Tímamót Petró Porósjenkó, fyrrverandi forseti Úkraínu, minnist þeirra sem féllu í febrúar 2014, rétt áður en Rússar réðust í fyrra sinn á Úkraínu.
Tímamót Petró Porósjenkó, fyrrverandi forseti Úkraínu, minnist þeirra sem féllu í febrúar 2014, rétt áður en Rússar réðust í fyrra sinn á Úkraínu. — AFP/Genya Savilov
Úkraínumenn minntust þess í gær að tíu ár voru þá liðin frá því að 77 manns féllu fyrir leyniskyttum á vegum stjórnvalda á Maidan-torginu í Kænugarði. Úkraínumenn segja þann dag marka upphaf fyrri innrásar Rússa í Úkraínu, þar sem þeir innlimuðu…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn minntust þess í gær að tíu ár voru þá liðin frá því að 77 manns féllu fyrir leyniskyttum á vegum stjórnvalda á Maidan-torginu í Kænugarði. Úkraínumenn segja þann dag marka upphaf fyrri innrásar Rússa í Úkraínu, þar sem þeir innlimuðu Krímskaga og hertóku hluta af Donbass-héruðunum, Donetsk og Lúhansk.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði á samfélagsmiðlum að áratugur væri nú liðinn frá því að Rússar hófu tilraunir sínar til að eyðileggja Úkraínu og sjálfstæði hennar. „En við stóðum þétt saman fyrir tíu árum og gerum það áfram í dag,“ sagði Selenskí. Andrí Jermak, skrifstofustjóri Selenskís, sagði að Rússland hefði reynt að breyta Úkraínu í nýlendu sína en mistekist.

Tímamótin komu á sama tíma og Rússar hertu mjög á árásum sínum í suðri og austri. Selenskí sagði að Rússar væru að nýta sér þær tafir sem orðið hefðu á því að hernaðaraðstoð frá vesturveldunum bærist. Sagði hann jafnframt að staðan væri erfið á nokkrum stöðum víglínunnar þar sem Rússar hefðu safnað saman miklu varaliði.

Selenskí nefndi sérstaklega að Úkraínuher vantaði skotfæri fyrir stórskotalið, loftvarnarkerfi í framlínunni og langdrægari vopn, en helst er beðið eftir því að fulltrúadeild Bandaríkjaþings afgreiði frumvarp um hernaðaraðstoð, sem metin er á um 60 milljarða bandaríkjadala.

Biden Bandaríkjaforseti sagði í símtali við Selenskí á sunnudaginn að hann væri þess fullviss að þingið myndi afgreiða aðstoðina, en fulltrúadeildin fór í tveggja vikna hlé í síðustu viku og snýr ekki aftur fyrr en hinn 28. febrúar.

Denís Shmíhal, forsætisráðherra Úkraínu, sagðist í gær trúa því að þingið myndi afgreiða frumvarpið mjög fljótlega og að Úkraína myndi halda baráttu sinni áfram. Sagði Shmíhal aðspurður að „stríðsþreyta“ væri einfaldlega ekki inni í myndinni, þar sem barist væri fyrir tilvist sinni. „Þú getur ekki verið þreyttur þegar þú berst fyrir framtíð þinni, lífi þínu og fyrir hið alþjóðlega öryggiskerfi,“ sagði Shmíhal.

Vega að baráttuþrekinu

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War sagði í stöðumati sínu í gær að rússneskir „aðilar“ hefðu hafið herferð í netheimum í kjölfar þess að bærinn Avdívka féll í hendur Rússa, sem miðast við að búa til usla meðal almennings í Úkraínu og draga úr baráttuþreki hans.

Mat hugveitunnar birtist sama dag og Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, tilkynnti að leyniþjónusta landsins hefði náð að stöðva „blandaða aðgerð“ á vegum rússnesku leyniþjónustunnar í Eistlandi.

Tíu manns voru þá handteknir fyrir að hafa valdið skemmdum á bifreiðum Lauris Läänemets, innanríkisráðherra Eistlands, og eins eistnesks blaðamanns í desember sl. Hópurinn mun einnig hafa skemmt minnismerki, en í tilkynningu leyniþjónustunnar um handtökurnar sagði að yfirvöld hefðu sönnunargögn fyrir því að meðlimir hans hefðu framið brot sín að skipan Rússa, en einn tilgangur árásanna var að valda misklíð í eistnesku samfélagi.

„Við vitum að Kremlverjar beina spjótum sínum að öllum okkar lýðræðislegu samfélögum. Svar okkar: Verum opin og greinum frá aðferðum þeirra. Þannig komum við í veg fyrir skaðlegar aðgerðir og aukum þrautseigju okkar,“ sagði Kallas á Twitter-síðu sinni í gær.

Vill fá líkið afhent strax

Ljúdmíla Navalnaja, móðir stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní, krafðist þess í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti afhenti sér lík sonar síns án nokkurra frekari tafa svo að hún gæti grafið hann á mannúðlegan hátt. Stuðningsmönnum Navalnís var tilkynnt í fyrradag að yfirvöld myndu ekki afhenda líkið næstu tvær vikurnar hið minnsta, en rússnesk stjórnvöld hafa verið sökuð um að vilja hylma yfir mögulega Novichok-eitrun.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær yfirlýsingar Júlíu, ekkju Navalnís, um að Pútín hefði myrt eiginmann sinn, „grófar og án nokkurra stoða“. Navalnaja svaraði Peskov á Twitter-síðu sinni og sagðist vera sama um það hvernig fjölmiðlafulltrúi morðingja túlkaði orð sín.

Aðstoðarmenn hennar sögðu í gær að hún hefði hvatt utanríkisráðherra Evrópusambandsins til þess að viðurkenna ekki komandi forsetakosningar í Rússlandi, sem fara fram 15.-17. mars nk. Sagði hún að forseti sem léti myrða sinn helsta andstæðing gæti ekki talist lögmætur valdhafi. Þá hefði hún hvatt forkólfa ESB til að gera alltaf skýran greinarmun á Pútín og Rússlandi.

Franska utanríkisráðuneytið kallaði í gær eftir óháðri rannsókn á andláti Navalnís, en Frakkar kölluðu sendiherra Rússa á teppið á mánudaginn vegna málsins. Þá lýstu Frakkar áhyggjum sínum af heilsufari stjórnarandstæðingsins Vladimírs Kara-Murza, en hann afplánar nú 25 ára fangelsisdóm fyrir að hafa gagnrýnt innrás Rússa í Úkraínu. Evrópusambandið tók í gærkvöldi undir ósk Frakka um óháða rannsókn á andlátinu.

Bændur mótmæla í Póllandi

Pólskir bændur hófu á ný mótmæli sín gegn kornflutningum frá Úkraínu. Stöðvuðu þeir tvo lestarvagna á landamærunum við Medyka og helltu korninu sem var í þeim á teinana. Mótmæli bændanna hafa staðið yfir undanfarna mánuði, en þeir segjast búa við ósanngjarna samkeppni þar sem kornið frá Úkraínu sé mun ódýrara en innlend framleiðsla.

Bændurnir lokuðu einnig um hundrað þjóðvegum sem liggja á milli Úkraínu og Póllands. Mykola Solskí, landbúnaðarráðherra Úkraínu, fordæmdi mótmælin og sagði að kornið hefði verið ætlað á markað í Þýskalandi. Sagði Solskí það óviðunandi að mótmælin kæmu í veg fyrir viðskipti Úkraínu við önnur ríki.

Oleksandr Kúbrakov, innviðaráðherra Úkraínu, sagði atvikið í gær vera pólitíska ögrun, sem ætlað væri að spilla samskiptum Póllands og Úkraínu. Þá mótmælti ríkislestarfélag Úkraínu einnig mótmælunum og því að ráðist hefði verið á flutningavagna félagsins.

Kristersson fer til Búdapest

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, mun funda á föstudaginn í Ungverjalandi með forsætisráðherranum Viktor Orbán, en stefnt er að því að ungverska þingið staðfesti aðildarumsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu (NATO) á mánudaginn.

Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa kallað eftir slíkum fundi leiðtoganna tveggja síðustu vikur eftir að Ungverjar urðu óvænt eina NATO-ríkið sem átti eftir að staðfesta umsóknina. Hafa ungversk stjórnvöld sakað Svía um að fara niðrandi orðum um stjórnarfar í Ungverjalandi, og ákváðu þingmenn ríkisstjórnarflokksins Fidesz að sniðganga fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um aðildina í byrjun febrúar.

Orbán sagði á samfélagsmiðlum í gær að sér yrði það sönn ánægja að taka á móti Kristersson í Búdapest, en samkvæmt sænska forsætisráðuneytinu munu þeir ræða öryggis- og varnarsamstarf ríkjanna tveggja.

Mate Kocsis, þingflokksformaður Fidesz, sagði þegar kynnt var um atkvæðagreiðsluna á mánudaginn að flokkurinn hygðist samþykkja aðildina, en Orbán sagði í fyrradag að hann og Kristersson hefðu stigið mikilvæg skref til þess að „endurreisa traust“ á milli ríkjanna.

Svíar tilkynntu einnig í gær að þeir myndu senda 7,1 milljarð sænskra króna, eða um 94 milljarða íslenskra króna, í hernaðaraðstoð til Úkraínu. Munu Svíar senda skotfæri fyrir stórskotalið og loftvarnir, auk þess sem þeir munu láta Úkraínumönnum í té báta og neðansjávarvopn. Er þetta stærsti aðstoðarpakki Svía til Úkraínu til þessa, en Pal Jonson varnarmálaráðherra lagði áherslu á að vopnasendingar Svía til Úkraínu yrðu bæði stöðugar og reglulegar til að aðstoða Úkraínu við varnir sínar.