Guðrún Lára Sigurðardóttir fæddist 13. júní 1937. Hún lést 5. febrúar 2024.

Útförin fór fram 17. febrúar 2024.

Guðrún Lára Sigurðardóttir (Stella) fæddist á Kúfhóli 13. júní 1937. Hún lést 5. febrúar 2024. Hún var dóttir hjónanna Sigurðar Þorsteinssonar og Guðríðar Ólafsdóttur. Næstyngst níu systkina sem öll eru látin fyrir utan yngsta systkinið, Hjördísi Þorsteinsdóttur.

Elsku frænka, nú hefur þú lagt af stað í sumarlandið þar sem eiginmaður, foreldrar og systkini hafa tekið opnum örmum á móti þér. Þú ert laus við alla þjáningu og vanlíðan. Það er skrítið að fá ekki símtal til að ræða um daginn og veginn, grínast smá eða spjalla um hvað vantar í búðinni og skjótast svo til hennar Stellu frænku í kaffibolla.

Þú varst komin yfir miðjan aldur eins og sagt er þegar þú tókst þig upp og fluttir úr sveitinni til borgarinnar og eftirlést Hrafnkatli og fjölskyldu búskapinn. Þú byrjaðir á því að leigja og svo keyptir þú þér íbúð Í Hamraborginni og fluttir í hana. Þú varst svo lánsöm í þessum flutningum að þegar þú leigðir þér til að byrja með þá fékkstu íbúð hjá yndislegu fólki, þeim Kristínu og Heiðari í Rauðagerðinu. Þarna eignaðist þú yndislega og trausta vini, sú vinátta entist þér til síðasta dags. Kristín var þér afar kær og fylgdist hún grannt með þér síðustu dagana í þínum veikindum eins og hún hafði alltaf gert frá því þú fluttir úr Rauðagerðinu.

Elsku fallega og yndislega Stella, þú gafst aldrei upp, lífið var ekki alltaf dans á rósum en þú skautaðir gegnum það hnarreist og glæsileg eins og þú varst alltaf þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika á leiðinni. Uppgjöf var ekki til í þínum orðaforða. Þú áttir einn son hann Hrafnkel og svo fósturson hann Haldor. Þú saknaðir þess mikið seinni árin að Hrafnkell var ekki nær þér en hann var, en hann bjó áfram í sveitinni með sinni fjölskyldu þegar þú fluttir. Seinna flutti Haldor og fjölskylda í nágrenni við þig og það gladdi þig mikið. Þú varst svo glöð þegar þú fékkst langömmugullin þín í heiminn og sast oft og sýndir mér myndir af þeim þegar ég kom til þín, hreykin af ömmugullunum þínum. Þarna kom fésbókin sér vel. Mikið á ég eftir að sakna þín elsku frænka, sakna þess að fá ekki símtal, sakna þess að skjótast ekki í Hamraborgina til hennar Stellu frænku. Stundum rifjuðum við upp gamla og góða daga úr sveitinni og höfðum gaman af. Nú þegar þið báðar eruð farnar mamma og þú og svo öll systkinin fyrir utan eitt þá eru ekki margir eftir sem ég get hringt í og spurt um hitt og þetta sem mig vantar staðfestingu á að sé rétt hjá mér, forvitnast eða spyrja um eitthvað frá uppvaxtarárum ykkar systkina, spyrja um ömmu og afa.

Elsku Stella, takk fyrir samfylgdina gegnum lífið. Takk fyrir allar stundirnar sem ég átti með þér bæði í gleði og sorg, þær ylja í minningunni. Takk fyrir allt og allt, hvíl í friði, fallega og yndislega frænka.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Þín frænka,

Guðríður Sveinbjörnsdóttir (Gurry).