Kristbjörg Ingileif Sigurjónsdóttir (Bíbí frá Skógum) fæddist í Skógum í Vestmannaeyjum 11. desember 1931. Hún lést á Hraunbúðum 31. janúar 2024.

Foreldrar Kristbjargar voru Sigurjón Ingvarsson frá Klömbru, f. 20. desember 1895, d. 29. mars 1986, og Hólmfríður Guðjónsdóttir frá Stokkseyri, f. 2. nóvember 1906, d. 11. mars 1991. Systkini Kristbjargar voru þrjú: Ingvar, f. 1926, d. 2015, Jóhanna, f. 1928, d. 1990, og Ása, f. 1944, d. 2020.

Kristbjörg giftist Grétari Skaftasyni skipstjóra árið 1950. Grétar fæddist á Suður-Fossi í Mýrdal 26. október 1926 en hann fórst með vélbátnum Þráni 5. nóvember 1968. Móðir hans var Ragnhildur Skaftadóttir, f. 8. febrúar. 1904, d. 12. október 1939.

Börn Kristbjargar og Grétars eru: 1) Ingólfur, f. 7. september 1950, maki Ásta Finnbogadóttir, d. 2023, þau skildu. 2) Sigurjón Ragnar, f. 21. október 1954, kvæntur Þórgunni Hjaltadóttur, fyrri maki var Guðrún Kolbeinsdóttir. 3) Ófeigur, f. 11. október 1962, í sambúð með Guðrúnu Þorsteinsdóttur, fyrri maki var Ragnheiður Þorvaldsdóttir, d. 2021. 4) Gréta Hólmfríður, f. 4. febrúar 1969, gift Heiðari Hinrikssyni. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin 19.

Kristbjörg starfaði við fiskvinnslu í Hraðfrystihúsinu í Vestmannaeyjum en helgaði fyrst og fremst heimili og barnauppeldi starfskrafta sína þar til Grétar eiginmaður hennar fórst. Eftir það starfaði hún við ræstingar á sjúkrahúsinu, barnaskólanum og á bókasafninu í Vestmanneyjum. Samhliða starfaði Kristbjörg fyrir slysavarnadeildina Eykyndil og seinni árin var hún virk í Félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum.

Útför Kristbjargar var gerð í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

„Nei, ert þetta þú, sæl vina mín.“ Mikið á ég eftir að sakna þess að heyra ekki röddina þína elsku amma mín. Ég á margar góðar minningar af okkur. Þú varst skemmtileg og orðheppin og alltaf varst þú mér góð.

Það var gott að eiga ömmu sem átti heima hinum megin við skólalóðina. Í frímínútum sá ég þig horfa út um eldhúsgluggann og brosa til mín, ég hljóp til þín og fékk kakó og eplaköku eða nýbakaðar flatkökur frá Gauju vinkonu þinni. Ég minnist með hlýju tímans sem ég bjó hjá þér, ég kom til þín í pössun þegar ég var átta ára og endaði á að búa hjá þér í tvö ár. Þú kenndir mér að fara með bænir og þú sendir mig í sunnudagaskóla. Við dilluðum okkur við Skonrokk í sjónvarpinu, ég tók þættina upp á spólur og við horfðum aftur og aftur. Þú baðst mig oft að spila „ryksugu“-lagið, „I want to break free“ með Queen. Þitt uppáhaldslag. Á kvöldin spiluðum við rommí og veiðimann ásamt því að fá okkur kvöldkaffi, mjólkurglas og kökusneið eða appelsínu með molasykri.

Á unglingsárum mínum bjó ég hjá þér á sumrin meðan ég vann í fiski. Þegar vinkonur mínar komu að spyrja eftir mér þá komstu oft til dyra með vindil í munninum, þær voru ekki vanar að sjá gamlar vindlareykjandi konur. En mér fannst þú svo svöl með vindilinn þinn.

Þú elskaðir Þjóðhátíð og alls konar veislur. Þú varst snillingur í eldhúsinu og ég gæfi mikið fyrir eina soðköku eða sneið af kanilkökunni þinni.

Eftir að ég varð fullorðin fór ég stundum til Eyja að heimsækja þig. Við fórum stundum á rúntinn en oftast drukkum við kaffi og spjölluðum um allt og ekkert, já og veðrið, mikið var talað um veðrið. Þér þótti gaman að fá gesti og voru börn í uppáhaldi. Alltaf var til nóg af leikföngum og gaman þótti þér að syngja fyrir þau, þó það væri bara dærær ræ ræ …

Á síðustu árum talaðir þú stundum um að þú hefðir ekki hugsað nógu vel um mig, en ég ræddi það við þig og sannfærði um að það væri ekki satt. Ég veit að þú gerðir þitt besta.

Líf þitt var ekki alltaf auðvelt og ég hef alltaf tekið tillit til þess. Þú varst í blóma lífsins, 37 ára gömul, þegar afi dó 42 ára. Allt í einu varst þú orðin ein, ófrísk og með þrjá drengi til að ala upp. Eldgosið var heldur ekki auðvelt fyrir þig. Það er skiljanlegt að þú hafir ekki alltaf verið glöð, þú barst þessi áföll með þér restina af lífinu. Það var enginn stuðningur eða áfallahjálp. Þú tókst þetta bara á hnefanum, en þú gerðir það vel og áttir gott líf þrátt fyrir allt.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að eyða með þér síðustu dögum þínum á þessari jörð. Húmorinn enn til staðar og skemmtilegu orðin þín.

Þú skildir ekkert í því af hverju við vorum svona mörg hjá þér og spurðir okkur oft hvort þú ættir afmæli. Í raun og veru var þetta nokkurs konar afmæli, afmæli er dagurinn sem þú byrjar líf þitt, en þarna varstu að ljúka lífi þínu. Ég fékk að knúsa þig og kyssa og halda í höndina á þér síðustu dagana. Því mun ég aldrei gleyma.

Ég veit að þú ert loksins komin í faðm afa Grétars, skilaðu kveðju til hans.

Ég elska þig amma Bíbí mín.

Þín nafna,

Kristbjörg
Sigurjónsdóttir.

Þá er amma Bíbí farin og við sjáum hana fyrir okkur þar sem hún stendur á tröppunum á Vallargötu, að taka á móti okkur eða kveðja því amma Bíbí var góður gestgjafi sem fagnaði gestum og fylgdi þeim úr hlaði. Alltaf heitt á könnunni og heimabakað með. Við yljum okkur við góðar stundir með henni og rifjum upp orð og frasa sem okkur finnst ömmu-Bíbíarlegir eins og þegar hún talaði um að fara í ondúleringu á meðan aðrir fóru í snyrtingu.

Okkur hlýnar um hjartarætur þegar við hugsum til þess hvað hún var mikil barnagæla og hvað hún var góð við börn, t.d. hvað hún hafði gaman af því þegar Jóhanna, þá tveggja ára, sagði „amma baka könnukökur“.

Upp í hugann koma ferðalög og við minnumst þess hversu mikið hún naut þess að fara um og skoða mannlífið og helstu kennileiti. Hún elskaði sólina og var ein af þeim sem makaði á sig sólarolíu og varð kaffibrún.

Okkur er minnisstætt þegar við fórum til Tenerife í tilefni af áttræðisafmælinu hennar og áttum þar dásamlegar tvær vikur. Þá var hún farin að eldast og orðin svifaseinni og okkur yngra fólkinu fannst góð hugmynd að leigja hjólastól til að geta farið hraðar og víðar um en hún var hreint ekki til í það. Hún fékk sér staf sem hún hafði sér til halds og trausts en hún vildi ganga sjálf.

Á ferðum okkar erlendis hefur okkur oft orðið hugsað til ömmu því hún var svo mikil blómakona. Við segjum oft þegar við sjáum falleg blóm eða falleg tré að amma Bíbí hefði haft gaman af því að sjá þetta og þegar við skoðum myndirnar síðar hugsum við til ömmu Bíbíar.

Þegar hún missti manninn sinn áttu þau Grétar stórt nýbyggt hús og það tryggði henni og börnum hennar samastað og var henni því mikils virði. Henni þótti vænt um húsið sitt og það er aðdáunarvert hvernig henni tókst að halda því við, ýmist ein eða með aðstoð barnanna sinna. Þá hugsum við um skotið, sælureitinn sem hún átti við bakdyrnar, þar sem hún sat með kaffibolla og sólaði sig, horfði á blómin sín og þar blómstraði meira að segja rósarunni.

Við furðum okkur á hversu gríðarlega mikilli seiglu amma Bíbí bjó yfir. Hún lenti í stórum áföllum sem settu mark sitt á líf hennar. Sálfélagsleg aðstoð eða áfallahjálp var ekki í boði á þessum tíma. Hún átti vissulega góða að en hún þurfti samt sem áður sjálf að komast í gegnum stóra skafla sem vafalaust hefðu bugað marga. Hún vildi standa á meðan stætt var og sjá um sig sjálf og það gerði hún skuldlaust á meðan hún mögulega gat.

Amma Bíbí gerði ekki miklar kröfur til lífsins gæða en það er með miklum ólíkindum hvað henni tókst að gera og hvað það varð mikið úr peningunum hennar. Hún fór vel með alla hluti, allt var nýtt og engu hent en hún var aldrei með nísku eða nánasargang. Allir fengu góðar og fallegar gjafir frá henni og þegar hún var á ferðinni var hún alltaf á höttunum eftir góðum kaupum og var hún þá oftar en ekki að hugsa um aðra en sjálfa sig.

Að leiðarlokum óskum við henni góðrar ferðar og við þökkum fyrir líf hennar og allt það sem hún gaf okkur.

Þórgunnur Hjaltadóttir, Ragnhildur, Ellisif og Jóhanna Sigurjónsdætur.