Afgreiðslutími á virðisaukaskattsskýrslum með inneign yfir 5 milljónum styttist hjá skattinum milli ára 2022 og 2023. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn blaðsins en niðurstöðurnar eru sýndar hér til hliðar

Afgreiðslutími á virðisaukaskattsskýrslum með inneign yfir 5 milljónum styttist hjá skattinum milli ára 2022 og 2023.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn blaðsins en niðurstöðurnar eru sýndar hér til hliðar. „Í töflunni má sjá að meðalafgreiðslutími á inneignarskýrslum yfir 5 milljónum árið 2023 er 5,1 dagur samanborið við 6,4 daga árið 2022. Þá kemur fram að meðalafgreiðslutími á inneignarskýrslum yfir 5 milljónum sem teknar voru til sérstakrar skoðunar var 33,2 dagar árið 2023 samanborið við 34,2 daga árið 2022,“ segir í svari frá skattinum.

Tafirnar kosta sitt

Tilefnið er að atvinnurekandi hafði samband við Morgunblaðið og kvartaði undan hægagangi hjá skattinum við afgreiðslu á virðisaukaskattsskýrslum. Kvaðst hann hafa fengið þau svör að tafirnar skýrðust af kulnun hjá starfsfólki.

Þetta hefði valdið fyrirtæki hans miklum óþægindum enda væri um töluverðar fjárhæðir að tefla.

„Þess má geta að þegar virðisaukaskattsskýrslur eru teknar til sérstakrar skoðunar eru aðilum sendar fyrirspurnir í því skyni að kanna forsendur skýrslna og þess óskað að lögð séu fram nánari gögn ásamt skýringum sem upplýsingagildi hafa við afgreiðslu þeirra. Ef svör eru fullnægjandi eru skýrslur afgreiddar. Í öðrum tilvikum … er lagt fyrir skattaðila að veita nánari skýringar eða þá að virðisaukaskattur þeirra sé ákvarðaður,“ segir jafnframt í svari skattsins. baldura@mbl.is