Þjálfarinn Dragisa Zecevic segir að hann og leikmenn Serbíu beri mikla virðingu fyrir liði Íslands sem hafi leikið á fjórum Evrópumótum.
Þjálfarinn Dragisa Zecevic segir að hann og leikmenn Serbíu beri mikla virðingu fyrir liði Íslands sem hafi leikið á fjórum Evrópumótum. — Ljósmynd/Vladimir Novak
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dragisa Zecevic, þjálfari serbneska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst þekkja mjög vel til íslenska landsliðsins og bera mikla virðingu fyrir því en sitt lið ætli sér að ná í hagstæð úrslit í fyrri leik þjóðanna í umspilinu um sæti í A-deild Evrópumóts kvenna

Í Belgrad

Vladimir Novak

vnovak@eunet.rs

Dragisa Zecevic, þjálfari serbneska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst þekkja mjög vel til íslenska landsliðsins og bera mikla virðingu fyrir því en sitt lið ætli sér að ná í hagstæð úrslit í fyrri leik þjóðanna í umspilinu um sæti í A-deild Evrópumóts kvenna.

Sá leikur fer fram í Stara Pazova, í nágrenni höfuðborgarinnar Belgrad, á föstudaginn en seinni umspilsleikurinn fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudaginn kemur.

„Ég þekki íslenska liðið mjög vel og hef skoðað síðustu 10-12 leiki þess. Í Þjóðadeildinni lék liðið auðvitað án Sveindísar Jane Jónsdóttur og hún er komin aftur. Hún er leikmaður sem getur breytt leikskipulagi íslenska liðsins,“ sagði Zecevic þegar Morgunblaðið ræddi við hann á æfingasvæði Rauðu stjörnunnar í Belgrad í gær.

„Við þekkjum alla leikmenn Íslands og þar eru margar hæfileikaríkar konur, til dæmis Karólína Vilhjálmsdóttir frá Bayer Leverkusen, líka Glódís Viggósdóttir, sem er bæði fyrirliði Íslands og Bayern München. Þær eru líka með frábæran markvörð og eru mjög sterkar í uppstilltum atriðum. En íslenska liðið á sér líka veikar hliðar og ég vona að okkar stúlkur nái að nýta sér þær,“ sagði Zecevic.

Spilum af hörku og dirfsku

Er Ísland sigurstranglegri aðilinn í þessu einvígi?

„Við berum mikla virðingu fyrir íslensku konunum. Þær hafa leikið á fjórum Evrópumótum, við ekki á einu einasta. Ef þú skoðar stöðu liðanna á heimslistanum er Ísland að sjálfsögðu sigurstranglegra liðið, en ég tel að í Serbíu sé aldrei annað lið en Serbía sigurstranglegra. Við erum á heimavelli. Við munum spila af hörku og dirfsku. Markmið okkar í fyrri leiknum er að ná í góð úrslit svo við getum mætt yfirvegaðri í útileikinn.“

Verður Serbía með sitt sterkasta lið?

„Fjórar af okkar konum eru fjarverandi vegna meiðsla. Hægri bakvörðurinn Aleksandra Lazarevic, miðjumennirnir Sara Pavlovic og Dejana Stefanovic og kantmaðurinn Miljana Ivanovic. Aðrir leikmenn koma í þeirra stað og allar sem eru mættar hingar eru klárar í slaginn.“

Hvernig leik býstu við? Telur þú að Ísland muni stjórna honum?

„Við reynum alltaf að vera með boltann og spila sóknarleik. Við munum því reyna að þvinga okkar leikstíl upp á íslenska liðið, en við erum líka tilbúin í plan B eða plan C, eftir því hvernig málin þróast.“

Margir á Íslandi hjálpa mér

Þegar þú aflaðir þér upplýsinga um Ísland, fékkstu einhverja punkta frá serbnesku leikmönnunum sem léku á Íslandi? Leikmönnum eins og Mariju Radojicic, Tijönu Krstic, Lidiju Stojkanovic, Vesnu Smiljkovic og Dönku Podovac og fleirum?

„Ég verð mér alltaf úti um upplýsingar eftir öllum mögulegum leiðum. Auk kvennanna sem þú nefndir eru núna á Íslandi um 20 serbneskir karlar sem spila þar fótbolta og léku undir minni stjórn þegar ég var í karlafótboltanum. Ég er í sambandi við þá alla og þeir hlakka til að koma og styðja okkur í seinni leiknum,“ sagði Dragisa Zecevic.

 Á mbl.is er einnig rætt við Nevenu Damjanovic og Jelenu Cankovic, leikmenn serbneska liðsins.