Fjölskyldan Hér eru Gylfi og Þóra með börnum sínum Konráð, Guðrúnu Ingibjörgu og Þóru í áttræðisafmæli Gylfa.
Fjölskyldan Hér eru Gylfi og Þóra með börnum sínum Konráð, Guðrúnu Ingibjörgu og Þóru í áttræðisafmæli Gylfa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Guðrún Grönfeldt fæddist í Borgarnesi 21. febrúar 1944. „Ég ólst þar upp hjá afa mínum og ömmu í gamla Sparisjóðshúsinu, en afi minn var sparisjóðsstjóri og amma var húsmóðir og saumakona.“ Þóra segir það hafa verið einstaklega gott …

Þóra Guðrún Grönfeldt fæddist í Borgarnesi 21. febrúar 1944. „Ég ólst þar upp hjá afa mínum og ömmu í gamla Sparisjóðshúsinu, en afi minn var sparisjóðsstjóri og amma var húsmóðir og saumakona.“

Þóra segir það hafa verið einstaklega gott að alast upp í Borgarnesi í fallegu umhverfi og þar var hún virk í skátastarfi meðfram skólanum. Þegar hún var 16 ára flutti hún til Reykjavíkur og fór í Kvennaskólann. Eftir Kvennaskólann fór hún beint í hjúkrunarskólann. „Síðan lauk ég hjúkrunarfræði við HSÍ árið 1965 og framhaldsnámi í skurðhjúkrun eftir það og starfaði lengst af við það.“

Þóra kynntist Gylfa eiginmanni sínum meðan hún var í námi og þau giftu sig stuttu áður en hún fór í sérnámið, árið 1965. Eftir námið ákváðu ungu hjónin, sem voru komin með eina dóttur, að prófa að búa erlendis og fóru til Danmerkur, sem Þóra segir hafa verið mjög góða reynslu. Þau fóru til Vejle á Jótlandi og þar fékk Þóra starf á nokkuð stóru sjúkrahúsi, Vejle Amt og Bys sygehus, og Gylfi fór að vinna við sína iðn, blikksmíði. „Danirnir tóku vel á móti okkur og helst sú vinátta enn í dag, þótt við byggjum þarna bara í tvö ár.“

Þegar þau komu heim til Íslands fór Þóra að vinna á Borgarspítalanum, en hún vann við skurðhjúkrun í rúm 40 ár, bæði á Landspítalanum og Borgarspítalanum, en auk þess vann hún á heilsugæslu í tæp fjögur ár. Þegar hún er spurð hvort ekki hafi verið erfitt að sameina fjölskyldulífið og vinnuna segir hún það ekki hafa verið. „Ég var í dagvinnu og tók svo vaktir, en ég var ung og þetta gekk bara mjög vel og ég var alla tíð mjög ánægð í mínu starfi.“

Helstu áhugamál Þóru eru myndlist og samvera með fjölskyldunni, en hún hefur einnig verið félagi í Oddfellow-reglunni í mörg ár. „Ég byrjaði að mála fyrir 25 árum þegar ég fór í Myndlistarskóla Kópavogs og það má eiginlega segja að ég hafi ekki stoppað síðan þá,“ segir Þóra sem er með myndlistarstúdíó á heimili sínu á Selfossi og hefur sýnt verk sín víða. „Ég er í Myndlistarfélagi Árnessýslu og við hittumst reglulega og málum saman.“ Hún segist aðallega mála með vatnslitum, en eitthvað í olíu og það er náttúran sem heillar hana mest. „Síðan hef ég mikinn áhuga á garðyrkju og er með mjög fallegan garð hérna og ég er allar stundir úti í garði á sumrin.“ Þegar flestir á hennar aldri eru að reyna að losna við stóra garða segir Þóra að hún geti ekki beðið eftir vorinu svo hún geti farið að vinna í garðinum. „Mér finnst garðyrkjan og að mála svolítið tengt, því maður er að vinna með liti, form og skipulag,“ segir hún og bætir við að Gylfi sjái nú mest um erfiðu verkin í garðinum. „Við höfum alltaf haft gaman af garðyrkju og meðan við vorum með bústað í Biskupstungum vorum við mikið að rækta, en það er þægilegra að geta verið með garðinn heima.“

Þóra er ung í anda og heldur sér vel, en hún segir að það sé öflugt starf eldri borgara á Selfossi og þau hjónin fara í líkamsrækt tvisvar í viku og svo er garðvinnan á sumrin góð þjálfun. „Ég held að lykillinn að góðri heilsu sé að vera virkur.“

Fjölskylda

Eiginmaður Þóru er Gylfi Konráðsson blikksmíðameistari, f. 16.6. 1943. Þau bjuggu í Árbænum í rúm 40 ár, en hafa búið á Selfossi undanfarin sex ár. Foreldrar Gylfa voru hjónin Konráð Ingimundarson lögregluþjónn, f. 3.7. 1913, d. 1994, og Þuríður Snorradóttir húsmóðir, f. 3.5. 1913, d. 20.9. 2003. Þau bjuggu alla tíð í Reykjavík.

Börn Þóru og Gylfa eru 1) Guðrún Ingibjörg lyfjafræðingur, f. 16.11. 1966, gift Jóni Grétari Magnússyni viðskiptafræðingi. Þau búa í Kópavogi. 2) Konráð framkvæmdastjóri, f. 6.7. 1971, kvæntur Örnu Hrönn Aradóttur verkefnastjóra. Þau búa í Reykjavík. 3) Þóra grunnskólakennari, f. 6.9. 1977, gift Leifi Stefánssyni byggingafræðingi. Þau búa á Selfossi. Barnabörn Þóru og Gylfa eru 11 og barnabarnabörn eru þrjú.

Sammæðra systkini Þóru eru Magnús Hreggviðsson, viðskiptafræðingur í Reykjavík, f. 29.5. 1949, Hreggviður Hreggviðsson, fv. útfararstjóri í Borgarnesi, f. 14.2. 1951, Halla Hreggviðsdóttir, viðskiptafræðingur í Reykjavík, f. 21.5. 1953, og Guðmundur Jónsson, blikksmiður í Reykjavík, f. 22.9. 1956. Samfeðra systkini eru Íris Inga Grönfeldt, íþróttafræðingur og kennari í Borgarfirði, f 8.2. 1963, og Svafa Grönfeldt prófessor, f. 29.3. 1965, býr í Reykjavík og Bandaríkjunum.

Faðir Þóru er Þórleifur Grönfeldt verslunarmaður, f. 19.12. 1922, d. 5.5. 1986, var giftur Erlu Daníelsdóttur verslunarmanni, f. 2.10. 1928, d. 20.8. 1921. Þau bjuggu alla tíð í Borgarnesi. Móðir Þóru eru Sesselja Jóna Magnúsdóttir húsmóðir, f. 27.6. 1921, d. 8.3. 1993, var gift Jóni Guðmundssyni, f. 7.10. 1909, d. 7.3. 1989. Þau bjuggu í Reykjavík.