Unnur Inga Pálsdóttir fæddist 22. september 1932 í Reykjavík. Hún lést 9. febrúar 2024 á Landspítalanum í Fossvogi.

Frá fimm vikna aldri voru kjörforeldrar Unnar Ingu, Ólafía Guðrún Andrésdóttir Blöndal, húsfreyja á Grjóteyri í Kjós, f. 14. mars 1903, d. 21. desember 1983, og Magnús Árnason Jónsson Blöndal, bóndi á Grjóteyri í Kjós, f. 9. apríl 1899, d. 5. júlí 1979. Kynmóðir Unnar var Hildur Jósefína Gunnlaugsdóttir, vinnukona á Bergsstöðum við Kaplaskjólsveg, f. 1. janúar 1909, d. 2. september 2007, og Páll Jónsson, skipstjóri og síðar fisksali á Skólavörðustíg, f. 12. september 1880, d. 12. september 1942. Hálfsystir Unnar er Gunnhildur Kristjánsdóttir, dóttir Hildar, f. 26. júlí 1942.

Maki Unnar frá 1988 var Sigurður Magnússon, f. 13. mars 1934, d. 3. október 2009. Fóstursonur Unnar er Sigurður Fjalar Sigurðarson verkfræðingur, f. 9. apríl 1979, kvæntur Hildi Guðnýju Ásgeirsdóttur sjúkraþjálfara, f. 17. janúar 1980. Börn þeirra eru Ylfa Margrét, af fyrra sambandi Fjalars, Ásgeir Gauti og Sigurður Torfi.

Unnur var Kjósverji í húð og hár. Ólst upp við bústörf með foreldrum sínum á Grjóteyrinni þar sem iðulega var margt um manninn. Unnur fór í Hússtjórnarskólann veturinn 1942-1943 og fékk að loknu námi mikið hrós fyrir gott handverk, sérstaklega vefnað. Þegar foreldrar hennar hættu búskap á Grjóteyri og fluttust á Ásbraut 5 í Kópavogi árið 1963 hóf hún störf í MR-búðinni sem var á Laugavegi 164. Þar sinnti Unnur afgreiðslustörfum í fimm ár. Árið 1968 hóf hún síðan störf hjá Íslenska álfélaginu (ÍSAL) í mötuneyti álversins. Ekki leið langur tími þar til hún var orðin flokkstjóri í eldhúsi og gegndi því starfi af kostgæfni til ársins 2000 þegar hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Síðasta árið dvaldi Unnur á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík.

Útför Unnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 21. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku Unnur mamma mín.

Þegar ég hugsa til baka eru mínar fyrstu minningar af þér þegar þú kemur til að vera hjá mér þegar pabbi þurfti að fara í hjartaaðgerð á Landspítala. Ég er þá níu ára, minnir mig. Það varð fljótlega til ákveðin rútína hjá okkur þar sem þú eldaðir fyrir mig hafragraut í fyrra fallinu á hverjum morgni og síðan þurftirðu að keyra í gegnum morgunumferðina alla leið inn í Straumsvík og vera mætt þar fyrir klukkan átta á morgnana. Þegar degi lauk og þú komst til baka spiluðum við oft rommí – ef ég var þá ekki bara úti með vinum. Á kvöldin fékkstu þér alltaf einn kaffibolla í viðbót fyrir svefninn og síðan þurfti ég auðvitað að stríða þér aðeins með því að setja sokka undir lakið á rúminu hjá þér. Þér fannst það alltaf fyndið nema einu sinni. Grínið varð að lokum þreytt.

Þú varst mín stoð og stytta á mínum mótunarárum og ekki bara mín heldur einnig pabba því ykkar vinskapur var það besta sem kom fyrir hann frá því að þið tókuð saman og hann kvaddi árið 2009. Sameiginlegur brennandi áhugi ykkar á ferðalögum er ótrúlega fallegur þegar maður hugsar til baka og maður sér það líka á öllum myndunum sem þú tókst af náttúrunni á ferðalögum ykkar. Þú varst sannkallað náttúrubarn.

Hildur mín og Ylfa, Ásgeir og Siggi litli okkar sakna þín og þá sérstaklega þess að fara með þér á rúntinn inn í Kjós eða á rúntinn í kringum Sóltún á fjórhjólinu fína sem við fengum lánað í sjúkraþjálfuninni. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta þeirra og okkar allra.

Það er með miklum söknuði og ævarandi þakklæti sem ég kveð þig nú og vona að þú og pabbi séuð enn og aftur á ferðalagi í húsbíl á fallegum stað í sumarlandinu.

Þinn sonur,

Fjalar.

Hér kemur hinsta kveðja frá ömmu til ömmu.

Við Unnur hittumst fyrst fyrir rúmum átta árum, þegar Fjalar fóstursonur hennar og tengdasonur minn kynnti okkur.

Minning kemur upp um ferð okkar saman með Fjalari, í bíltúr upp í Kjós, þaðan sem Unnur var. Hún naut sín í botn, benti á og sagði frá kennileitum og sagði sögur. Léttilega stökk hún út úr bílnum til að heilsa upp á fólk í bæjarhlaði. Það leyndi sé ekki að þarna voru rætur Unnar en hún hafði fyrir löngu flutt úr sveitinni suður í Kópavoginn.

Við Unnur áttum eftir að hittast reglulega með fjölskyldunni og oftar eftir að barnabörnunum okkar saman fjölgaði. Ég sé Unni fyrir mér svartklædda, hægláta með rauða hárið, sjálfstæða, milda, góðviljaða og sposka á svip.

Matur skapar samverustundir og minningar. Ég mun alltaf minnast hangikjötsins góða sem Unnur matbjó á sinn hátt og bar fram með baunasúpu á Þorláksmessu. Á aðfangadagskvöld tókum við svo upp konfektkassa hvor frá annarri og hlógum alltaf yfir því hversu uppfinningasamar við vorum í valinu.

Unnur bjó í Sóltúni síðustu ár og nú er sólin gengin til viðar. Við tengdafjölskyldan minnumst Unnar með gleði, hlýju og miklu þakklæti. Ykkur, elsku Fjalar, Hildur, Ylfa, Ásgeir og Siggi, sendum við dýpstu samúðarkveðjur.

Ólöf Ásta Ólafsdóttir.