Elín Guðnadóttir fæddist 25. mars 1938. Hún lést 21. janúar 2024.

Útför fór fram 5. febrúar 2024.

Á kveðjustund langar okkur systkinin að minnast elskulegrar systur okkar Elínar Guðnadóttur sem kvaddi þessa jarðvist í faðmi fjölskyldunnar sunnudaginn 21. janúar. Ella eins og hún var alltaf kölluð var næstelst í systkinahópnum og önnur sem kveður hópinn en Ingunn systir okkar féll frá árið 2017 eftir baráttu við krabbamein. Við systkinin höfum alltaf verið afar samrýnd og eigum saman margar og góðar minningar. Minningar frá ferðalögum innanlands og utan, matarboðum sem haldin hafa verið við ýmis tækifæri, samveran í sumarbústaðnum og svo margt annað sem geymir fallegar minningar. Já við höfum alltaf verið samrýndur systkinahópur, gengið saman í gegnum lífið og stutt hvert annað í gleði og sorg.

Það var alltaf líf og fjör í kringum Ellu systur sem var alltaf svo létt og kát. Hún var höfðingi heim að sækja og þau eru ófá matarboðin á heimili hennar og Ella mágs okkar heitins en hann féll frá árið 2014 eftir erfið veikindi og var það eðlilega mikið áfall fyrir Ellu. Heimili þeirra hjóna stóð öllum opið og alltaf var nóg til með kaffinu. Ella var einstaklega góður kokkur og vann m.a. sem matráðskona í Hrauneyjafossvirkjun og Blönduvirkjun á yngri árum. Þá var hún einnig mjög listræn og einstaklega fær í handavinnu. Hún vann sem leiðbeinandi í föndri með eldri borgurum á Suðurnesjum í mörg ár og var afar vel liðin. Þetta starf vann hún í sjálfboðavinnu og þótti það ekkert tiltökumál enda alltaf tilbúin að hjálpa og leiðbeina öðrum.

Lionessuklúbburinn Freyja var henni afar kær og þótt heilsan hafi verið farin að gefa sig síðustu ár þá var hún dugleg að mæta á fundi og skilaði 100% mætingu fyrir árið 2023. Þá var Ella einnig meðlimur og einn af stofnendum Systrafélags Njarðvíkurkirkju.

Síðustu ár hafa verið Ellu erfið vegna veikinda og smám saman dró úr krafti hennar og styrk. Við systkinin hittumst daglega í morgunkaffi hjá henni áður en hún fór í Dagdvöl aldraðra þar sem hún hefur verið sl. hálft ár og það er svo dýrmætt, nú er við kveðjum okkar ástkæru systur með þakklæti fyrir allt sem hún var okkur og okkar fólki í gegnum tíðina, að hafa átt þessar samverustundir. Söknuðurinn er sár og það verður öðruvísi fyrir okkur að hafa Ellu ekki með okkur en við vitum að hún fylgist með ásamt þeim ástvinum okkar sem á undan eru farnir. Minningin um einstaka systur verður ætíð ljós í lífi okkar.

Kveðja,

Sveinn, Gestur, Pálína og Kristín.