Grindavík HMS leggur til að nefnd fjalli um ágreiningsmál um matið.
Grindavík HMS leggur til að nefnd fjalli um ágreiningsmál um matið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Í kjölfar atburðanna í Grindavík hafa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist á undanförnum mánuðum fjöldamargar umsóknir um endurmat brunabótamats á íbúðarhúsnæði og þá einkum vegna húseigna í Grindavík.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Í kjölfar atburðanna í Grindavík hafa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist á undanförnum mánuðum fjöldamargar umsóknir um endurmat brunabótamats á íbúðarhúsnæði og þá einkum vegna húseigna í Grindavík.

Þetta kemur fram í umsögn HMS um frumvarp fjármálaráðherra um kaup félags í eigu ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Gengið er út frá því í frumvarpinu að brunabótamat eignanna verði notað sem grunnur að kaupverðinu og skal greiðslan nema 95% af brunabótamati á kaupdegi að frádregnum áhvílandi veðskuldum.

„Frá og með 11. nóvember 2023 og fram til dagsins í dag hafa eigendur 598 íbúða í Grindavík lagt inn umsókn um endurmat og hafa 244 umsóknir þegar verið afgreiddar. Hefur endurskoðun brunabótamats leitt til hækkunar á brunabótamati íbúðarhúsnæðis um þrjá milljarða kr.,“ segir í umsögn HMS.

Sumir sæki um endurmat

Stofnunin bendir á að þar sem greiðsla fyrir íbúðarhúsnæði tekur mið af brunabótamati á kaupdegi megi búast við að þeir húseigendur í Grindavík sem hyggjast selja íbúðarhúsnæði sitt til eignaumsýslufélags ríkisins komi til með að sækja um endurmat hafi þeir ekki þegar gert það. Lög kveða á um að skjóta megi ágreiningi um brunatryggingar til yfirfasteignamatsnefndar sem að mati HMS gæti átt illa við í þeim tilvikum sem frumvarpinu er ætlað að fanga, s.s. vegna tímafrests sem gert er ráð fyrir, og að í eðli sínu sé brunabótamati ekki ætlað að vera grundvöllur markaðsverðs húseigna.

„Til að tryggja jafnræði og skjóta málsmeðferð mætti skoða að setja á fót sérstaka nefnd sem starfi tímabundið til 1. júlí sem taki til úrlausnar ágreiningsmál vegna ákvarðana Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um brunabótamat húseigna í Grindavík,“ segir í umsögn HMS.

Ýmis gjöld ekki með

Fram kemur í umfjöllun HMS að í brunabótamati sé ekki gert ráð fyrir lóðarverði eða gjöldum á borð við gatnagerðargjöld eða inntaksgjöld þar sem ekki þurfi að greiða fyrir það aftur þegar hús er byggt á ný komi til altjóns. „Þá eru ýmis verðmæti sem tengjast fasteign sem ekki er gert ráð fyrir að geti brunnið ekki inni í brunabótamati. Það eru til dæmis hlutir á borð við steypt eða hellulagt bílaplan, steyptar eða hellulagðar stéttar og verandir, steyptir skjólveggir eða neitt sem stendur á lóðinni og er ekki beintengt við húsið.“

Til skoðunar í þingnefnd

Húsakaupafrumvarpið vegna Grindavíkur er nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Á fjórða hundrað umsagnir um frumvarpið bárust á meðan það var til kynningar í samráðsgátt.

Níu umsagnir bárust þingnefndinni áður en umsagnarfrestur rann út 19. febrúar.