Gasasvæðið Reykur stígur hér upp frá Khan Younis eftir loftárásir í gær.
Gasasvæðið Reykur stígur hér upp frá Khan Younis eftir loftárásir í gær. — AFP/Said Khatib
Bandaríkin beittu í gær neitunarvaldi sínu á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem þess var krafist að tafarlausu vopnahléi yrði komið á í átökum Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasasvæðinu

Bandaríkin beittu í gær neitunarvaldi sínu á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem þess var krafist að tafarlausu vopnahléi yrði komið á í átökum Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasasvæðinu.

Fulltrúar Bandaríkjanna hjá öryggisráðinu höfðu fyrr um daginn lagt fram sína eigin ályktun, þar sem öryggisráðið fyrirskipaði vopnahlé, en sú ályktun gerði ekki ráð fyrir að það tæki gildi þegar í stað.

Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í gær að það að láta atkvæði ganga um fyrri ályktunina, sem Alsír lagði upphaflega fram, væri ábyrgðarlaust og bæri vott um óskhyggju.

„Við getum ekki stutt ályktun sem myndi tefla viðkvæmum viðræðum í hættu,“ sagði Thomas-Greenfield, og vísaði þar í viðræður í Kaíró um frelsun þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas-samtakanna eftir árás þeirra á Ísrael 7. október síðastliðinn.

Ákvörðun Bandaríkjanna um að beita neitunarvaldinu var gagnrýnd harðlega, og sagði Riyad Mansour, fulltrúi Palestínumanna hjá SÞ, að það væri „skeytingarlaus og hættuleg“ ákvörðun. Kínverjar og Rússar, sem einnig hafa neitunarvald, gagnrýndu sömuleiðis Bandaríkjastjórn fyrir stuðning sinn við Ísrael, en Frakkar, Maltverjar og Slóvenar tóku líka þátt í gagnrýninni.

Veitir ekki skjól fyrir árás

Ísraelar undirbúa nú landhernað í Rafah-borg, og hafa þeir gefið Hamas frest fram í byrjun Ramadan hinn 10. mars nk. til þess að frelsa alla gísla sína úr haldi. Bandaríkin hafa ásamt öðrum ríkjum beint að Ísraelsmönnum að þeir reyni að lágmarka mannfall meðal óbreyttra borgara og sagði Thomas-Greenfield í gær að ályktun Bandaríkjastjórnar væri ekki hugsuð til þess að veita Ísraelsmönnum skjól til að ráðast á Rafah.

Í ályktunardrögum Bandaríkjanna er sérstaklega mælt gegn sókn inn í Rafah-borg, en talið er líklegt að Rússar muni beita neitunarvaldi sínu á allar ályktanir sem Bandaríkin leggja fram.