Stjórnandi Magnús Ragnarsson söng Jóhannesarpassíuna fyrst 19 ára gamall. Nú stjórnar hann flutningnum.
Stjórnandi Magnús Ragnarsson söng Jóhannesarpassíuna fyrst 19 ára gamall. Nú stjórnar hann flutningnum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kór Langholtskirkju flytur Jóhannesarpassíuna eftir Johann Sebastian Bach í Langholtskirkju á sunnudaginn kl. 17. Hægt er að tala um afmælistónleika í tvennum skilningi en verkið var fyrst flutt í Leipzig í Saxlandi fyrir réttum 300 árum, þar sem…

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Kór Langholtskirkju flytur Jóhannesarpassíuna eftir Johann Sebastian Bach í Langholtskirkju á sunnudaginn kl. 17. Hægt er að tala um afmælistónleika í tvennum skilningi en verkið var fyrst flutt í Leipzig í Saxlandi fyrir réttum 300 árum, þar sem Bach starfaði sem tónlistarstjóri, og nú eru 40 ár liðin frá því að Kór Langholtskirkju reyndi sig fyrst við verkið en það gerir hann nú í níunda skipti.

Magnús Ragnarsson, organisti og kantor kirkjunnar, mun stjórna flutningnum og segir verkefnið leggjast mjög vel í sig. „Við fluttum Jóhannesarpassíuna síðast fyrir þremur árum, fundum smá smugu í Covid, en þá þurftum við meira og minna að æfa hvert í sínu lagi. Rétt eftir tónleikana var svo aftur skellt í lás. Núna búum við að þeim æfingum og þetta hefur gengið hratt og vel fyrir sig; þetta frábæra verk situr yfirleitt vel í fólki, þegar það hefur á annað borð lært það,“ segir Magnús.

Bach er snúinn

Nokkrir nýliðar eru í kórnum sem nú spreyta sig á verkinu í fyrsta sinn en enginn sem tók þátt í flutningnum 1984 er ennþá í kórnum. „Við vorum með opna æfingu um daginn og mögulega hefur einhver mætt á hana sem var með 1984 en enginn úr þeim hópi verður þó með á tónleikunum,“ segir Magnús.

Sjálfur söng hann Jóhannesarpassíuna fyrst 19 ára gamall með Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns heitins Stefánssonar. „Bach er snúinn og maður þarf að lemja verk hans inn í sig en þegar maður er búinn að því þá sitja þau föst í minninu. Margir aðrir hafa talað um þetta.“

Magnús segir oft áhugavert að koma aftur að sama tónverkinu, ekki síst verkum Bachs, sem sé óvenjulega marglaga tónskáld. „Maður finnur alltaf eitthvað nýtt hjá Bach og dáist að því hvað hann er djarfur, bæði í hljómfræðinni og framsetningunni. Verk hans eru þeirrar náttúru að maður vill glíma við þau aftur og aftur og sökkva sér niður í þau. Þetta er eitt af mínum uppáhaldstónverkum, snertir hverja æð í manni.“

Segja má að Bach hafi átt sviðið hérlendis að undanförnu en flutningur Víkings Heiðars Ólafssonar á Goldberg-tilbrigðunum í Hörpu í liðinni viku vakti óskipta athygli. Píanóleikarinn talaði af því tilefni á svipuðum nótum og Magnús gerir hér, ómetanlegt sé að fá að glíma við tónskáld sem er svo marglaga.

Verkið er byggt á frásögn Jóhannesarguðspjalls af síðustu stundunum í lífi Jesú, píslum hans og krossfestingu. Bach þykir mála sögusvið atburðanna á einstaklega áhrifaríkan hátt með mögnuðu tónmáli sínu.

„Guðspjallamaður leiðir áheyrendur í gegnum hina sígildu frásögn af samskiptum Krists og Pílatusar og eftirmálum þeirra, sem leifturkórar þrungnir spennu og dramatík brjóta upp í bland við kórala og aríur, sem veita hvíld frá píslarsögunni og vekja áheyrendur til umhugsunar um frásögnina,“ segir í kynningu kórsins.

„Framvindan í Jóhannesarpassíunni er mjög dramatísk og auðvelt að hrífast með og detta inn í frásögnina. Múgæsingin sem ríkir er ekki endilega háð skynseminni, ekkert frekar en í dag. Maður hefur samúð með Jesú en dregst líka inn í innri baráttu Pílatusar,“ segir Magnús og bætir við að Bach verðskuldi að fullu titilinn fimmti guðspjallamaðurinn.

Frábærir einsöngvarar

Hlutverk guðspjallamannsins verður í höndum Benedikts Kristjánssonar, sem syngur jafnframt allar tenóraríur verksins. Benedikt hefur lagt sig sérstaklega eftir flutningi á verkum Bachs og fengið mikla viðurkenningu fyrir list sína í Þýskalandi, Austurríki og víðar. „Benedikt var með okkur síðast og það er frábært að hafa aðgang að söngvara sem syngur mikið Bach. Núna á föstunni flýgur hann um allan heim og syngur til skiptis Jóhannesarpassíuna og Mattheusarpassíuna. Hann er önnum kafinn en þegar við vissum að hann yrði hér í nokkra daga í febrúar þurftum við ekki að hugsa okkur lengi um.“

Aðrir einsöngvarar eru Fjölnir Ólafsson bassi, Hildigunnur Einarsdóttir messósópran, Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran og Ólafur Freyr Birkisson bassi.

„Þau eru ekki síður frábær,“ segir Magnús sem einnig ber lof á kammersveitina sem tekur þátt í flutningnum en fyrir henni fer Páll Palomares. „Þetta er nokkurn veginn sama hljómsveit og síðast sem er mjög ánægjulegt enda er þetta fólk sem kann að spila barokktónlist og kann að spila í kirkju. Hljómburðurinn er auðvitað lykilatriði þegar svona verk er flutt og hann er svo sannarlega fyrir hendi í Langholtskirkju.“

Meðan ból eru byggð

Þið fenguð frábæra dóma fyrir flutninginn fyrir þremur árum. Ætlið þið að gera enn betur nú?

„Mottó allra listamanna er að gera alltaf betur og það á að sjálfsögðu við um okkur. Þetta var einstakt síðast en auðvitað krossleggur maður fingur og vonar að þetta verði enn betra núna. Það er nefnilega erfitt að hjakka í Bach.“

Tíminn er sem kunnugt er afstætt hugtak og Magnús gerir ekki ráð fyrir því að Bach sjálfur hafi verið að velta fyrir sér á sinni tíð hvort verk hans yrðu enn í umferð 300 árum síðar. „Ég held að enginn heilbrigður listamaður hugsi þannig. Hann gleymdist líka í um 100 ár en kom aftur og verk hans hafa lifað góðu lífi síðan, þau sem hafa varðveist. Bach var ótrúlega afkastamikill og margt hefur því miður glatast. Ég efast ekki um að hann muni lifa í nokkrar aldir í viðbót; eða meðan ból eru byggð.“