Rússneski herinn er í afleitu ástandi og tæki mörg ár að byggja hann upp á ný

Rússneski herinn heldur áfram að sækja í sig veðrið í Úkraínu. Í liðinni viku náði hann bænum Avdívka á sitt vald og síðan hefur hann víða reynt að sækja fram.

Volodimír Selenskí sagði í gær að Rússar reyndu nú að nýta sér tafir á aðstoð til Úkraínu og staðan væri „sérlega erfið“.

Úkraínski herinn hefur sagt að hann líði fyrir skort á skotfærum og sprengjum og ekki hjálpi til að afgreiðsla 60 milljarða dollara framlags nái ekki í gegn á Bandaríkjaþingi.

Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur verið kokhraustur undanfarið og staðan í Úkraínu vekur ugg víða, sérstaklega í löndum sem eiga landamæri að Rússlandi.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af uppivöðslusemi Rússa og yfirgangi, en það má heldur ekki ofmeta styrk þeirra.

Breski sagnfræðingurinn Mark Galeotti telur ólíklegt að Pútín myndi ráðast beint á ríki í Atlantshafsbandalaginu. „Pútín veit nákvæmlega að hernaðarbandalagið er mun öflugra. Að auki eru 97% rússneska landhersins bundin beint eða óbeint í Úkraínu. Spurningin er sem sagt með hverju myndi Pútín ráðast á NATO,“ segir Galeotti í viðtali við þýska fjölmiðlinn Der Spiegel.

Galeotti segir að jafnvel þótt Rússar sigruðu í Úkraínu væri rússneski herinn í afleitu ástandi. „Nú er talað um að Rússar gætu innan tveggja til þriggja ára náð að byggja upp her sinn og vopna hann að nýju. Mér finnst það satt að segja mjög ósennilegt. Hvaðan ættu þeir hermenn að koma, sem myndu geta þjálfað nýja liðsmenn? Hvaðan ætti búnaðurinn að koma til að þeir gætu vopnast?“ spyr hann.

Galeotti bendir á að rússneski herinn sé nú þegar farinn að leita í birgðir frá sovéttímanum og þrátt fyrir auknar fjárveitingar hafi hergagnaiðnaðurinn ekki náð að geta framleitt nógu hratt til að uppfylla þörfina.

„Ég reikna með að það muni taka minnst átta ár fyrir Rússa að ná hernaðarstyrknum sem þeir höfðu fyrir innrásina,“ fullyrðir hann. „Rússar setja á þessu fjárlagaári 40% útgjalda sína í herinn og vígbúnað, en fjármálaráðuneytið ætlar að draga úr þessu framlagi aftur strax árið 2025. Rússar geta heldur ekki leyft sér slíkan vígbúnaðarvöxt til lengri tíma því að hið borgaralega hagkerfi líður og landið spilar frá sér framtíðinni.“

Þetta eru athyglisverðar vangaveltur frá manni sem hefur fylgst vel með gangi mála í Rússlandi og fjallar af dýpt um stöðuna í reglulegu hlaðvarpi sínu.

Pútín er mikið í mun að sýna að staða hans sé styrk þessa dagana. Um miðjan næsta mánuð verða kosningar í Rússlandi. Hann hefur þegar útilokað framboð eina frambjóðandans sem var yfirlýstur andstæðingur stríðsrekstrarins í Úkraínu. Eftir eru vottaðir andstæðingar sem ekki munu víkja frá handritinu.

Hann leggur mikið upp úr því að þagga niður alla gagnrýni heima fyrir og nota fjölmiðla til að draga upp þá mynd sem hann vill að blasi við í Rússlandi.

Fyrrverandi yfirmaður úkraínska heraflans sagði að í átökunum við Rússa hefði hann vanmetið hvað Rússar voru tilbúnir að sætta sig við mikið mannfall. Birtar hafa verið tölur um að 17 þúsund rússneskir hermenn hafi fallið í átökunum um Adívka og 30 þúsund særst.

Bandarísk hugveita sagði að eftir fall Avdívka hefðu „rússneskir aðilar“ hafið mikla netherferð á miðlum þar sem íbúar Úkraínu sækja sér einkum upplýsingar á netinu. Markmiðið sé að vekja skelfingu og veikja baráttuþrek Úkraínumanna.

Rússar eru líka að reyna að draga upp þá mynd að nú halli á Úkraínumenn til að grafa undan stuðningi bandamanna þeirra. Til hvers að halda áfram að ausa fé í stríð þar sem víglínan haggast varla svo mánuðum skiptir? Þótt Rússum hafi tekist að spyrna við fótum eftir hraksmánarlega útreið fyrst eftir innrásina í Úkraínu þýðir það ekki að rússneski herinn hafi breyst úr aulabárði í óaðfinnanlega hernaðarvél á einni nóttu eða að gefa megi eftir í samstöðunni með Úkraínumönnum.