Mögnuð Jodie Foster fer á kostum í þáttunum.
Mögnuð Jodie Foster fer á kostum í þáttunum. — Skjáskot/HBO
Jæja, þá hafa Jodie Foster og félagar lokið við að leiða okkur í gegnum fjórðu seríuna af True Detective, þar sem flakkað hefur verið á milli Dalvíkur og Reykjanesbæjar, með viðkomu á ýmsum fleiri tökustöðum, ofan og neðan jarðar

Björn Jóhann Björnsson

Jæja, þá hafa Jodie Foster og félagar lokið við að leiða okkur í gegnum fjórðu seríuna af True Detective, þar sem flakkað hefur verið á milli Dalvíkur og Reykjanesbæjar, með viðkomu á ýmsum fleiri tökustöðum, ofan og neðan jarðar.

Hér verður ekkert fullyrt um hvernig þættirnir enduðu, í virðingarskyni við þá sem eiga eftir að horfa, eða ætla að leggjast í síðbúið hámhorf. Þó skal það sagt að endirinn er óvæntur, eins og vera bera í tryllisögum, en kannski ekki alveg í takti við hamaganginn sem á undan hafði gengið.

Alls ekki það besta sem maður hefur séð í sjónvarpi en ekki það versta. Foster ber þessa þætti uppi með stórkostlegum leik og mótleikkona hennar, Kali Reis, er einnig mögnuð sem lögreglukonan Navarro. Íslensku leikararnir fengu mislangar línur og flestir vel útataðir í blóði.

Skiljanlegt er að Ísland hafi orðið fyrir valinu sem tökustaður, sem ætlað er að hýsa lítinn námubæ norður í rassi í Alaska, þar sem sólin skín ekki vikum saman. Myrkrið kallar fram hið óþekkta og yfirnáttúrulega í mannskepnunni og nægir að líta yfir sögu íslenskrar kvikmyndagerðar, þar sem skammdegisþunglyndi og skrítnar skepnur eru allsráðandi. Hollywood hefur kveikt á þeirri peru.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson