Hjalti Einarsson fæddist 11. apríl 1938 á Siglufirði. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 3. febrúar 2024.

Foreldrar Hjalta voru hjónin Einar Ásgrímsson, f. 29.5. 1904, d. 3.3. 1980, bóndi á Reyðará á Siglunesi og sjómaður, og Unnur Stefánsdóttir, f. 17.8. 1912, d. 16.10. 2004, húsfreyja á Reyðará og veðurathugunarkona fyrir Veðurstofu Íslands.

Hjalti var elstur fjögurra systkina, hin eru: Guðrún Ásdís, f. 6.6. 1943, fv. skrifstofumaður; Stefán, f. 14.1. 1948, d. 7.9. 2018, verktaki og sjómaður, og Ásgrímur, f. 18.2. 1953, d. 9.3. 2008, vélvirki og sjómaður.

Eftirlifandi eiginkona Hjalta er Kristjana G. Jóhannesdóttir, f. 20.7. 1941. Foreldrar Kristjönu voru hjónin Jóhannes Jóhannsson, f. 29.8. 1905, d. 29.1. 1989, bóndi og smiður á Bæ á Bæjarnesi í Reykhólahreppi, og Guðrún Steinunn Kristjánsdóttir, f. 1.11. 1912, d. 30.5. 2000, ljósmóðir og bóndi á Bæ á Bæjarnesi.

Hjalti og Kristjana gengu í hjónaband 14.12. 1963 og voru því nýlega búin að fagna 60 ára brúðkaupsafmæli. Börn Hjalta og Kristjönu eru: 1) Unnar Steinn, f. 15.5. 1964, framkvæmdastjóri, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Unnur Míla Þorgeirsdóttir hagfræðingur. Börn Unnars með Hrönn Hafþórsdóttur eru Hjalti Kristinn, f. 1989, Unnur María, f. 1999, Eva Hrund, f. 2001, og Friðrik Ómar Erlendsson, f. 1985, stjúpsonur. Börn Unnars með Helgu Guðmundsdóttur eru Rebekka Sif, f. 2008, Sindri Steinn, f. 2010, og Fanný Huld Friðriksdóttir, f. 1998, stjúpdóttir. Börn Unnars með Unni Mílu Þorgeirsdóttur eru Alexander Ólafsson, f. 2000, stjúpsonur, og Tanja Ósk Ólafsdóttir, f. 2003, stjúpdóttir. 2) Hanna Rúna, f. 21. 6. 1967, launafulltrúi, búsett í Hafnarfirði. Maki: Sigurður Helgi Þráinsson bílstjóri. Börn þeirra eru Kris Halla Helga, f. 1994, og Guðrún Halldóra Helgadóttir, f. 2000. 3) Einar Þór, f. 17.6. 1977, verkefnastjóri, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Bettý Ragnarsdóttir sálfræðingur. Börn þeirra eru Ragnar Dagur, f. 2001, Kristjana Nótt, f. 2005, og Karítas Steinunn, f. 2007. Langafabörnin eru fjögur og eitt á leiðinni.

Siglunes og Reyðará voru æskuslóðir Hjalta, þar lék hann sér og sniglaðist um fjöruna. Hann gekk í barnaskólann á Siglufirði 1948-1953, var í Reykholti í Borgarfirði 1953-1956 og tók þar landspróf og gagnfræðapróf. Hann fór svo í Iðnskólann á Siglufirði 1957 og hóf nám í vélvirkjun, en vann ávallt með skólanum við sjómennsku og fleiri störf. Hann kláraði iðnskólann 1958 og fór svo í vélstjórnarnám á Akureyri 1959 í Vélskólanum og útskrifaðist með hæstu einkunn það vor. Hann tók síðan sveinspróf í vélvirkjun 1969 og síðar meistararéttindi. Frá blautu barnsbeini var sjórinn stundaður grimmt. Frá 1958-1963 vann hann síðan ýmis störf, svo sem á næturvöktum í kaupfélaginu, við byggingu Strákaganga og á sjó víðsvegar um landið, bæði sem sjómaður og vélstjóri. Vann á Hendriksen-planinu við síldarsöltun, bjó til sög til að saga rekavið og seldi töluvert af staurum og rimlum í fjárhúsgrindur. Hjalti flutti suður 1963 og réð sig til vinnu hjá Vélsmiðju Hafnarfjarðar þar sem hann vann smiðjutímann til þess að geta sótt um sveinspróf. Svo hóf hann störf á Boga díselverkstæði 1969 og var þar til 1971. Árið 1971 stofnaði Hjalti ásamt konu sinni Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar (VHE) sem vinnur mest fyrir álverin hér á landi og orkuveitur. Hjalti gerðist prófdómari í málmiðnaðargreinum í Iðnskólanum Hafnarfirði og var það til fjölda ára. Hann var valinn iðnaðarmaður ársins 2016 fyrir ævilangt starf sitt til uppbyggingar vélvirkjanáms. Áhugamálin voru alla tíð í kringum nýsmíði og viðgerðir á öllu sem viðkemur málmiðnaði. Hjalti og Kristjana eyddi líka miklum tíma á æskuslóðum sínum á Siglunesi og Bæ á Bæjarnesi. Þar höfðu hjónin komið sér upp sælureitum og sinnt þeim í gegnum árin.

Útför Hjalta fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku Hjalti. Mig langar að kveðja þig. Ég þakka þér fyrir öll rúmlega 60 árin sem við áttum saman.

Það var alltaf nóg að gera hjá okkur. Þú varst frá Reyðará á Siglunesi við Siglufjörð og ég frá Bæ á Bæjarnesi í Reykhólasveit. Fyrstu árin okkar saman vorum við á sumrin á Siglunesi en á veturna í Hafnarfirði. Á sumrin varstu á sjó og þið feðgarnir söltuðuð aflann og selduð saltfisk og þú varst líka á grásleppu og þegar ekki var sjóveður þá varstu að saga rekavið og seldir girðingarstaura og efni í fjárhúsgrindur. Á veturna vannst þú í Vélsmiðju Hafnarfjarðar og svo á Díselverkstæðinu Boga í Reykjavík.

Svo stofnuðum við Vélsmiðjuna VHE og eftir það vorum við alveg hér í Hafnarfirði nema þá í stuttum sumarfríum, þá vorum við búin að eignast þrjú yndisleg börn og eru þau og fjölskyldur þeirra og börn öll búsett í Hafnarfirði.

Við höfðum alltaf áhuga á æskustöðvum okkar og gerðum upp hús á Siglunesi, það heitir Brimnes, svo gerðum við upp íbúðarhúsið í Bæ á Bæjarnesi. Er mér í minni þegar mér fannst húsið í Bæ vera orðið illa farið og spurði þig hvort þú vildir hjálpa mér að gera við það og þú sagðir strax já. Er það nú í góðu lagi og vorum við þar mikið á sumrin eftir að þú dróst þig út úr VHE.

Elsku Hjalti minn, þakka þér fyrir öll árin okkar saman.

Þin eiginkona,

Kristjana.

Elsku pabbi.

Mikið hefur gengið á síðustu vikur. Þú greindist með þín veikindi í byrjun desember, sem því miður staðfesti það sem okkur var farið að gruna. Eftir stutt veikindi var þinn tími kominn. Þú varst ekki tilbúinn eins og þú lýstir oft yfir í okkar samræðum síðustu vikur. Þetta tók á þig, þú hafðir verið heilsuhraustur alla þína ævi. Ég hugsa oft til samtalsins sem við áttum rétt fyrir jólin þegar þú varst inni á Landakoti. Ég kom þá í heimsókn eftir að þú varst fluttur þangað og þar mætti mér reiður maður. Þú reifst upp með offorsi spurningalista sem þú hafðir fengið þegar þú varst fluttur þangað. Bentir mér á hausinn á blaðinu. Þar stóð Öldrunarþjónusta og endurhæfing. Varst engan veginn sáttur við það að nú værum við að koma þér á hjúkrunarheimili. Eftir gott spjall varstu nú orðinn aðeins rólegri og búinn að sættast á að þetta væri nú sennilega endurhæfingarhlutinn sem þú værir að nýta þér á Landakoti.

Þú hefur síðustu ár notið þín gríðarlega vel bæði fyrir norðan á Siglunesi og fyrir vestan á Bæ á Bæjarnesi. Þar höfðuð þið mamma skapað ykkur sælureiti þar sem þið gerðuð upp gömlu sveitabæina. Mörg handtök hafa verið unnin þar. Enda var nú oft gaman að fylgjast með hlutunum sem þú tókst upp á þar, misgáfulegum klárlega eins og eitt árið þegar þú varst uppfullur af hugmyndinni af því að fara af stað aftur í heyskap bara til að selja til Mið-Austurlanda, því þú hafðir lesið það einhvers staðar að þau vantaði hey.

Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér með alls konar hluti, varst alltaf að velta fyrir þér betri útfærslum á hinum og þessum vandamálum sem þú hafðir nú reyndar oft skapað sjálfur en leystir þau alltaf með glæsibrag.

Núna veit ég að þú ert ekki mættur í Sumarlandið, heldur ertu kominn í Dísellandið þar sem allir dagar snúast um það sem þú hafðir mesta ánægju af. Þú ert að gera upp Lister-rafstöðvar og standsetja traktora. Allan daginn að brasa í vélaviðgerðum og finna leiðir til að koma þessu í gang svo þetta nú virki nú allt saman eins og það á að gera.

Þú þarft engar áhyggjur að hafa pabbi minn, við munum hugsa vel um mömmu eins og þú hefur gert öll þessi ár.

Langar að þakka sérstaklega öllu því frábæra starfsfólki Landspítalans og heimahjúkrunar sem kom að umönnun þinni í veikindum þínum.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt

sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt

hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Einar Þór Hjaltason.

Þá ertu farinn elsku pabbi minn eftir stutt og erfið veikindi. Nokkuð sem við bjuggumst alls ekki við, en svona er lífið óútreiknanlegt. Þú áttir gott líf.

Margar minningar koma upp í hugann. Þú varst stór persónuleiki og það var alltaf eitthvað um að vera í kringum þig.

Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur Helga. Til dæmis þegar það var brotist inn hjá okkur rétt áður en við fluttum inn á Burknavellina og verkfærunum hans Helga stolið o.fl. Þú hafðir samband við tryggingarnar án þess að við bæðum um það, og tókst það vel hjá þér. Þú safnaðir að þér upplýsingum um hvað þessi verkfæri kostuðu úti í búð og fengum við góðar og sanngjarnar bætur hjá tryggingafélaginu. Eins þegar Gunna Dóra mín var að tala um að bíllinn hennar væri eitthvað bilaður, þá kíktir þú á hann og sást strax að rafgeymirinn var ónýtur. Þú fórst og keyptir nýjan fyrir hana og settir hann í bílinn. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur.

Þú varst alltaf eitthvað að skapa, til dæmis kertastjakana sem þú smíðaðir sem við settum í sölu. Þegar þú sýndir mér þá hafði ég ekki hugmynd um hvað þú værir að bardúsa í bílskúrnum. Þú varst svo stoltur af þeim, sem þú máttir svo sannarlega vera. Þeir voru æðislega flottir.

Það var yndislegt að fara með ykkur mömmu vestur. Þið ljómuðuð og nutuð ykkar í botn. Þið gátuð ekki beðið eftir að komast vestur og oft var gestkvæmt hjá ykkur, sem ykkur fannst svo gaman. Alltaf átti mamma nógan mat og með kaffinu fyrir gesti og margir töluðu um hvað væri gott að koma til ykkar. Hvílík gestrisni og veitingar.

Þú varst alltaf að spyrja um börnin mín og dýrin og hvernig gengi hjá þeim, vildir alltaf fylgjast með þeim.

Það var alltaf gaman að fá þig í vinnuna til mín í VHE sem þú stofnaðir og var eins og eitt barnið þitt sem þú varst mjög stoltur af. Þú spurðir oft hvernig gengi og hvað stelpurnar og strákarnir á skrifstofunni segðu gott. Eins var alltaf rúntur hjá þér, helst í hverri viku, að kíkja til Simma á smurstöðina og hitta Jón og starfsmennina og fá þér kaffi hjá Benna kokki. Þú varst stoltur af þínu starfsfólki og þér fannst gaman að spjalla við fólkið okkar og fá fréttir af því.

Undir það allra síðasta fékk ég góða stund með þér. Þú sagðir við mig þegar ég kom til þín „ertu komin Hanna mín“ og réttir mér hnefann eins og unglingarnir gera.

Mikið munum við sakna þín. Þið mamma voruð svo mikil heild og alltaf talað um ykkur saman. Enda áttuð þið góð ár saman og voruð gift í 60 ár. Það er ekki lítið og þið eigið fjölda afkomenda.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Þín dóttir,

Hanna Rúna Hjaltadóttir.

Minn góði frændi, Hjalti Einarsson frá Reyðará á Siglunesi, er fallinn frá. Hjalti var einstakur maður og hafsjór af þekkingu, hvort sem talið barst að sjómennsku, vélsmíði eða um Siglunesið okkar þar sem hann ólst upp sín fyrstu ár.

Ég var svo heppin að kynnast Hjalta og Kristjönu konu hans og saman áttum við margar ljúfar stundir. Þau voru ótrúlega samhent og dugleg hjón sem ásamt því að hafa stofnað og rekið Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar endurbyggðu Bæ í Kvígindisfirði og æskuheimili Hjalta á Siglunesi.

Nú kveðjum við mikinn heiðursmann með djúpum söknuði. Það skarð sem hann skilur eftir verður ekki fyllt. Elsku Hjalti, við þökkum þér samfylgdina í gegnum lífið. Þín verður sárt saknað.

Elsku Kristjana, Unnar, Hanna, Einar og fjölskyldur, sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Anna Marie Jónsdóttir, Steingrímur Jóhann Garðarsson og fjölskyldur.

Hægt og hljótt kvaddi Hjalti frændi þennan heim hinn 3. febrúar sl. eftir nokkurra vikna veikindi. Ég heimsótti Hjalta og Kristjönu konu hans 19. og 20. janúar sl. og þá fór það ekki framhjá mér að Hjalti frændi var alvarlega veikur, en hann var nokkuð málhress og við ræddum um Siglunesið að venju en þangað lágu rætur okkar beggja. Fjölskylda Hjalta bjó á Reyðará sem var austan á nesinu en mín fjölskylda bjó vestan á nesinu. Það var auðvitað mikill samgangur milli bæjanna þar sem bátalendingin var inni á nesinu í svokölluðum krók. Þrátt fyrir 15 ára aldursmun á okkur Hjalta finnst mér ég alltaf muna eftir honum frá tveggja ára aldri, þegar hann bjargaði mér frá drukknun í flæðarmálinu á Siglunesi en hann var að gera við bátavél í trillu þá rúmlega sautján ára, „snemma beygðist krókurinn“ átti svo sannarlega þarna við. Það var mikið gæfuspor þegar Hjalti útvegaði íbúum á Siglunesi og Sauðanesi svokallaðan farkennara, unga stúlku að vestan, ljúfa og greinda, sem varð svo hans lífsförunautur. Við systkinin nutum góðs af þessum hjónum og ævinlega í okkar daglega tali var alltaf minnst á þau í sama orðinu, „Hjalti og Kristjana“. Hjalti og Kristjana bjuggu nokkur sumur á Brimnesi á Siglunesi en annars voru þau með vetursetu í Hafnarfirði. Við fjölskyldan hlökkuðum alltaf til komu þeirra á vorin og það má segja að þau hafi verið hluti af farfuglunum kæru, sem komu með fuglasöng og góða nærveru.

Faðir minn minntist oft á snyrtimennsku Hjalta og góða umgengni í kringum vélar og verkfæri. Hjalti byrjaði ungur að skoða hin frumstæðu heyvinnslutæki á fyrstu búskaparárum foreldra sinna á Reyðará og snemma farinn að huga að viðgerðum á þeim og snillingur að tinda hrífur og hirða um önnur amboð. Seinna þegar traktorar og fullkomin tæki til heyvinnslu komu til sögunnar var alltaf leitað til Hjalta og var Einar faðir hans ekki svikinn af þeirri hjálp.

Hjalti frændi fór ákaflega vel með alla hluti og allt sem viðkom vélum lék í höndunum á honum og hann var afar vandvirkur. Það sem aðrir töldu bráðónýtar og jafnvel útbræddar vélar voru ekki dæmdar úr leik fyrr en athugul augu Hjalta og greining á bilun höfðu farið fram og að sjálfsögðu gerði vélameistarinn við tækið og það eins og nýtt á eftir. Þegar ég dvaldi á heimili þeirra Hjalta og Kristjönu á Suðurgötunni í Hafnarfirði voru iðulega að koma ráðþrota menn sem vantaði varahluti eða láta renna öxla í vélar o.fl. En Hjalti byrjaði alltaf fyrst að bjóða viðkomandi í kaffi, íslenska gestrisnin viðhélst ávallt hjá þeim Hjalta og Kristjönu. Síðan voru málin rædd og rölt út á verkstæðið og þaðan fóru menn svo með bros á vör og vandamálin úr sögunni.

Ekkert vegasamband var frá þéttbýli að Siglunesi og nú á seinni árum fækkaði ferðum Hjalta og Kristjönu þangað. Hjalti hafði alla tíð áhuga á vegasambandi við Siglunes en sú barátta við landeigendur og ráðamenn gekk ekki upp. En á æskuheimili konu hans, Bæ á Bæjarnesi fyrir vestan, er akvegur og þar hafa hjónin iðulega dvalið í seinni tíð, með börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum. Það væri endalaust hægt að rifja upp ótal fleiri samverustundir með Hjalta og Kristjönu en ég vil þakka Hjalta innilega samfylgdina og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Slæ botninn í þessi minningarorð með ferskeytlu eftir Þorleif Þorleifsson frá Siglunesi:

Austan kaldinn á oss blés.

Upp skal faldinn draga.

Veltir aldan vargi hlés.

Við skulum halda á Siglunes.

Helga Erla.

Nú þegar Hjalti mágur minn hefur kvatt langar mig að minnast hans með fáeinum orðum. Það var eftir áramótin 1963 sem Munda systir mín tók að sér að kenna norður á Siglunesi það sem eftir lifði vetrar. Þá kynntist hún Hjalta en hann ólst upp á Reyðará á Siglunesi með foreldrum sínum og þremur systkinum. Um vorið komu þau svo nýtrúlofuð suður í Hafnarfjörð þar sem við bræður og foreldrar okkar bjuggum, á Öldugötu 31. Við fyrstu kynni fannst mér Hjalti vera traustur og dugmikill sveitapiltur með ákveðin áform um hvaða starfsvettvang hann ætlaði að leggja fyrir sig. Hann fór svo að vinna í Vélsmiðju Hafnarfjarðar.

Árið 1971 stofnuðu þau Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar (VHE) sem var fyrst til húsa í bílskúrnum við heimili þeirra á Suðurgötu 73. Um áratug síðar keyptu þau svo stórt íbúðarhús á Melabraut 23 og var fyrirtækið rekið á neðri hæðinni. Síðan var byggt við verkstæðishúsin oftar en einu sinni. Fyrirtækið var því orðið býsna stórt með fjölmarga í vinnu. Hjalti dró sig út úr rekstrinum fyrir allmörgum árum og við honum tóku börnin þeirra þau Unnar Steinn, Hanna Rúna og Einar Þór. Það er óhætt að segja að VHE sé vel rekið fjölskyldufyrirtæki.

Þegar Munda og Hjalti bjuggu á Suðurgötunni og einnig á Melabrautinni höfðu foreldrar okkar litla íbúð þar út af fyrir sig. Segja má að þau hafi búið í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar. Fyrir þetta vorum við bræður og fjölskyldur okkar mjög þakklát.

Það var fyrir allmörgum árum sem Munda systir mín hafði á orði að gaman væri að gera upp húsið á Bæ á Bæjarnesi sem var æskuheimili okkar. Þau hjónin gerðu húsið upp á afar myndarlegan hátt eins og þeirra var von og vísa. Þau dvöldu þar mörg undanfarin sumur og nutu þess vel sem og á æskustöðvum Hjalta á Siglunesi.

Síðustu mánuðir hafa verið mági mínum, systur minni og fjölskyldu þeirra mjög erfiðir. Hjalti greindist með krabbamein í byrjun desember. Hann var á Landspítalanum og Landakoti allan þann mánuð. Hann komst heim um áramótin og gat verið heima bróðurpart janúarmánaðar með mikilli aðstoð konu sinnar og barna. Öll vonuðum við að hann fengi svolítið lengri tíma en svo hrakaði honum fljótt. Hann varð að fara inn á líknardeild þar sem hann dvaldi síðustu sólarhringana. Konan hans var sem klettur hjá honum þann tíma og skiptust börnin þeirra á að vera með þeim. Hjalti kvaddi svo þessa jarðvist að morgni laugardagsins 3. febrúar.

Við Systa, börnin okkar og fjölskyldur viljum votta elsku Mundu, Unnari, Hönnu, Einari og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar. Þá viljum við þakka elsku Hjalta innilega fyrir samfylgdina í gegnum árin. Megi hann hvíla í friði.

Snorri Jóhannesson.