Kræfir karlar í hefðbundnum nærklæðum baða sig upp úr köldu vatni í shinto-musteri í Tókýó, til að fagna byrjun nýs árs. Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað þyrfti helst að laga svo að japanska hagkerfið geti komist aftur á flug og kannski að örstutt kreppa geti virkað eins og spark í rassinn.
Kræfir karlar í hefðbundnum nærklæðum baða sig upp úr köldu vatni í shinto-musteri í Tókýó, til að fagna byrjun nýs árs. Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað þyrfti helst að laga svo að japanska hagkerfið geti komist aftur á flug og kannski að örstutt kreppa geti virkað eins og spark í rassinn. — AFP/Philip Fong
Mér þykir ekki laust við að megi greina töluverð vonbrigði hjá Japönum yfir því að hagkerfið þeirra sé nú orðið það fjórða stærsta í heiminum. Þær fréttir bárust á dögunum að þrátt fyrir að vera ekki beinlínis á fljúgandi siglingu hefði Þýskalandi…

Mér þykir ekki laust við að megi greina töluverð vonbrigði hjá Japönum yfir því að hagkerfið þeirra sé nú orðið það fjórða stærsta í heiminum. Þær fréttir bárust á dögunum að þrátt fyrir að vera ekki beinlínis á fljúgandi siglingu hefði Þýskalandi tekist að bola Japan úr þriðja sæti heimslistans og eflaust þykir mörgum Japananum það óþægileg áminning um hvernig hagkerfið þeirra hefur – þrátt fyrir alla sína styrkleika – varla hreyfst úr stað í rösklega þrjá áratugi.

Ekki nóg með það heldur sýna tölurnar að hagkerfi Japans dróst saman bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2023 og samkvæmt tæknilegri skilgreiningu er því efnahagskreppa skollin á. Samdrátturinn á síðasta fjórðungi var þó ekki nema 0,4% en flestir greinendur höfðu gert ráð fyrir örlitlum hagvexti.

Eins og lesendur muna var seinni hluti síðustu aldar mikið uppgangstímabil í Japan og vöxturinn slíkur að árið 1968 var hagkerfi landsins orðið það næststærsta í heiminum á eftir Bandaríkjunum. Var velgengnin svo mikil að þrátt fyrir risastóra efnahagsbólu sem sprakk með látum árið 1992, og leiddi til langvarandi efnahagslegrar stöðnunar, hélt Japan öðru sætinu allt fram til ársins 2010 þegar Kína ruddi sér til rúms.

Sumir greinendur hafa komist þannig að orði að það hafi ekki komið mikið að sök fyrr en nú að Japan skyldi standa í stað því þegar bólan sprakk var landið hvort eð er komið langt inn í 21. öldina. Var forskotið slíkt að það er eiginlega fyrst núna sem vandi Japans er tekinn að blasa við og forskot annarra landa orðið augljóst. Segir það heilmikið um stöðu Japans í dag að þrátt fyrir að þessi fjölmenna þjóð myndi eitt sterkasta hagkerfi heims, þá er þar landsframleiðsla á mann svipuð og á Spáni, og minni en á Ítalíu.

Fyrir skömmu átti ég spjall við mann sem lýsti ástandi sjúklingsins vel. Hann var þá nýkominn úr ferðalagi til Japans en hafði líka heimsótt landið þegar uppgangurinn þar var sem mestur, og fyrir honum var það að koma til Japans á 9. áratugnum eins og að stíga upp í tímavél og ferðast nokkra áratugi fram í tímann. Í dag er Japan enn mjög tæknivætt samfélag og allt svo agalega snyrtilegt og fullkomið – en það hefur ekkert nýtt bæst við það sem fékk aðkomumenn til að gapa fyrir meira en þrjátíu árum.

Markaðurinn leiðréttir sig þremur áratugum síðar

Samdráttinn í Japan má einkum skrifa á veikingu jensins en á síðastliðnum tveimur árum hefur virði gjaldmiðilsins gagnvart bandaríkjadal rýrnað um nærri fimmtung. Veikingu jensins má síðan skýra með þeirri ákvörðun stjórnenda Japansbanka að halda stýrivöxtum lágum í kjölfar kórónuveirufaraldursins, þvert á það sem hér um bil allir aðrir seðlabankar í heiminum hafa gert. Með þessu vildi peningastefnunefndin einkum áorka tvennu: annars vegar að styðja við bakið á útflutningsgreinunum og hins vegar hvetja til launahækkana á vinnumarkaði þar sem laun hafa ekki hækkað svo nokkru nemi síðan stóra bólan sprakk á sínum tíma.

Stýrivextir í Japan eru núna mínus 0,1% og var það síðast árið 2007 að japanski seðlabankinn freistaði þess að hækka vexti. Ekki nóg með það heldur hefur bankinn beitt ýmsum öðrum örvunaraðgerðum og t.d. keypt hlutabréf í skráðum félögum fyrir fúlgur fjár og hafði árið 2022 eignast um 7% af öllum hlutabréfamarkaði landsins. Var það ekki fyrr en á síðasta ári að seðlabankinn seldi meira af hlutabréfum en hann keypti.

Talandi um hlutabréfamarkaðinn, þá berast ekki eintómar slæmar fréttir frá Japan því Nikkei 225-vísitalan er hársbreidd frá því að slá fyrra met frá árinu 1989. Þegar þetta er skrifað mælist vísitalan tæplega 38.400 stig en hæst fór hún í rúmlega 38.957 stig þegar bóluhagkerfið var á suðupunkti. Styrking hlutabréfamarkaðarins átti sinn þátt í því að stjórnendur seðlabankans voru teknir að gefa það sterklega til kynna að stýrivaxtahækkun gæti verið á næsta leiti, en þróunin í Tókýó-kauphöllinni undanfarna mánuði er þó ekki betri en svo að hún hefur fylgt n.v. sömu línu og heimsvísitala MSCI. Japanskar útflutningsgreinar hafa vissulega styrkst í réttu hlutfalli við veikingu jensins, en þróunin á japanska hlutabréfamarkaðinum gefur stjórnvöldum varla mikið tilefni til að hreykja sér.

Japan eru allir vegir færir

En gamla metið verður örugglega slegið á næstu dögum eða vikum, og kannski að það verði Japönum tilefni til að hugsa aðeins sinn gang og bretta upp ermar. Það mun hafa greinilegt táknrænt gildi þegar Nikkei-vísitalan rýfur 40.000 stiga múrinn og ætti að þykja til marks um að hagkerfið hafi loksins náð fullum bata eftir þau skakkaföll sem Japan þurfti að þola eftir að stóra bólan sprakk. Alvarlegustu vandamál japansks atvinnulífs eru á allra vitorði og stundum virðist eins og þurfi bara herslumuninn til að koma hagkerfinu aftur á fulla ferð. Nú þarf bara að spýta í lófana.

Sjálfur held ég svo mikið upp á Japan að ég sé það í hillingum að setjast þar að einn daginn – svo fremi að ég þurfi hvorki að vinna japanska vinnuviku né framfleyta mér á japönskum launum. Japanskt samfélag er svo einstakt, fólkið svo almennilegt, og greinilegt að á japönskum vinnustöðum er enginn hörgull á snjöllu fólki með mikinn drifkraft.

Gallinn er að margt af því besta við Japan getur virkað eins og fjötrar á atvinnulífið: Hefðir og agi eru eitt en mega ekki leiða til tregðu og vanafestu: skipuritin eru lóðrétt og stíf sem stuðlaberg og er það þekkt birtingarmynd stöðnunar í vinnubrögðum Japana að notkun faxtækja er enn útbreidd hjá japönskum fyrirtækjum. Samheldni og tryggð við vinnustaðinn eru dyggðir, en mega ekki breytast í leiksýningu fyrir forstjórann þar sem löng viðvera á skrifstofunni trompar skilvirkni, og skylduræknin aftrar fólki frá því að taka sér endrum og sinnum gott frí til að hlaða rafhlöðurnar.

Til að komast á flug þarf Japan líka að opna sig fyrir umheiminum og hafa þegar verið tekin stór skref í átt að því að laða til landsins sérfræðinga og frumkvöðla úr öllum áttum. Menningarlega íhaldssemin – sem stundum virðist jaðra við þjóðernishyggju – virðist vera að mildast til muna og kynslóðin sem nú er að vaxa úr grasi er opin og víðsýn, og veit að vel menntað erlent vinnuafl yrði hvalreki fyrir heimamenn.

Loks þarf Japan að fjárfesta meira í sjálfu sér, en undanfarna áratugi hefur það einkennt stefnu japanskra iðnfyrirtækja að vilja flytja æ meira af framleiðslu sinni til láglaunasvæða í Asíu frekar en að byggja skilvirkari hátækniverksmiðjur heima fyrir. Nú er lag að styrkja innlendan iðnað, sérstaklega í ljósi vaxandi spennu í samskiptum Kína við umheiminn, sem hefur orðið þess valdandi að mörg vestræn fyrirtæki reyna eftir megni að beina viðskiptum sínum til áreiðanlegra vinaþjóða. Þar skemmir heldur ekki fyrir það löngu verðskuldaða orðspor sem fer af Japan að framleiða allt sem hugsast getur í meiri gæðum en nokkurt annað land.