nógu þroskaður. Enn eru nokkrir hlutir sem þarf að klára til að umhverfið verði jafn samkeppnishæft og annars staðar á Norðurlöndum.“

Þó eru mikil tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar hér á landi að sögn Björns og miklir möguleikar á fjölgun starfa ef vel tekst til við að vinna úr áskorunum. Í dag starfa yfir 100 manns fyrir íslensk gagnaver. Norrænar rannsóknir hafa að sögn Björns sýnt fram á allt að áttföld áhrif afleiddra starfa við gagnaver.

„Tilvist alþjóðlegrar gagnaversstarfsemi hér á landi styður við bætta nýtingu á stafrænum innviðum landsins og dregur úr kostnaði innlendra aðila við uppbyggingu gagnastrengja til landsins. Gagnaverin stuðla að bættri nýtni orkukerfisins og eru sveigjanlegir kaupendur raforku. Það væri mjög miður ef bakslag yrði í greininni og gæti það þýtt að gagnaverin misstu af tækifærum til lengri tíma.“

Frekari útrás

Hann segir aðspurður að frekari útrás gæti allt eins komið til greina hjá Borealis í framtíðinni.

„Við erum með ákveðin plön varðandi uppbyggingu á Íslandi og viljum ekki vera með of mörg verkefni í gangi á sama tíma. Finnska gagnaverið og uppbygging þess verður í aðahlutverki hjá okkur á þessu ári a.m.k.“

Björn segir að Ísland sé Borealis kært og margt mæli með því að reka gagnaver á Íslandi þó framboðshlið raforku sé eins og hún er í dag.

„Hér viljum við vera og starfa til lengri tíma. Borealis mun áfram vera íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar hér en flest starfsfólk býr á Íslandi.“

Um reksturinn á síðasta ári segir Björn að hann hafi gengið ljómandi vel. Stjórnendur hafi verið sáttir með niðurstöðuna.

„Árið endaði þó með áskorunum, sérstaklega varðandi skert aðgengi að orku og fylgja þær áskoranir okkur inn í nýtt ár. En við þurfum að vinna í þeim og ef umhverfið nær að komast á þann stað að vera samkeppnishæft við hin norrænu löndin hef ég engar áhyggjur. Það er mikill vöxtur fram undan á alþjóðlegum mörkuðum fyrir þjónustu gagnavera m.a. vegna þeirrar tæknibyltingar sem er að eiga sér stað á vettvangi gervigreindar,“ segir Björn Brynjúlfsson að endingu.

Veitu- og innviðafyrirtæki viðskiptavinir

Helstu viðskiptavinir Borealis eru innlend og erlend fjármálafyrirtæki, netfyrirtæki, veitu- og innviðafyrirtæki, aðilar sem standa að rekstri gervitungla, lyfjaiðnaðurinn, bílaframleiðendur og upplýsingatæknifyrirtæki. Borealis hefur á síðustu misserum farið í gegnum nokkrar alþjóðlegar vottanir og viðurkenningar á rekstri sínum til að uppfylla kröfur breiðari viðskiptavinahóps.

Stærsti eigandi félagsins er CORE INFRASTRUTURE III S.À.R.L. með 92,18%. Það er félag í eigu franska fjárfestingarsjóðsins Vauban Infrastructure Partners. Impulse ehf., sem er í eigu Björns Brynjúlfssonar og fjölskyldu hans, á 4,14%. D23, annað félag sem Björn leiðir, á 3,68% hlut í Borealis.

Hagnaður Borealis árið 2022 nam 9.227.485 bandaríkjadölum eða 1,3 milljörðum íslenskra króna. Tekjur félagsins á árinu voru 5,8 milljarðar króna eða 40.910.754 bandaríkjadalir.

Hýsir þjóðhagslega mikilvæg kerfi

Á Korputorgi starfrækir Borealis gagnaver sem er byggt samkvæmt ströngustu öryggiskröfum til að hýsa þjóðhagslega mikilvæg kerfi. Á meðal þeirra sem gera sérstaklega ríkar kröfur eru fjármálafyrirtæki, stjórnvöld, heilbrigðisstofnanir og allir þeir sem vinna með viðkvæm og dýrmæt gögn. „Margar athafnir sem við framkvæmum á degi hverjum eins og að greiða með greiðslukorti fara í gegnum þetta gagnaver. Innviðir gagnavera tryggja að jafnvel þó að rafmagnslaust verði í landskerfinu halda þessi mikilvægu kerfi áfram að vinna. Því má segja að hjarta upplýsingakerfa landsins slái í gagnaveri Borealis á Korputorgi,“ segir Björn Brynjúlfsson.