Stuð Páll Sveinsson, Ríkharður Arnar, Jón Örvar, Erna Hrönn og Örlygur Smári verða á ferðinni á næstunni.
Stuð Páll Sveinsson, Ríkharður Arnar, Jón Örvar, Erna Hrönn og Örlygur Smári verða á ferðinni á næstunni.
Hljómsveitin Hr. Eydís verður með ferna tónleika á næstunni og byrjar yfirreiðina í Bæjarbíói í Hafnarfirði laugardaginn 24. febrúar, verður svo á Græna hattinum á Akureyri laugardaginn 2. mars og á Sviðinu á Selfossi 22

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hljómsveitin Hr. Eydís verður með ferna tónleika á næstunni og byrjar yfirreiðina í Bæjarbíói í Hafnarfirði laugardaginn 24. febrúar, verður svo á Græna hattinum á Akureyri laugardaginn 2. mars og á Sviðinu á Selfossi 22. og 23. mars. „Við erum miðaldra uppteknir menn og höfum því spilað minna en við vildum en ætlum að bæta úr því,“ segir
Örlygur Smári, gítarleikari og söngvari.

Bandið var stofnað fyrir um ári í þeim tilgangi að spila þekkt lög frá 9. áratugnum (80's) og ábreiður þess hafa vakið töluverða athygli. Örlygur Smári líkir byrjuninni við eins konar saumaklúbb nokkurra tónlistarmanna. Hann segir að fljótlega hafi komið upp sú hugmynd að taka lög sveitarinnar upp og setja á streymisveituna Youtube (youtube.com/@eydisband). Uppátækið hafi skilað sér og boltinn farið að rúlla. „Við höfum sett inn nýtt lag annan hvern föstudag í að verða eitt ár, reyndar á hverjum föstudegi fyrstu mánuðina, þannig að stöðugt bætist í sarpinn.“

Í sveitinni eru, auk Örlygs Smára, Ríkharður Arnar, hljómborðsleikari og bakraddasöngvari, Jón Örvar Bjarnason, bassaleikari og bakraddasöngvari, og Páll Sveinsson trommuleikari. Erna Hrönn Ólafsdóttir söngkona verður sérstakur gestur á tónleikaröðinni. „Hún þekkir lagavalið út og inn þótt hún sé um tíu árum yngri en við félagarnir í Hr. Eydísi. Við köllum tónleikana „Alvöru 80's partí“ enda verða þeir það. Við prufuðum þetta á Sviðinu á Selfossi um miðjan október og það varð mikið partí úr því, uppselt og sérlega vel heppnað. Fólk á okkar góða aldri virðist þyrst í að heyra þessi flottu lög.“

Virðing

Örlygur Smári bendir á að 9. áratugurinn hafi verið sérlega skemmtilegt tímabil í tónlistarsögunni. „Ekki merkilegra tímabil en önnur en ákveðnir hlutir gerðust. Hljóðgervillinn [e. synthesizer] hóf til dæmis innreið sína og áratugurinn var mjög opinn hvað tónlist varðar, svolítil tilraunamennska. Þótt sveitir eins og Duran Duran og Spandau Ballet séu einkennandi fyrir áratuginn var margt fleira í gangi og Hr. Eydís hefur úr nógu að velja.“

Tónlistin risti djúpt á sínum tíma, að sögn Örlygs Smára, og skemmtilegt sé að endurvekja hana með Hr. Eydísi. „Þetta er tónlist unglingsára minna og gaman er að velta sér aftur upp úr henni, þegar maður er kominn á svona virðulegan aldur, og sjá hvað er í raun mikið í þessum lögum. Lengi vel var þessi tónlist töluð niður en hún er að hefjast aftur til vegs og virðingar og á það fyllilega skilið.“

Strákarnir sendu frá sér frumsamið lag, „Þú veist það nú“, um miðjan september og fengu Herbert Guðmundsson söngvara, „80's-goðsögnina“, þá til liðs við sig, en Hebbi verður með afmælistónleika í Háskólabíói 8. mars. „Lagið fékk frábærar viðtökur og sat í fjóra mánuði á vinsældalista Bylgjunnar,“ segir Örlygur Smári. Meira af frumsömdu efni í anda áratugarins sé að vænta frá Hr. Eydísi. „Við erum bara rétt að byrja.“