„Spyrja má hvort þær breytingar sem Alþingi gerði á lögum um leigubifreiðar hafi dregið úr öryggi farþega,“ sagði Birgir Þórarinsson alþingismaður í umræðum um störf Alþings í gær, en þar skoraði hann á innviðaráðherra að beita sér strax …

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Spyrja má hvort þær breytingar sem Alþingi gerði á lögum um leigubifreiðar hafi dregið úr öryggi farþega,“ sagði Birgir Þórarinsson alþingismaður í umræðum um störf Alþings í gær, en þar skoraði hann á innviðaráðherra að beita sér strax fyrir endurskoðun laganna, en samkvæmt lögunum á að endurskoða þau á næsta ári.

Tilefni þessara orða er nýlegar fréttir af kynferðisbroti erlends hælisleitanda sem grunaður er um að hafa nauðgað konu sem tók sér far með leigubílnum.

„Okkur er öllum brugðið yfir fréttum þess efnis að erlendur leigubifreiðarstjóri sem kom til landsins fyrir fáeinum árum sem hælisleitandi sé grunaður um gróft kynferðisbrot, en eitt af skilyrðum þess að fá að aka leigubifreið er gott orðspor með tilliti til refsiverðrar háttsemi,“ sagði Birgir.

Sagði hann að ný lög um leigubifreiðar hefðu verið umdeild og mótmælt harðlega af stéttarfélagi leigubifreiðastjóra, en eitt áhyggjuefna þeirra hafi verið öryggi farþega og að því kynni að vera stefnt í hættu og var þar vísað m.a. til reynslu frá Svíþjóð eftir breytingu á leigubílalögum þar.

„Ný lög um leigubifreiðaakstur tóku gildi fyrir tæpu ári og grundvallarbreyting var gerð á lagaumhverfi um leigubifreiðaakstur. Fjöldatakmarkanir og stöðvarskylda voru afnumin. Auk þess þurfa leigubifreiðastjórar ekki lengur að tala íslensku. Það var dapurleg breyting,“ sagði Birgir og bætti því við að meirihluti handhafa nýrra leyfa til leigubílaaksturs í dag talaði ekki íslensku.