Víða er pottur brotinn við fyrirkomulag alþjónustu. Vísbendingar eru um að Íslandspóstur fari ekki að lögum um verðlagningu póstþjónustunnar.
Víða er pottur brotinn við fyrirkomulag alþjónustu. Vísbendingar eru um að Íslandspóstur fari ekki að lögum um verðlagningu póstþjónustunnar. — Morgunblaðið/Hari
Íslandspóstur (ÍSP) hækkaði verð á magnpóstsendingum bréfa að 50 grömmum um 49% um áramótin án tilkynningar. ÍSP tilkynnti vissulega um fyrirhugaðar breytingar á verðskrá á heimasíðu sinni í lok nóvember en láðist að minnast á verðhækkun þessa

Íslandspóstur (ÍSP) hækkaði verð á magnpóstsendingum bréfa að 50 grömmum um 49% um áramótin án tilkynningar. ÍSP tilkynnti vissulega um fyrirhugaðar breytingar á verðskrá á heimasíðu sinni í lok nóvember en láðist að minnast á verðhækkun þessa. Þvert á móti sagði í tilkynningunni að engin verðhækkun ætti sér stað á 0-50 g bréfum innanlands. Þar kom hins vegar fram að sérstök verðskrá magnpósts yrði lögð niður og að óbreyttir magnaflsættir yrðu reiknaðir af almennri verðskrá.

En hvað þýðir það? Verð á bréfi í téðum þyngdarflokki var 195 krónur samkvæmt nýaflagðri magnverðskrá en er 290 krónur samkvæmt almennri verðskrá. Sömu afslættir og áður reiknast nú af hærra verði, og felur þessi einföldun verðskrár því í sér hækkun sem nemur 49% í magnsendingum bréfa að 50 grömmum.

Verð endurspegli raunkostnað með hagnaði

ÍSP sinnir alþjónustuhlutverki samkvæmt útnefningu hins opinbera, en í því felst í einföldu máli að félaginu beri að sinna tiltekinni lágmarksþjónustu til dæmis á svæðum þar sem markaðslegar forsendur fyrir póstþjónustu eru ekki til staðar, í dreifbýli og svonefndnum óvirkum markaðssvæðum í þéttbýli. Á móti fær ÍSP endurgjald frá ríkinu sem á að nema hreinum kostnaði alþjónustubyrðarinnar, að frádregnum metnum ávinningi sem af alþjónustunni hlýst.

Gerðar eru kröfur um verðlagningu alþjónustuveitanda með lögum. Í aðra röndina á verð að endurspegla raunkostnað og hæfilegan hagnað samkvæmt lagabókstafnum, en í hina á verð að vera viðráðanlegt – og hér stendur hnífurinn í kúnni.

Geta skammtað sér fé

Í ákvörðunum sínum hefur eftirlitsaðilinn, það er Byggðastofnun, forðast að taka afstöðu til þess hvað hugtakið viðráðanlegt verð þýðir og látið ÍSP það eftir. Hefur það leitt til þess að verðlagning á bréfum hefur ekki endurspeglað raunkostnað með sanngjörnum hagnaði undanfarin misseri í skjóli loðins hugtaks um viðráðanlegt verð, án athugasemda efitrlitsaðilans. Tapið er niðurgreitt af íslenska ríkinu þannig að ÍSP er hér í lófa lagið að skammta sér fé úr ríkissjóði og vísbendingar eru um að svo hafi verið gert.

Í eldri ákvörðun Byggðastofnunar frá 26. október sl. kemur fram að tap hafi verið á dreifingu bréfa á virku markaðssvæði utan höfuðborgarsvæðisins, en svæðið var með ákvörðuninni skilgreint sem óvirkt. Eftirlitsstofnunin gerði ekki athugasemd við undirverðlagningu ÍSP og tók ekki afstöðu til þess hvort hækkun myndi leiða til þess að verð yrði óviðráðanlegt. Stofnunin samþykkti hins vegar að fella svæðin undir alþjónustubyrðina. Innan við mánuði síðar er verð hækkað um 49% með annarri ákvörðun.

Ólíklegt er að slík hækkun hefði verið óviðráðanleg mánuði fyrr, sem bendir til þess að ÍSP hafi þegið endurgjald frá ríkinu fyrir tap sem hefði mátt mæta fyrr með verðhækkunum eins og lög gera ráð fyrir.