Gísli Laufeyjarson Höskuldsson
Gísli Laufeyjarson Höskuldsson
Þrátt fyrir mikilvægi menntunar í nútímasamfélagi er menntunarstig lágt á Íslandi. Orsök þess er meðal annars fjárhagslegar hindranir námsmanna.

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson

Öflugt menntakerfi er grundvallarforsenda framþróunar og velsældar í hverju samfélagi. Flestum eða öllum nútímasamfélögum er ljóst að til þess að fólk geti þroskast, lært og gefið af sér til samfélagsins er ríkulegt aðgengi að haldgóðri menntun nauðsynlegt skilyrði. Í hvert sinn sem íbúi samfélagsins fær ekki menntun við sitt hæfi vegna hindrana af einhverju tagi er því ekki aðeins um misskiptingu að ræða heldur missir allt samfélagið af því sem íbúinn hefði annars haft fram að færa. Ísland hefur sem betur fer lagt nokkuð á sig til að koma í veg fyrir þetta, enda værum við annars illa sett. Heilbrigðisstarfsfólk væri enn færra, hugvit og verðmætasköpun legðu þá lítið af mörkum til hagvaxtar og við ættum erfitt með að aðlagast hröðum tækniframförum og þróun í heiminum, svo fáein dæmi séu nefnd.

Lágt menntunarstig, enda dýrt að vera stúdent

Ef til vill er það býsna útbreidd skoðun að við stöndum okkur ágætlega í þessum efnum, hér sé ekkert mál að mennta sig, þekking sé mikil og við stöndum vel á pari við samanburðarþjóðir, en því
miður er þetta ekki rétt. Íslendingar eru menntaðir nokkuð, en ekki mikið: Við erum á meðal allra minnst menntuðu þjóða í OECD og stöndum öðrum Norðurlandaþjóðum mikið aftar. Þessi staða er snjóhengja sem mun falla á okkur í framtíðinni og er að stórum hluta til komin einmitt vegna þess að það er töluvert mál að ganga menntaveginn. Íslenskir stúdentar geta átt von á því að eiga í meiri fjárhagslegum erfiðleikum en evrópskir, einkum ef þeir reiða sig á námslán. 31% íslenskra stúdenta glímir við alvarleg fjárhagsvandræði, nokkuð sem eingöngu Georgía og Tyrkland geta „toppað“ í evrópskum samanburði.

Við verðum að spyrja okkur hvers vegna við höfum ekki getað gert betur en raun ber vitni – hvers vegna fólk langar ekki í háskólanám eða hefur ekki kost á því. Að mínum dómi er hluti svarsins augljós: Annars vegar hefur of margt fólk ekki efni á því að fara í nám og hins vegar ákveður of margt fólk að sleppa því, vegna þess að það er of dýrt. Sú staða er ólíðandi vegna þess að þetta fólk hefði getað orðið sérfræðingarnir sem okkur vantar í dag. Við þetta bætist að skortur á stuðningi við námsmenn hefur leitt af sér háa atvinnuþátttöku stúdenta, sem ílengjast af þeim sökum í námi og eru ólíklegri til þess að ljúka því. 72% allra íslenskra stúdenta vinna með námi, að sumarvinnu frátalinni, sem er með því allra mesta sem gerist í Evrópu.

Hafi ráðamenn sannarlega vilja til þess að á Íslandi höfum við öll jöfn tækifæri til náms yrði líklega engin ein aðgerð jafn árangursrík og að bæta námslánakerfið. Stúdentar hafa hartnær frá því að heimur skapaðist bent á að námslánin dugi ekki til framfærslu og við þekkjum öll napurlegar sögur þeirra sem greiða af námslánum, en samt hefur ekki verið gripið til almennilegra aðgerða sem stemma stigu við vandamálinu. Þangað til að það gerist verður háskólanám áfram þéttskipað af hindrunum og við missum af menntuðu fólki sem við getum ekki verið án til frambúðar. Til samanburðar eru aðgerðir til hagræðingar á háskólastigi lítið haldreipi. Rétt er þó í samhengi við hagræðingu að benda hér á að sómasamlegt námslánakerfi myndi draga úr atvinnuþátttöku, þar með auka námsárangur og bæta námsframvindu stúdenta. Þannig myndu ríkissjóði sparast milljarðar í tilkostnað á hverju ári. Þetta segi ég ekki út í loftið heldur eru þessi áhrif margreynd og hafa sýnt sig í öðrum OECD-löndum.

Ráðamönnum er frjálst að gera námslán þannig úr garði að hægt sé að þrífast á þeim. Þeir geta sömuleiðis hæglega séð til þess að námslán beri ekki sömu vexti og íbúðalán, að hvatatengdir styrkir séu a.m.k. sambærilegir við það sem er annars staðar á Norðurlöndum og að námslán séu veitt í samræmi við loknar námseiningar. Sú ákvörðun hefur verið tekin að skera við nögl í menntakerfinu og við hin, þjóðin og atvinnulífið, gjöldum fyrir missi tækifæra og lágt menntunarstig.

Ráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur endurskoðar nú lög um Menntasjóð námsmanna og nýtt breytingafrumvarp er væntanlegt í vor. Vonandi felur breytingin í sér að almennilega sé staðið að því að veita öllum tækifæri til náms – við höfum ekki efni á öðru.

Höfundur er lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.