[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool býst við því að Diogo Jota, Curtis Jones og Alisson Becker verði allir lengi frá keppni vegna meiðsla

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool býst við því að Diogo Jota, Curtis Jones og Alisson Becker verði allir lengi frá keppni vegna meiðsla. Jota meiddist á hné og Jones meiddist á ökkla í sigri Liverpool á Brentford á laugardag, 4:1, og Alisson meiddist aftan á læri á æfingu degi fyrr. Klopp sagði í gær að Jota væri úr leik næstu mánuðina en óvissa væri með hina tvo. Þá eru Trent Alexander-Arnold og Dominik Szoboszlai á batavegi en ekki tilbúnir fyrir leik Liverpool gegn Luton í kvöld.

Skautafélag Reykjavíkur vann Fjölni, 8:4, í lokaleik Íslandsmóts karla í íshokkíi í Laugardalnum í gærkvöld. Fyrir leik var ljóst að SR yrði í öðru sæti og mun mæta Skautafélagi Akureyrar í úrslitaeinvíginu. Ellefu leikmenn skoruðu mörkin tólf og Axel Orongan hjá SR var sá eini sem skoraði tvö mörk í leiknum.

Valur hefur fengið til liðs við sig eina efnilegustu knattspyrnustúlku landsins. Það er hin 16 ára gamla Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sem skoraði 13 mörk í 17 leikjum fyrir meistaraflokk Hauka í 2. deild kvenna á síðasta ári. Þá hefur hún leikið 21 landsleik fyrir 17 ára og yngri og skorað þar fjögur mörk.

Björg Hafsteinsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í körfuknattleik, var á mánudag kjörin nýr formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, á aðalfundi þess. Er hún fyrsta konan í sögu félagsins sem tekur við formennsku hjá Keflavík. Einar Haraldsson lét af störfum sem formaður eftir 26 ára setu. Í fjögur ár á undan var hann varaformaður og hafði því verið í stjórn Keflavíkur í þrjá áratugi.

Þau Már Gunnarsson, Róbert Ísak Jónsson, Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir hafa öll verið valin til þátttöku á Evrópumeistaramóti IPC í sundi fatlaðra, sem fram fer í Madeira í Portúgal í apríl. EM fer fram dagana 21. til 27. apríl og er síðasta stórmótið fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fer fram í París í Frakklandi í ágúst og september.

Chris Wilder, knattspyrnustjóri Sheffield United, hefur fengið háa sekt fyrir ummæli sín um dómara eftir leik gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. Sektin nemur 11.500 pundum en það samsvarar tæplega tveimur milljónum íslenskra króna. Wilder sagði að frammistaða Tonys Harringtons dómara hefði verið fáránleg og þá hellti hann sér yfir annan aðstoðardómarann fyrir að borða samloku á meðan hann talaði við hann eftir leikinn.

BBC greindi frá því í gær að franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé hefði fengið 150 milljónir evra, 22,3 milljarða íslenskra króna, frá Real Madrid fyrir að skrifa undir fimm ára samning við félagið. Hann er væntanlegur til spænsku höfuðborgarinnar í sumar þegar samningur hans við París SG rennur út. Greiðsluna á hann að fá á fimm árum en þetta er fyrir utan árslaun hans sem nema um 2,2 milljörðum íslenskra króna.